þriðjudagur, mars 07, 2006

Búin að taka inn hross

Svei mér þá, það hafðist hjá okkur að taka inn hrossin! Við sendum börnin í pössun á Krókinn og svo voru allsherjar þrif og tiltektir alla helgina. Við tókum svo inn á sunnudeginum, heil 7 hross og ótrúlegt en satt að þá er bara eitt brúnt! Jahérna, ég bjóst nú aldrei við því að hafa bara eitt brúnt hross inni, venjulega eru þau flest brún- kannski eitt rautt sem fær að fljóta með :o) Einn mósóttur, ein bleik, brúnskjótt, rauðblesótt, rauðstjörnótt og rautt. Nú er bara að fara að drullast til að temja þetta, maður er alltaf svo sperrtur fyrst sko...en svo sofnar löngunin þegar maður fer að sjá að maður hefur bara engan tíma fyrir þetta!
Ég tók Galdurssoninn minn inn, hann er á fimmta og hefur ekkert verið átt við hann. Hann var svo heppinn að vera settur á bás við hliðina á beljudruslunni sem er alveg kolvitlaus ennþá. En hann kippti sér nú ekki mikið upp við það, beit hana bara í hausinn ef hún var að ybba sig. Að vísu endaði með að við urðum að flytja hann því að beljan var alveg hætt að éta, hún hnoðaði bara stanslaust milligerðið og var orðin rennsveitt á þessum endalausa hamagangi. Allavega held ég ekki að ég þurfi að hafa áhyggjur af að temja hann Skjóna minn, hann var alveg pollrólegur yfir þessu öllu saman og hélt bara áfram að japla á sínu heyi.

Það var alveg stórskrýtið að vera barnlaus alla helgina, ansi tómlegt verð ég að segja. Við fórum á töltmótið á Blönduósi á föstudagskvöldið (já, fórnuðum Idolinu fyrir það!) og vorum orðin blá af kulda þegar þessu loksins lauk. Samt gaman að fara svona einu sinni, við höfum ekki farið á mót þarna síðan 2001 ef mig minnir rétt.

Við létum telja fóstur í lömbum og veturgömlum í seinustu viku, það kom svona bærilega út. Ekki nema 13 geldir í gemlingunum sem er held ég fínt, en þeir eru 144 í heildina. Veturgömlu eru ekkert spes, 25 einlembdar af 84. Máttum svo sem vita það þar sem ekki var haustrúið. Það munar alltaf miklu á frjóseminni ef ekki er rúið að hausti, verður ekki eins mikil sæld í þeim. En við huggum okkur við það að það var þó engin geld :o)

Hunda- og kattabúskapurinn gengur vel, engir stórir árekstrar orðið milli manna, katta og hunda ;o) Garðar fer á hvolpanámskeið um næstu helgi, það verður gaman að sjá hvernig gengur með Pílu. Hún er ósköp góð greyið, en hún pissar bara út um allt - svona hræðslupiss! Það má varla segja nafnið hennar að þá pissar hún á sig. Svolítið þreytandi en það rjátlast vonandi af henni þegar hún stækkar.
Jæja, nóg af bulli í bili-
OVER AND OUT

Engin ummæli: