Garðar skellti sér á hvolpanámskeið um helgina......og OH MY GOD!!!! Fjúff, það verður meiri vinna með þennan eina hund heldur en bæði börnin, hina rakkana, kettina og fiðurféð. Hundræksnið má ekki elta hross, fugla, hunda, bíla -semsagt ekki elta neitt sem hreyfist. Hann á samt að sýna skepnum áhuga en ekki hamast í þeim (mjöööööög auðvelt fyrir 3. mánaða hvolp-eða þannig!). Við þurfum svo að hafa kindur hér heima við í sumar til að æfa tíkina en fyrst þurfum við að fá einhvern með taminn hund til að temja rollurnar fyrir Pílu. Jahá. Garðar er farinn að hallast að því að það sé auðveldara að fara bara með allar rollurnar á námskeið...og skilja bara hundinn eftir heima. Og ég held barasta að ég sé pínu sammála honum.
Lítið gerist í hestamennskunni hjá okkur, við erum eiginlega að bíða eftir manni sem ætlaði að grafa niður lónseringarstaur fyrir okkur en hann er ekki búinn að koma enn. Þannig að maður gerir lítið annað en að dunda við þau á básnum, það er svo sem ágætt líka, manni langar bara að fara með þau eitthvað út í blíðviðrið og eiga við þau þar. Það hefur ekkert verið átt við flest þeirra þannig að það gengur ekki fyrir mig að lónsera þau nema að hafa staur, ég yrði eins og tuskubrúða á kaðlinum býst ég við.
Garðar er í rúning á fullu þessa dagana. þannig að hann er ekkert að sóa tímanum í hrossin. Það er með öllu óskiljanlegt að það skuli ekki vera búið að finna upp eitthvað til að losna við að rýja skjáturnar, einhverja vél sem er hægt að henda rollunni inn í og hún kæmi út berrössuð og alsæl. Þvílíkur lúxus sem það nú væri!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli