föstudagur, desember 01, 2006

Jóla jóla!!

Búin að setja upp inniseríurnar...vííííí!!! Það er svo gaman að hafa jólaljós. Búin að fjárfesta í nýrri útiseríu, nú er bara að bíða eftir því að rokið hætti, þá verður Gassinn rekinn upp í stiga til að hengja upp ;o)
Annars ekkert að frétta, fjárhúsin klár og búið að taka féð inn. Rúningur hafinn, mamma skilur ekkert í þessu; ef það er ekki verið að moka og keyra skít á þessum bæ er verið að rýja...(eða það finnst henni allavega!).
Stefnan sett á Reykjavíkina um næstu helgi; mamma, ég og krakkarnir förum og bruðlum alveg ógurlega ;o) Svo ætlum við Garðar að reyna að fara bara tvö ein einhvern tímann fyrir jólin. Þeas. ef barnið ákveður ekki að koma í heiminn áður....

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Ég held uppteknum hætti og skrifa ekki neitt hér inn nema með löööööööööööngu millibili. Ég hef heldur ekkert verið þekkt fyrir (held ég??) að kjafta af mér, best að breyta ekkert út af vananum með það.
Í fréttum er það helst að það er búið að vera skítaveður upp á síðkastið, rok og endalaust rok. Höfum sloppið tiltölulega vel með ofankomuna, sem betur fer. Nýju fjárhúsin líta út eins og það hafi verið varpað sprengju inn í þau, við máttum grafa upp í kringum allar stoðir og gera einhverja aukastyrkingu í kringum þær. Ekki að ég viti nokkurn skapaðan hlut um það, veit bara að það er ömurlegt að standa í þessu! Eigum eftir að steypa í þetta, vonandi hefst það af í vikunni (sem ég hef nú ekki mikla trú á vegna þess hve miklu frosti er spáð) þar sem að við komum náttúrulega engu fé þarna inn eins og staðan er í dag.

Núna er rétt rúmur mánuður þangað til krakkagrislingur númer 3 á að koma í heiminn, get ekki sagt að ég sé búin að koma miklu í verk í tengslum við það. Þarf endilega að fara að skipuleggja eitthvað, í það minnsta hvar/hvernig ég ætla að koma blessuðu barninu fyrir með sitt dót inn í svefnherbergi. Eins og flestir kannski vita er herbergjum ekkert ofaukið hér í þessu húsi.

Við keyptum okkur aðra holdakýr og ber hún það virðulega nafn Karolína. Garðar elskar hana út af lífinu, hann er nefnilega ekki vanur svona skapgóðri skepnu. Hann dásamar hana á hverjum degi og blótar hinni.... okkur hefur nefnilega ekki enn tekist að ná Karamellu og Lakkrís inn þrátt fyrir margar tilraunir. Í hvert skipti sem á að reyna að plata hana inn hleypur kálfskrattinn af stað með halann beint út í loftið og tekur með sér svona eins og eina, tvær girðingar í leiðinni. Og auðvitað æðir þá kusa á eftir honum, þó held ég að hún vilji nú komast inn. Það er sko ekkert grín að vera kúabóndi ;0)

föstudagur, október 13, 2006

Stóðréttirnar búnar...

og það er ekki hægt að segja að heimtur séu góðar. Okkur vantar eitt folald og 3. vetra mertryppi, og eitt folald var ekkert nema skinn og bein og við máttum lóga því þegar heim var komið. Alveg hreint ótrúleg afföll á einum bæ finnst mér nú. Ég var nú að tala um að það þyrfti að fara að fækka í stóðinu, en þetta var nú ekki alveg það sem ég vildi!

Annars gekk helgin vel fyrir sig, Gummi Sveins, Hanni og Hilmar voru hérna og sötruðu ýmsar veigar með húsbóndanum. Bara fínasta helgi....fyrir utan hrossamissinn að sjálfsögðu.
Nenntum ekki á ballið, verður bara tekið betur á því að ári liðnu ;o)

Ómskoðunin kom vel út, Anna Magga var ein við þetta og gekk barasta alveg ljómandi. Bakvöðvinn að mælast talsvert betur en verið hefur svona yfir heildina og lærin að potast upp á við líka. Svo sem ekki sami ráðunautur sem skoðar og í fyrra, en allavega lýgur tækið ekki ;o)
Allt í gúddí semsagt. Svo fer restin af lömbunum í slagteríið á mánudaginn, þannig að það verður smalað fram og til baka alla helgina. Janine skilur ekkert í þessu, alltaf verið að smala sama landið aftur og aftur og aftur....

Kolbrún er byrjuð í leikskólanum í Víðihlíð, er 3 daga í viku sem mér finnst alveg nóg. Gott fyrir hana að komast aðeins að hitta aðra krakka og mannast svolítið. Hún er nefnilega svolítið mikið mömmubarn ;o) Sem mér finnst reyndar bara voðalega notalegt...gott að vera einhvers metinn ekki satt? ;o)

Hallfríður mín, ég tjatta við þig um hrúta og lambaskoðanir á MSN-inu næst þegar ég sé að þú ert "á línunni" ;o)

föstudagur, september 29, 2006

Tölvur...

Tölvan mín hrundi endanlega um daginn, hlaut svosem að koma að því. Held að hún hafi verið árgerð 1996, þannig að það var nú reyndar kominn tími á eitthvað aðeins meira móðins! Blessuð sé minning hennar. Þannig að ég skellti mér á nýja tölvu, alveg rosa flott og rosa stór, hef ekki hugmynd hversu stór reyndar, en Stebbi bróðir sagði allavega að ég hefði EKKERT að gera með svona stóra tölvu. Hvað þykist hann vita hvað ég þarf stóra tölvu...pifffff.....hlusta ekki á svona bull! Reyndar á ég svo eftir að flytja allt úr gömlu tölvunni yfir í þessa þannig að hún er hálf tóm ennþá þessi nýja. Og öll netföngin eru í þessari gömlu þannig að það fær enginn tölvupóst frá mér á næstunni, enda nenni ég yfirleitt ekki að senda neitt. Samt finnst mér ég aldrei hafa þurft að senda eins mikið og núna þegar ég hef ekki netföngin við hendina!! Og að komast ekki í heimabankann er algjör HORROR!! Þvílík leiðindi að þurfa allt í einu að fara í bankann til að borga reikninga!

Við erum að vonast til að fá ómskoðunina fyrir lömbin á mánudaginn, var víst eitthvað bilerí í tækinu og ekki alveg öruggt að það yrði komið í lag. Væri gott að vera búinn að þessu, því það er ekki hægt annars fyrir okkur að fara í þetta fyrr en um miðjan október.
Svo er stefnt á að fara núna á næstunni að ná í hrútana sem við erum að kaupa, fundum loksins ferhyrndan lambhrút en við sóttum um 3 "venjulega" hrúta og einn ferhyrndan. Verður gaman að sjá gripinn, hann er víst svarhöttóttur á litinn.
Jæja, nenni ekki meiru- enda ekki frá neinu merkilegu að segja!

þriðjudagur, september 12, 2006

Gangnaslúðrið!!

.............................Reyndar hef ég barasta ekkert slúður úr göngunum.
Þeir sem eru alltaf fullir í göngunum voru það víst líka núna og kindunum sem átti að smala var held ég smalað- í það minnsta flestum. Því miður Hallfríður mín; ég get ekki glatt þig með neinu krassandi :o( Það gæti svo sem verið að Garðar hafi verið með einhvern óhemjugang og læti, en þá er ég líklega sú síðasta sem fréttir það!

Við erum búin að slátra um 170 lömbum, kemur ágætlega út enn sem komið er, það er bara vonandi að haustið verði sæmilegt í þetta sinn.

Heyrðu, já....ég skellti mér suður í gær og keypti mér eitt stykki Nissan Micru! Ég og bílar...elska að versla bíla! Þetta er ágætis dós ( þangað til hún bilar), fínt að keyra hana og eyðir engu. Garðar er svo búinn að fá leyfi til að braska með Toyotuna, guð má nú vita hvernig það nú endar. Svo er ég eiginlega búin að lofa að vera til friðs í bílamálum, tja...allavega út þetta ár ;o)

miðvikudagur, september 06, 2006

Langt síðan...

Já, ég hef ekki nennt að blogga mikið upp á síðkastið. Hrein leti- ekkert annað.
Ýmislegt þó verið gert og ýmislegt gerst:

#Svisslandið heimsótt, bara rosalega gaman en hefðum svosem mátt vera heppnari með veðrið. Skoðuðum ótal fjós, hesthús, fjárhús, nautgripi, kindur, hesta.....þetta var bændaferð semsagt! Mér tókst nú samt alveg að versla eitthvað (allavega sýnir kortareikningurinn það...), föt á mig og krakkana og svona sitt lítið af hverju. Alltaf hægt að versla ;o)

# Barn númer 3 á leiðinni, Garðar hefur svo gaman af því að fikta ;o)
Krílið á að koma í heiminn 22.des - ég er nú ekki par hrifin af þessari dagsetningu! Ég ætla ekki missa af jólasteikinni! Helst vil ég rumpa þessu af tímanlega fyrir jólin, við sjáum hvað setur..

# Ragnar Logi er byrjaður í skóla! Nú er engin miskunn lengur, á fætur kl. 7:00, guttinn borðar morgunmat meðan ég smyr nestið fyrir hann og svo kemur skólabíllinn um 8. Mesti höfuðverkurinn er að koma Ragnari í rúmið á kvöldin, eins og margir vita hefur háttatíminn hér á bæ verið ansi misjafn hjá börnunum og gamlir siðir gleymast seint. Annars er hann mjög ánægður í skólanum og það hefur gengið vel hingað til.

# Skólabíllinn keyrði yfir Skutluna mína. Var mikil sorg hér á bæ, krakkarnir dýrkuðu hana enda var hún einstök. Held samt að ég sakni hennar mest, hún var svo trygg og góð, þó hún gæti gert mann vitlausan þegar hún sá hross! Þeir missa sem eiga.

# Klikkaða kusa fór í sláturhúsið, eftir að henni hafði tekist að drepa Janine Mariu Magdalenu (kálfinn sinn semsagt). Karamella komin út með sinn kálf og búin að ferðast á nágrannabæi. Er þó búin að vera til friðs seinasta mánuðinn. Ég held að hún sé búin að rasa út.

# Stebbi bróðir búinn að gifta sig. Fórum í brúðkaupið að sjálfsögðu, var rosalega flott allt saman.

Náttúrulega skrilljón fleiri hlutir búnir að gerast í sumar, ég bara man ekki meira í augnablikinu. Garðar er í göngum núna og kemur niður á morgun. Svo er réttin á föstudagsmorguninn. Gaman, gaman - ég elska réttir! Alltaf svo gaman að sjá hvernig lömbin eru eftir sumarið, sem er reyndar búið að vera alveg skelfilega leiðinlegt hérna.
Svo á að slátra á mánudaginn, við settum tæp 60 lömb síðastliðinn mánudag og það kom bara ágætlega út.
Læt þetta duga í þetta skiptið, reyni að hafa mig í að blogga eftir helgina þegar ég er búin að fá gangnaslúðrið ;o)

laugardagur, júní 17, 2006

Hæ hó jibbý jei

Fór í fermingarveislu í dag, sem var fínt því þá þurfti ég ekki að elda nokkurn skapaðan hlut, sem var ennþá betra þar sem ég var á næturvakt seinustu nótt. Eintóm leti ;o)

Svo á minn ástkæri eiginmaður afmæli eftir um 5 mínútur, verður þrítugur hvorki meira né minna. Ekkert sérstakt sem stendur til á morgun þrátt fyrir það, býst nú við einhverjum gestum þó og verð því að skella mér í baksturinn á morgun.

Annars er ekkert í fréttum, rigning og rok alla daga sem gerir mann ekki sérstakan í skapinu. Ekki enn búið að sá í flögin, ekki enn farið að hleypa á heiðina (nema geldfé í Krók) og ekki enn búið að setja graðhestinn í hryssurnar. Status Quo semsagt. Sauðburður þó loks búinn, endaði á að Garðar mátti keyra upp í Krók til að marka lamb sem einn af geldu gemlingunum hafði borið. Greinilega ekki alveg að marka ómskoðunina á þessum bæ, enda er ekkert hér eins og það á að vera ;o)

föstudagur, júní 02, 2006

Taktu hár úr hala mínum...

Tja, reyndar var það aðeins meira en nokkur hár sem fuku af brjáluðu kusu í dag, segjum kannski frekar eins og rúmlega helmingurinn af hárunum á halanum á henni. Það vildi nefnilega svo skemmtilega til að kálfurinn komst ekki á spena (ha já kemur á óvart, ekki satt?!) og því máttum við kalla út mannskap til að hjálpa okkur að vísa Janine Mariu Magdalenu réttu leiðina. Og það er nú bara ekkert grín að eiga við svona skepnur skal ég segja ykkur! Kusa var á endanum kyrfilega njörfuð á bæði fram-,mið- og afturenda og svo var tekið til við að mjólka. Og mikið var litli kálfurinn glaður að komast á spena! Og svei mér þá ef kusu var ekki létt líka, enda voru tútturnar á henni alveg við það að springa eftir sogleysi síðustu tveggja daga! Við verðum svo bara að vona að þetta dugi til að kvígan litla fatti að fara á spena, því kálfurinn fer að verða ansi dýr ef kalla þarf út mannskap þrisvar á dag til að láta hana sjúga ;o)

Hryssan hans pabba kastaði í gær, okkur til mikillar gleði, en hún gat ekki kastað í fyrra og var alveg heilmikið bras að draga úr henni þá. Hún hefur ekki gengið heil til skógar eftir það, virtist sem eitthvað hafi farið úr lið eða skaddast og hún gat ekki gengið alveg eðlilega. Við vorum eiginlega viss um að hún gæti ekki átt fleiri folöld og bjuggumst við að þurfa að senda hana yfir móðuna miklu þar sem ekki var einu sinni hægt að nota hana lengur til reiðar. En viti menn, lítil jörp hryssa skoppar við hlið hennar og merin sjálf virðist hafa skánað við að kasta. Kannski eitthvað hafi hrokkið á réttan stað við það, hver veit? ;o) Allavega gladdi ég pabba gamla í dag þegar ég hringdi í hann og tilkynnti honum þetta :o)

Það er hægt að telja á fingrum annarrar handar hversu margir lesa þetta blogg, ég skil ekki alveg til hvers ég er að skrifa hérna eiginlega. Ok..........reyndar ágætis afstressun að setjast við tölvuna og skrifa eitthvað um ekkert, hvort sem það er lesið af einhverjum eður ei. En þið fáu hræður sem rambið hingað; ykkur er óhætt að kommenta hér sko ;o)
Hallfríður mín, þú færð nú koss á beran bossann fyrir að commenta hér hjá mér- það mættu fleiri taka þig sér til fyrirmyndar *hóst*.......takið til sín sem eiga..... *Ennþámeirahóst*

Ciao

miðvikudagur, maí 31, 2006

Nýjasta nýtt

Það kom kálfur í heiminn hér á bæ í gærkvöldi. Fyrsti kálfurinn í okkar búskapartíð. Og ef ég á að segja þetta á fallegri íslensku, að þá var beljan koooooooooooolvitlaus. Við máttum hringja í Reyni sterka og fá hann til að hjálpa okkur að færa hina kusuna, svo þessi gæti verið brjáluð alveg alein með kálfinum sínum. Jedúddamía.
Þetta er svört kvíga og fékk það virðulega nafn Janine Maria Magdalena, í tilefni þess að stúlkan sem býr hjá okkur heitir einmitt þessu nafni og átti afmæli í gær. Lágmark að fá nöfnu á afmælisdaginn sinn ekki satt...
Af kisumálum er það að frétta að það er einn kettlingur eftir. Einn framdi sjálfsmorð með skóreiminni hans Ragnars og Stebbi bróðir ætlar að fá einn. Ragnar Logi er búinn að skíra þann sem eftir er, hann heitir víst Tossi.
Það eru komin 11 folöld, ættu að koma 10-11 í viðbót ef útreikningar standast. Nóg að borða í haust nammi namm.... ;o)
Þessar fáu skjátur sem eftir eru ætla að halda í sér eins lengi og þær geta. Enginn gemlingur borið í tvo daga og ég er orðin hundleið á að fara út á nóttunni. Kolbrún vaknar alltaf þegar ég kem inn aftur og vill þá ekki fara að sofa. Bara leiðinlegt.
Ragnar fer í sjónmælingu á morgun, svo verð ég að bruna suður enn eina ferðina til að velja nýtt sett á trýnið á honum. Eins og mér finnst nú gaman að fara til Reykjavíkur eða þannig...

Jæja, best að byrja ekki oft skarpt að blogga svona eftir sauðburðinn, gæti endað með að ég geldist upp ;o)

föstudagur, maí 26, 2006

Fjúff...

Jæja já, ég er á lífi. En er orðin þreyttari en andskotinn eftir þennan sauðburð. Eins og maður er spenntur yfir því að sauðburður byrji er maður SVAKALEGA feginn þegar honum lýkur!
Lifandi lömb eru vel yfir sjöunda hundraðið eins og staðan er í dag, en það eru líklega um 40 hausar allavega sem eru eftir að bera og þar af er um helmingurinn gemlingar. Þetta er bara búið að ganga bærilega, það hefur þurft að hjálpa talsvert í ár, mikið af lömbum sem eru að koma öfug.
Og við erum búin að fá væna súpu af litum, ég ætla nú ekki einu sinni að reyna að telja þá upp, væri fljótlegra að telja þá sem ekki eru komnir held ég! Alltaf gaman að fá liti með ;o)

Það var skítaveður hérna á mánudag, þriðjudag og miðvikudag, snjóaði og var bálhvasst. Gátum sett aðeins út fé í dag, enda ekki veitir af þar sem að líklega eru rúmlega 500 lömb inni! Og það er sko ekki gaman. Lömbin orðin svo stór að þau eru út um allt og upp um allt. Allir garðar fullir af óþekkum lömbum sem vilja helst hvergi vera nema þar sem þau eiga ekki að vera...

Við erum búin að fá ágætis aðstoð þennan sauðburðinn; tengdapabbi eins og venjulega, tengdamamma var eitthvað líka, Gústi, Ragnheiður og svo líka þýska stúlkan sem býr hjá okkur þessa dagana. Gísli og Gústi fara um helgina og Ragga líka, þannig að það stendur til að hafa grillveislu í kvöld áður en liðið fær að fara heim :o)

Svo bara vona ég að það verði alveg roooooooooooooooooosalega fáar kindur eftir að bera þegar helgin er liðin. Ég vil gjarnan fá að fara að sofa á nóttunni aftur takk!

Læt þetta duga í bili, hef ekki heila fyrir meeeeeeeeeee.....ira skriferí í bili.

föstudagur, apríl 28, 2006

Allt og ekkert

Svo sem ekkert að frétta, ákvað samt að setja eitthvað hérna inn til að fólk viti að ég er þó á lífi...

Það hafa ekki bæst fleiri lömb við enn sem komið er, sauðburður á svo sem ekkert að byrja fyrr en um 6. maí heldur. Það eru samt nokkrar sem gætu borið eitthvað fyrr, ellismellirnir fengu glaðninginn sinn á undan hinum skjátunum, en það var bara af því að hrúturinn var svo fjandi léttur á sér og hélst ekki á sínum stað. Það er bara vonandi að Ragnar Logi fái glaðning á afmælisdaginn sinn, og ekki værri það verra ef það væru kindurnar hans :o)

Vorum að setja brynningu upp í gömlu húsunum í gær, Ingvar á Kolugili var að hjálpa okkur. Stefnt er svo að klára nýju húsin í kvöld. Þetta átti náttúrulega að vera löngu búið, alveg eins og ég ætlaði að vera löngu búin að temja þessi 7 hross sem standa inni í hesthúsi. Skelfilegt. Svo er ekkert hægt að gera núna af því að gerðið er orðið ógeðslegt, bara drullusvað! Reyndar er allt svo skelfilega blautt að það er varla hægt að ganga nokkurs staðar án þess að skilja gúmmístígvélin eftir í drullunni. Og ég er sko búin að gera það nokkrum sinnum...

Ég keypti mér þurrkara um daginn, verslaði hann auðvitað af Stebba í Húsasmiðjunni. Fínasti þurrkari, þvílíkur munur að vera ekki með þvott út um allt hús að reyna að þurrka hann. Svo er líka búin að vera glampandi sól síðan ég keypti hann!

Ég frétti af "katta" vinnukonunni í dag, hún ætlar víst að fara heim mun fyrr en hún ætlaði sér. Ísland er víst ekki alveg eins æðislegt og hún hélt. Skilur ekkert í þessu trjáleysi hérna td., henni finnst landið svo tómlegt eitthvað. Hún hefði nú átt að kynna sér það áður en hún anaði af stað! Allavega ætlar Garðar EKKI að fá fleiri vinnukonur, nennir ekki að standa í svona lotteríi. Svei mér þá, ég held að hann hafi bara verið nokkuð ánægður með alla kettina í þetta skiptið ;o)

Svo virðist það nú vera ansi algengt að þetta fólk segir ekki alveg satt í sambandi við hvað það kann og getur, einn maður hérna í sveitinni fékk vinnukonu sem átti að vera þrælvön hestum og börnum. Hún gat svo ekki einu sinni haldið í hest án þess að fara að vola og börn voru hin mesta skelfing í hennar augum. Hún var víst send heim hið snarasta...

Jæja, best að skella sér í pizzu baksturinn, það er jú föstudagur í dag ;o)
Góða helgi!

laugardagur, apríl 22, 2006

Ekki er öll vitleysan eins..

Við skelltum okkur suður á sumardaginn fyrsta, en við vorum að ná í þýska stelpu sem ætlaði að vera hjá okkur í 5 vikur. Nýttum ferðina og fórum með gleraugun hans Ragnars og pöntuðum ný, ég ætlaði líka að kaupa mér þurrkara í ferðinni en mér leist svo andskoti illa á þennan sem ég skoðaði að ég hætti við það. Sem var eins gott því að það hefði ekki komist eitt smjörstykki í viðbót inn í bílinn eftir að við vorum búin að láta greipar sópa í Bónus ;o)

Nú, stelpugreyið þýska entist ekki nema 2 daga hjá okkur...
Það vildi nefnilega svo skemmtilega til að hún er með ofnæmi fyrir köttum, hún bara rétt sí svona gleymdi að minnast á það þegar hún sóttist eftir að koma til okkar. Og eins og staðan er í dag eru 7 kettir á kotinu. Ég, sem er svo glær í öllu svona datt ekki einu sinni í hug að spyrja að því, þar sem hún jú vildi komast á sveitabæ með mörgum dýrum á!

Þannig að hún er núna komin í sveit á Vatnshorni, við skulum bara vona að það eigi eftir að blessast og að engir kettir fari að kíkja í heimsókn til þeirra næstu 5 vikurnar...

mánudagur, apríl 17, 2006

...

You Belong in Dublin

Friendly and down to earth, you want to enjoy Europe without snobbery or pretensions.
You're the perfect person to go wild on a pub crawl... or enjoy a quiet bike ride through the old part of town.

Páskalömb!


Þegar Garðar kom í fjárhúsin í gærmorgun (páskadag) voru komin 2 lítil lömb í heiminn. Alltaf gaman að fá svona páskaglaðning ;o)
Svo eftir hádegi bar önnur kind tveimur lömbum- það er bara rífandi gangur í þessu! Sú kind átti reyndar ekki að vera til lengur, en eitthvað hefur það misfarist hjá okkur að senda hana til himnaríkis blessunina. Það er vonandi að hún tóri eitthvað áfram, ég nenni ekki að vera með heimalninga strax!

laugardagur, apríl 15, 2006

Höfðingi í heimsókn


Set hérna inn mynd af Jóni gamla í Gautsdal (afa Garðars), en við buðum honum í mat í dag. Garðar fór og náði í hann í morgun og keyrði honum svo aftur heim eftir kaffi.
Alltaf gaman að fá hann í heimsókn, það eru nú ekki margir eftir eins og hann skal ég segja ykkur...

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Páskar!

Jibbbbbííí! Ég er komin í páskafrí og er alveg með eindæmum fegin! Reyndar á ég heldur ekki eftir nema tvær vaktir og þá er ég komin í sumarfrí, eða réttara sagt sauðburðarfrí. Skiptir ekki máli hvað það kallast, ég verð allavega heima hjá mér og því er ég fegin :o)
Var að vinna í dag og það var alveg svakalega mikið að gera, lappirnar á mér eru mauksoðnar alveg. Það virðist vera algjört möst þessa dagana að hafa öll rúm í notkun á stofnuninni, sem er svo sem ágætt EF það er nóg starfsfólk á vakt......sem er ekki alltaf!

Svo er bara stefnt á að slappa af alla páskana, borða góðan mat og nammi og góna á imbann með börnunum. Getur ekki verið betra :o)

Gleðilega páska þið fáu hræður sem lesið þetta og hafið það gott yfir hátíðina.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Mjá

Ég horfði á Idolið á föstudagskvöldið..........og svei mér þá ég var alveg himinlifandi að Snorri skyldi vinna þetta eftir allt saman. Ína var bara ekki nærri því eins góð og Snorri og hann er vel að titlinum kominn. Samt er ég búin að halda með Ínu alla keppnina, svona getur þetta breyst!

Kolbrún var veik um helgina, hundslöpp alveg hreint. Er samt öll að koma til núna, orðin alveg jafn óþekk og hún var -eða svona eins og 1 og 1/2 árs gamalt barn getur verið! Bara sæt :o) Fínu krullurnar hennar haldast alveg, ég þori ekki fyrir mitt litla líf að klippa hana (nema rétt toppinn) því ég er svo hrædd um að krullurnar fari! Mamma myndi líka stúta mér ef ég myndi gera það.
Ragnar Logi sleppur alveg við allar pestir, ég held að Kolbrún sé nú kannski veikari fyrir því að það er jú ekkert svo langt síðan hún fór í leikskóla í fyrsta skipti. Ef ekki eru veikindi á leikskólum - þá eru hvergi veikindi held ég.

Heyrðu, já það bættust fleiri kisur við á kotinu, auðvitað þurfti kisuskömmin mín að spýta út 3 kettlingum á föstudaginn var. Ég segi nú bara guði sé lof að það komu þó EKKI NEMA 3!!! Ég bjóst við 10.
Bráðum verða fleiri kettir á Stórhól heldur en kindur með þessu áframhaldi :o(
Ég verð að fara að hafa sér kattar-blogg held ég, allt sem ég orðið skrifa hérna inn snýst um ketti!

Ég þarf svo heldur betur að fara að hella mér út í smíðarnar, nú þegar við erum komin á viðbúnaðarstig 2. í fuglaflensunni. Ég verð að útbúa heilmikið búr fyrir hænurnar mínar og endurnar ef ég ætla mér að láta þær lifa og leyfa þeim eitthvað út í sumar. Ekki seinna vænna að fara að hefja smíðarnar, Garðar sá tvær álftir í Reyðarlæknum í seinustu viku- öruggulega alveg baneitraðar.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Íslenskt veður.....I love it!!

Já, það er búin að vera sannkölluð blíða hérna í dag....eða þannig. Að vísu heldur skárra en í gær, en þá þurfti ég að redda annarri á næturvaktina mína þar sem ég treysti mér sko alls ekki að keyra eins og veðrið var! Með ólíkindum að það þurfti að vera skítaveður fyrir þessa einu næturvakt sem ég átti að taka í þessari viku. Svona er þetta alltaf.
Reyndar sýnir þessi mynd ekki alveg hvernig veðrið er, það er eiginlega búið að vera kóf í kringum bæinn í allan dag, ég ætlaði mér að fara út og taka myndir en svo þegar ég var búin að reka trýnið út þá ákvað ég að taka bara myndir í gegnum eldhúsgluggann ;o) Miklu betra..

Svo eiga allir að horfa á Idolið á morgun..........OG KJÓSA ÍNU!!!

mánudagur, apríl 03, 2006

Skaðvaldurinn


Ákvað að skella inn mynd af honum Tarzan, en hann er búinn að vera mér til mikils ama síðustu daga.
Eins og ég sagði í seinustu færslu, að þá hef ég staðið í miklu hekli dag eftir dag. Því miður er Tarzan alveg jafn spenntur yfir þessu, ég hef ekki undan að elta hann með garnhnyklana sem hann stelur frá mér um leið og ég dreg þá upp.
Fyrst tók hann bara þann rauða. Ef ykkur finnst Skvísa úfin og asnaleg að þá er hún EKKERT miðað við hnykilinn eins og hann lítur út í dag.
Þá tók ég mig til og faldi garnið í VEL lokuðum poka uppi á hillu. Svo fór ég út og þegar inn var komið að nýju lá pokinn sundurtættur á eldhúsgólfinu og hnyklarnir 3 horfnir undir sófann. Og þeir litu allir út eins og Skvísa.
Ég skal viðurkenna að ég var anskoti reið.
Ég náði ekki mynd af Bangsa, hann vissi greinilega að Tarzan var að gera einhver skammarstrik og faldi sig inni á klósetti meðan á myndatökunni stóð....

föstudagur, mars 31, 2006

Komin helgi einu sinni enn, mars er búinn að líða svo hratt finnst mér.
Ég fór á Krókinn á miðvikudaginn, mamma vildi endilega fá guttann lánaðann um helgina en það átti að vera svo leiðinleg færð að þau treystu sér ekki til að keyra hingað. Þannig að hetjan ég brunaði bara á stað....það var reyndar autt eiginlega alla leiðina ;o) En ég er samt hetja sko....
Það var mót í reiðhöllinni, ég nennti ekki að horfa á allt þannig að ég kom bara þegar skeiðið byrjaði og fylgdist með því. Spói lá hvorugan sprettinn hjá pabba, ég held að hann hafi vitað að ég væri að fylgjast með því hann liggur yfirleitt ekki þegar ég er að horfa ;o) Ég er best geymd heima.
Fór á danska daga í Skaffó, þeir voru satt best að segja ekki merkilegir. Bara venjulega draslið sem þeir selja alla daga á "einstöku" tilboði.
Svo verður maður náttúrulega að fylgjast með Idolinu í kvöld, ég held að Ína taki þetta. Að vísu finnst mér hún hálf freðýsuleg þegar Simmi og Jói eru að tala við hana, virðist ekkert geta sagt neitt greyið stúlkan nema já og nei. En hún getur sungið, hún má eiga það ;o)

Ég er byrjuð að hekla aftur, búin að vera heila eilífð að hekla mér svona inniskó. Búið að kosta mig blóð, svita og tár. En... mér tókst að klára annan skóinn í gærkvöldi....og auðvitað er hann allt of stór. Ég verð að setja stuffing inn í hann ef hann á að haldast á mér. Svo á ég aldrei eftir að geta gert annan alveg eins. Skil ekki hvernig mér datt þetta í hug. Ég hugsa að Garðar fái bara að ganga í þeim, þeir eru líklega temmilegir á hann...

þriðjudagur, mars 28, 2006

Gengur á ýmsu

Það er skítaveður hérna dag eftir dag, enda var þetta orðið ískyggilegt allt saman- gott veður í marga daga í röð! Það gat ekki enst til lengdar, maður fær það alltaf í hausinn aftur ef það kemur svona gott veður á veturna :o( Vonandi verður bara vorið gott....

Við losnuðum loksins við folöldin sem við vorum búin að selja, búin að hafa þau inni í mánuð en þau áttu bara að vera í nokkra daga inni hjá okkur. Buið að taka þetta lið hálft ár að borga þessi grey og ekki enn búið reyndar. Ég varð svo reið út í einn gaurinn að ég neitaði að selja honum folaldið og endurgreiddi honum þær fáu krónur sem hann var búinn að borga. Ég nenni hreinlega ekki að standa í svona bulli og vitleysu. Þannig að það er eitt folald inni ennþá, gullfallegt alveg hreint. Þannig að ef einhverjum langar í leirljóst, flott hestfolald- talið við mig ;o) Ég hef EKKERT að gera með fleiri ásetningsfolöld!

Við erum annars búin að redda okkur fola í hryssurnar fyrir sumarið, ég setti auglýsingu á 847
og það gjörsamlega rigndi inn folum ;o) Misjafnir voru þeir eins og þeir voru margir, en ég held að við höfum fengið fínan hest í merarnar, hann er allavega vel ættaður :o)

Við fórum á Blönduós í gær og kíktum á húsið hjá Víði, það er bara orðið flott hjá þeim. Þau eiga að vísu eftir að koma sér almennilega fyrir, það er ekki hægt að gera allt í einu. Óliver litli er ekkert líkur pabba sínum finnst mér, sænska genið er greinilega sterkara en það íslenska ;o)
Nonni er svo búinn að selja....og kaupa, það vantar ekki stælinn á þetta lið þarna á Blönduósi! Og tengdó kominn á nýjann Passat, hann er svo flottur að ég efast um að ég eigi nokkurn tímann eftir að þora að setjast upp í hann! Össsssssssssss.....

Gústi kíkti í heimsókn á föstudaginn og gisti hjá okkur, hann er alltaf jafn hress og kátur. Það er vonandi að hann komi í vor, hann er nauðsynlegur í smíðarnar ;o) Það er nefnilega þannig að þessar helvítis grindur til að stía í sundur með, hverfa alltaf þegar líður fram á haustið. Þeim er dröslað hingað og þangað og notaðar út um alla jörð. Og þær skila sér aldrei aftur. Það er öruggulega búið að smíða 500 grindur hérna gegnum árin en ekki nema 20-30 grindur til. Skil þetta ekki...

miðvikudagur, mars 22, 2006

Ofboðslega getur lífið verið erfitt

http://bebbaoghjolli.blogspot.com
Það sem er á suma lagt :o( Ég get ekki ímyndað mér hvernig er að vera í þessum sporum, bíða og vona-dag eftir dag eftir dag. Svo er maður að væla yfir einhverju smotteríi, einhverju sem skiptir ekki nokkru máli. Ég þekki þetta fólk ekki neitt en ég hugsa til þeirra á hverjum degi og vona að allt eigi eftir að fara vel...

mánudagur, mars 20, 2006

Helgin búin...

og hún var bara alveg ágæt. Fór í Kambshól og sá kálf fæðast, Jón var búinn að lofa að hringja í mig og láta mig vita þegar það væri von á kálfi í heiminn og auðvitað kom eitt stykki á afmælisdaginn minn c",)

Þau gömlu komu frá Króknum og voru svo elskuleg að gefa mér blómvönd í tilefni dagsins. Pabbi sagði ekki orð yfir öllum köttunum (og það er mjög óvenjulegt!), ætli mamma hafi ekki verið búin að lesa yfir honum áður en þau komu...reyndar var hann svo bara nokkuð hrifinn af þeim.
Vignir, væntanlegur stórbóndi, kíkti svo í kaffi um kvöldið og bullaði í okkur eins og honum er einum lagið. Kvöldið endaði á að horfa á hreint viðbjóðslega mynd; SAW eða eitthvað álíka hét hún. Það er nú bara ein sú allra skuggalegasta mynd sem ég hef horft á lengi! Enda fékk ég allsvakalega martöð um nóttina, ég var alveg dauðþreytt þegar ég loksins vaknaði!

Á sunnudeginum komu svo Gísli og Stína, við settum fullorðinsmerki í öll lömbin, þannig að nú er óhætt fyrir búfjáreftirlitsmanninn að koma ;o) Stína var ekki yfir sig spennt yfir kisunum, hún var bara svo dönnuð að hún sagði ekkert við mig nema:"Kattarhelvíti...". Mjög vel sloppið að mínu mati...

Helga ætlar að gera skattframtalið fyrir okkur, þannig að núna þarf ég bara að drattast til að senda henni alla pappíra. Mikið er ég fegin að gera þetta helvíti ekki! Svo þarf ég að leggja lokahönd á gæðastýringarpappírana, svona hitt og þetta smotterí eftir.
Nóg af bulli í þetta sinn,
Adios

sunnudagur, mars 19, 2006

Þá vitið þið það

Your Animal Personality

Your Power Animal: Deer

Animal You Were in a Past Life: Panda

You are a fun-seeker - an adventurous, risk-taker.
While you are spontaneous, you are not very rational.http://www.blogthings.com/theanimalpersonalitytest/

föstudagur, mars 17, 2006

Og ég sem ætlaði að baka svo mikið

Ég ákvað að prófa almennilega nýju eldavélina mína í morgun og skellti í köku, haldið þið þá ekki að öll kökuformin mín hafi farið með gömlu eldavélinni á Blönduós! Útkoman varð kringlótt bananabrauð og einhversskonar súkkulaði muffins. Býst við að þetta bragðist ágætlega þrátt fyrir öðruvísi útlit en vant er. Ég þoli mjög illa svona uppákomur, allt of vanaföst í bakstrinum til að meika svona útlitsbreytingar á kökum. Og svo finnst mér bragðið ekki vera eins og það á að vera heldur. Læt því meiri bakstur bíða betri tíma.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Tíminn líður svo hratt

Ég gekk frá sumarfríinu mínu í dag, fer í frí 24. apríl og byrja aftur um miðjan júní. Víííííí!!!! Mikil tilhlökkun skal ég segja ykkur! Svo förum við út líka í ágúst, össsss.......bara endalaust frí hjá manni ;o)
Ég er annars komin í langþráð helgarfrí, búin að vera svo þreytt eitthvað upp á síðkastið (ok, löt). Svo verður maður víst árinu eldri á laugardaginn, ætla nú ekkert að halda upp á það, kannski í mesta lagi gráta ;o) Verra verður það fyrir Gassa minn þegar hann á afmæli næst, hann kemst nefnilega á fertugsaldurinn...hehehe.....
Jæja, best að hætta þessu , stíft kvöld í kvöld hjá okkur; Gettu betur, Nip/tuck, Desperate houswifes, endursýning á LOST og loks American Idol. Meiri andskotinn að troða öllum góðu þáttunum á þennan eina dag, mætti halda að þeir vissu ekki að það væru fleiri dagar í vikunni :o/

þriðjudagur, mars 14, 2006

Berrassaðar, tamdar rollur

Garðar skellti sér á hvolpanámskeið um helgina......og OH MY GOD!!!! Fjúff, það verður meiri vinna með þennan eina hund heldur en bæði börnin, hina rakkana, kettina og fiðurféð. Hundræksnið má ekki elta hross, fugla, hunda, bíla -semsagt ekki elta neitt sem hreyfist. Hann á samt að sýna skepnum áhuga en ekki hamast í þeim (mjöööööög auðvelt fyrir 3. mánaða hvolp-eða þannig!). Við þurfum svo að hafa kindur hér heima við í sumar til að æfa tíkina en fyrst þurfum við að fá einhvern með taminn hund til að temja rollurnar fyrir Pílu. Jahá. Garðar er farinn að hallast að því að það sé auðveldara að fara bara með allar rollurnar á námskeið...og skilja bara hundinn eftir heima. Og ég held barasta að ég sé pínu sammála honum.

Lítið gerist í hestamennskunni hjá okkur, við erum eiginlega að bíða eftir manni sem ætlaði að grafa niður lónseringarstaur fyrir okkur en hann er ekki búinn að koma enn. Þannig að maður gerir lítið annað en að dunda við þau á básnum, það er svo sem ágætt líka, manni langar bara að fara með þau eitthvað út í blíðviðrið og eiga við þau þar. Það hefur ekkert verið átt við flest þeirra þannig að það gengur ekki fyrir mig að lónsera þau nema að hafa staur, ég yrði eins og tuskubrúða á kaðlinum býst ég við.
Garðar er í rúning á fullu þessa dagana. þannig að hann er ekkert að sóa tímanum í hrossin. Það er með öllu óskiljanlegt að það skuli ekki vera búið að finna upp eitthvað til að losna við að rýja skjáturnar, einhverja vél sem er hægt að henda rollunni inn í og hún kæmi út berrössuð og alsæl. Þvílíkur lúxus sem það nú væri!

þriðjudagur, mars 07, 2006

Búin að taka inn hross

Svei mér þá, það hafðist hjá okkur að taka inn hrossin! Við sendum börnin í pössun á Krókinn og svo voru allsherjar þrif og tiltektir alla helgina. Við tókum svo inn á sunnudeginum, heil 7 hross og ótrúlegt en satt að þá er bara eitt brúnt! Jahérna, ég bjóst nú aldrei við því að hafa bara eitt brúnt hross inni, venjulega eru þau flest brún- kannski eitt rautt sem fær að fljóta með :o) Einn mósóttur, ein bleik, brúnskjótt, rauðblesótt, rauðstjörnótt og rautt. Nú er bara að fara að drullast til að temja þetta, maður er alltaf svo sperrtur fyrst sko...en svo sofnar löngunin þegar maður fer að sjá að maður hefur bara engan tíma fyrir þetta!
Ég tók Galdurssoninn minn inn, hann er á fimmta og hefur ekkert verið átt við hann. Hann var svo heppinn að vera settur á bás við hliðina á beljudruslunni sem er alveg kolvitlaus ennþá. En hann kippti sér nú ekki mikið upp við það, beit hana bara í hausinn ef hún var að ybba sig. Að vísu endaði með að við urðum að flytja hann því að beljan var alveg hætt að éta, hún hnoðaði bara stanslaust milligerðið og var orðin rennsveitt á þessum endalausa hamagangi. Allavega held ég ekki að ég þurfi að hafa áhyggjur af að temja hann Skjóna minn, hann var alveg pollrólegur yfir þessu öllu saman og hélt bara áfram að japla á sínu heyi.

Það var alveg stórskrýtið að vera barnlaus alla helgina, ansi tómlegt verð ég að segja. Við fórum á töltmótið á Blönduósi á föstudagskvöldið (já, fórnuðum Idolinu fyrir það!) og vorum orðin blá af kulda þegar þessu loksins lauk. Samt gaman að fara svona einu sinni, við höfum ekki farið á mót þarna síðan 2001 ef mig minnir rétt.

Við létum telja fóstur í lömbum og veturgömlum í seinustu viku, það kom svona bærilega út. Ekki nema 13 geldir í gemlingunum sem er held ég fínt, en þeir eru 144 í heildina. Veturgömlu eru ekkert spes, 25 einlembdar af 84. Máttum svo sem vita það þar sem ekki var haustrúið. Það munar alltaf miklu á frjóseminni ef ekki er rúið að hausti, verður ekki eins mikil sæld í þeim. En við huggum okkur við það að það var þó engin geld :o)

Hunda- og kattabúskapurinn gengur vel, engir stórir árekstrar orðið milli manna, katta og hunda ;o) Garðar fer á hvolpanámskeið um næstu helgi, það verður gaman að sjá hvernig gengur með Pílu. Hún er ósköp góð greyið, en hún pissar bara út um allt - svona hræðslupiss! Það má varla segja nafnið hennar að þá pissar hún á sig. Svolítið þreytandi en það rjátlast vonandi af henni þegar hún stækkar.
Jæja, nóg af bulli í bili-
OVER AND OUT

miðvikudagur, mars 01, 2006

Nú er ekki aftur snúið

Já, flugmiðarnir okkar komu með póstinum í dag; fyrir ykkur sem ekki vitið hvað ég er að tala um að þá erum við Garðar að fara í míni brúðkaupsferð til Sviss í sumar. Við fljúgum út 1. ágúst og komum aftur til landsins (þeas. ef við verðum ekki fuglaflensunni að bráð...) 10. sama mánaðar.
Þannig að ég segi bara Vííííííííííí!!!! Búin að bíða eftir þessari ferð í 2 ár og nú SKAL farið!

Garðari er farið að kvíða þetta ferðalag allverulega skal ég segja ykkur. Hann er viss um að verða skotinn af einhverjum terroristum, því hann er víst svo sveita-lúðalegur. Nú og ef þeir missa marks, þá mun það verða fuglaflensan sem sér um að stúta okkur. Já, hann er alltaf jafn bjartsýnn þessi elska c",)

Ég segi nú bara skítt og helvede með þessa fuglaflensu, hún getur nú alveg eins drepið mig hérna á klakanum eins og í útlandinu, því hún hlýtur hvort eð er að koma hérna í vor. Ég er farin að stórefast um að Garðar eigi nokkuð eftir að sjást í sauðburðinum, hann verður aaaallt of upptekinn af að liggja fyrir fuglunum og plaffa á þá ef þeir ætla sér að lenda hér á landareigninni...

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Tóm leiðindi bara

Já, það herja veikindi á Stórhólnum, Kolbrún er búin að vera alveg hundveik seinustu 3 daga, Ragnar veiktist í gær og ég er svo komin með þetta helvíti líka. Þá er bara einn á heimilinu sem er nokkuð heill og því miður er það ekki besti kokkurinn á heimilinu...
Ég spurði hann hvort að hann myndi nú ekki sjá um matinn í kvöld og hann leit á mig með furðusvip og sagði: "Erum við ekki búin að borða alveg nóg seinustu daga? Svo er nú til nóg af snakki í skápnum..." Ojjj þessir karlmenn stundum :0/ Það myndi fjúka í hann ef ég byði honum bara upp á snakk alla daga. Ef það væri hins vegar ís væri hann sáttur og glaður.
Þannig að ég bíð eftir hruni Garðars- það hlýtur að koma að því að hann fái þetta- og þá ætla ég ekki að þjónusta hann eins og vant er.
Ótrúlegt hvað kallar verða alltaf MIKLU veikari en konur. Ég á aldrei eins bágt og hann ef við erum lasin. Ég veit ekki hvaða jólasveinn fann upp á því að kvenkynið væri veikara kynið, sá apaköttur hefur greinilega aldrei séð eða hitt karlmann með flensu...

föstudagur, febrúar 24, 2006

Og enn bætist við fjölskylduna...

Já, ég ætla ekkert að segja neitt meira en það held ég, nema það að þeir eru rosalega sætir ;o) Þeir kostuðu þagnarbindindi á milli mín og Garðars í tvo daga...en svo gáfumst við bæði upp á því og hann er búinn að sætta sig við vesenið á mér. Hann segir að nú muni allir halda að við séum snargeðveik....en só wott...ég held að það viti það allir hvort sem er að við erum kolklikk!sunnudagur, febrúar 19, 2006

Bætist við fjölskylduna..

NEI....ég er ekki ólétt!

Já, eins og þið sjáið er komin nýr fjölskyldumeðlimur. Og já, núna erum við komin með 4 stykki takk fyrir!
Hún heitir Píla, þessi elska, og er hreinræktaður Border Collie. Nú ætlar Gassi minn að taka smalamennskur framtíðarinnar með trompi, stefnan sett á hvolpanámskeið í næsta mánuði og svo smalahundakúrs í haust. Geeeeeetur ekki klikkað ;o)
Já, við erum bæði algjörir sökkerar þegar kemur að litlum, sætum hvolpum og kettlingum! Og ég er afskaplega ánægð með það, mikið betra að réttlæta vitleysuna sem manni dettur í hug þegar maki manns er engu skárri...

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Já....svei mér þá -Silvía Nótt rúlar!

Ég hef nú ekki verið hrifin af henni hingað til, en hún er barasta með eina almennilega lagið í Júróinu í ár. Lagið sem Regína syngur er allt í lagi jú, að vísu man ég ekkert hvernig það er ;o) Hins vegar glymur Til hamingju Ísland í hausnum á mér allan daginn. Ég bjóst ekki við að ég myndi segja þetta en............................................................
ÁFRAM SILVÍA NÓTT!!!!!

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Endalaus skil á hinu og þessu :o(

Ég er alltaf að skila einhverju inn; fyrst voru það hrossaskýrslurnar svo fjárbókhaldið, núna styttist í virðisaukaskattinn og helvítis skattframtalið fer alveg að koma. Þetta er nú eitthvað gruggugt með þetta skattframtal, mér finnst ég skila því MUN oftar en einu sinni á ári! Ég er alltaf að gera skattframtalið!! Hvernig er þetta helvíti hægt??? Svo er launamiða mánuður í þokkabót.....AAAAAAAARG!!!!!!!!!!!
Reyndar var ég að klára fyrst núna afkvæmarannsóknina fyrir hrútana, sendi það frá mér í gær- guði sé lof að það er búið! Búið að hvíla þungt á mér svo vikum skipti, en náttúrulega kom ég því aldrei í verk.
Við fengum svo merkin í ásetningslömbin í gær, og auðvitað gleymdi ég að panta í hrútana þannig að ég verð að panta aftur...hvernig er hægt að vera svona??

Ragnar Logi er kominn í langþráð frí á Krókinn, verður þar yfir helgina og svo er skírn hjá Víði og Lindu á sunnudaginn. Miklar vangaveltur um nafnið, verður öruggulega eitt íslenskt og eitt sænskt nafn ;o) Kemur í ljós.....
Annars mátti hann varla vera að því að fara, þar sem að ORKUBÓKIN kom í pósti í dag. MIKILL spenningur yfir öllum þessum límmiðum! OG loksins getum við kannski farið að ala drenginn almennilega upp, því hann tróð í sig einum banana og drakk tvö glös af vatni ÁÐUR en hann var búinn að opna bókina!!

Það er bara svo æðislegt veður dag eftir dag, vonandi verður þetta bara svona fram á sumarið, þá verð ég glöð :o)

mánudagur, janúar 30, 2006

Þorrablótið búið

Já, svei mér þá....þetta hafðist barasta af hjá okkur í þorrablótsnefndinni! Að sjálfsögðu var þetta laaaaaaaaaaangbesta þorrablótið sem haldið hefur verið, ekki að spyrja að því sko :o) Ég var veislustjóri og las annálinn og ég bara komst svona nokkuð skammlaust í gegnum þetta. En mikið svakalega var erfitt að stíga á sviðið fyrst um kvöldið! Fjúfff...........mikið er gott að þurfa ekki að standa í þessu á næstunni!

Ég skellti mér suður með Ragnar Loga í seinustu viku, hann var svæfður hjá tannlækninum og gert við allt heila klabbið í einu. Gekk bara alveg eins og í sögu allt saman. En ROSALEGA er tímakaupið gott hjá þessum gaurum, váááá.......!! Það er eins gott að Ragnar passi vel upp á tönnslurnar eftir þetta. Mikill peningur fyrir viðgerðir sem detta úr eftir nokkur ár!

Við gistum hjá Stebba bróður, það var mjög fínt bara- hann er alltaf jafn yndislegur kallinn ;o) Það var ekkert gert á mánudeginum annað, þar sem að Ragnar var náttúrulega eftir sig eftir svæfinguna. Á þriðjudeginum átti heldur betur að taka borgina með trompi, fara búð úr búð og skoða allt sem aldrei er tími til að skoða. Það var svo náttúrulega enginn tími í það frekar en fyrri daginn, þó að Stebbi greyið hafi verið boðinn og búinn að sýna manni allt sem maður vildi sjá. Ég skellti mér í tattoo, það fóru nú bara tveir og hálfur tími í það, svo fór ég í klippingu og litun........og þá var nú bara dagurinn búinn! Reyndar endaði með að ég mætti klukkutíma of seint í klippinguna þar sem að tattooið tók svo langan tíma. Þannig að það var nú bara ekkert mikið verslað í ferðinni, enda svosem bara allt í lagi þar sem mig vantaði nú ekkert sérstakt ;o) Það er bara svo gaman að versla SAMT! Ég fór í slatta af fatabúðum en það var bara allt sem ég skoðaði í dvergastærðum, ég er nú ekki feit, en ég fann bara ekkert sem mér líkaði sem ég gat komist í. Þannig að ég gaf það fljótlega upp á bátinn og keypti föt á Ragnar Loga í staðinn.
Og..........já ég keyrði sjálf í Reykjavík! Það gekk nú bara furðanlega vel skal ég segja ykkur, ég villtist bara ekki neitt :o) Nú get ég farið að fara vikulega bara, í stað þess að fara á 3-4 ára fresti...

föstudagur, janúar 20, 2006

Hver ætlar að keyra fyrir mig??

Já, það styttist óðum í Reykjarvíkurferðina mína, ég verð vafalaust ekki vinsæl á götum borgarinnar- en só wat- við Gassi erum vön að láta flauta á okkur þegar við förum suður, núna verð ég að vísu bara ein á ferð til að taka við flautinu! Ég fer eftir hádegi á sunnudaginn, Ragnar á tíma á mánudagsmorguninn, þetta á að taka um tvo tíma held ég. Svo verður maður nú að versla eitthvað, eru ekki útsölur alls staðar?!

Það styttist óðum í þorrablótið líka, æfingar ganga hægt en öruggulega skulum við segja...

Við erum ekki farin að taka inn hross ennþá, ætli við rífum ekki inn um mánaðarmótin. Ætli það séu ekki ein 7 stykki sem þarf að koma stand, við erum orðin allsvakalega ódugleg við þetta eitthvað. Við þurfum bara að færa kusurnar eitthvað til í húsinu, það GÆTI orðið bölvaður hausverkur, svarta beljan er alltaf kolvitlaus. Karamella er orðin nokkuð spök, ætli hin endi ekki í sláturhúsinu bara; allavega ef hún verður svona áfram.

Kolbrún og Ragnar eru byrjuð á leikskólanum, Ragnar er voðalega ánægður með það og Kolbrún reyndar líka. Ekkert vesen með það. Þetta er ágætt, bæði fyrir þau og mig! Nú hlýt ég að koma miklu meiru í verk....hmmmmmmmm...........

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Enn einn höfuðverkurinn..

Já, það er komið að hinu árlega þorrablóti hér í sveit og það vill svo skemmtilega til að við erum í þorrablótsnefndinni. Og þetta er alltaf sama sagan, maður er alveg tómur í kollinum varðandi hugmyndir að skemmtiatriðum. Nú þarf að pæla út og finna hvað hver og einn í sveitinni gerði af sér á síðastliðnu ári, allar hugmyndir eru vel þegnar :o)
Þorrablótið verður 28 janúar næstkomandi, og við erum búin að halda alveg einn fund! Rífandi gangur í þessu hjá okkur.....

laugardagur, janúar 07, 2006

Svo lítið að frétta....

Góðan og blessaðan daginn og gleðilegt nýtt ár!
Allt gott að frétta af Stórhólnum, það er komið nýtt ár hjá okkur líka eins og vonandi ykkur flestum ;o) Áramótin liðu áfram tíðindalaust, ég var að vinna á gamlárskvöld en afgangurinn af famelíunni fór á Blönduós í mat og á flugeldasýningu. Ég var svo komin heim úr vinnunni kl. 23:30 og sat ein og yfirgefin hérna heima þegar nýtt ár gekk í garð. Svosem ágætt því þá gat ég horft á gamla árið hverfa og það nýja koma í friði og ró - venjulega hefur maður verið úti í garði hjá tengdó að skjóta rakettum á þeim tíma. Mér finnst það alltaf hálf sorglegt þegar gamla árið hverfur, það hefur enga von um að komast til baka aftur greyið.

Við keyptum okkur jeppa um daginn, já það hafðist hjá mér að bæta enn einu farartækinu á bæinn! Þetta er Nissan Patrol, alveg fínasti bíll þó ég segi sjálf frá ;o)
Og auðvitað verslaði ég hann í gegnum Barnaland, það er ýmislegt hægt að finna þar skal ég segja þér!

Það er búið að vera bölvað bras með Ragnar og tennurnar hans, ég mátti bruna með hann á Krókinn í neyðartannlæknaferð. Ég fer svo suður með hann 23. janúar, og þá verður hann bara svæfður og gert við allt í einu. Þannig að Stebbi minn- farðu að undirbúa þig undir komu okkar ;o) Það verður ekkert grín fyrir þig að fá svona hillbillís í heimsókn sko...
Annars finnst mér verst að ég skyldi ekki fara strax með hann á Krókinn eins og ég ætlaði mér, þessi tannlæknir var ALLT öðruvísi og það var bara ekkert vesen. Hann rauk ekki svona beint í munninn á drengnum og þá var þetta bara allt annað. Held að ég fari svo bara með hann í eftirlit á Krókinn frekar en hérna....

Ég fékk afganginn af jólagjöfunum í gær í póstinum, ekki seinna vænna ;o) Þetta kennir mér að vera aaaaaaaaaðeins tímanlegri fyrir næstu jól!