föstudagur, apríl 27, 2007

???

Mig langar ekkert sérstaklega til að láta ykkur sjá þessa síðu, en ég bara verð. Á nú gjörsamlega að ganga af blessaðri sauðkindinni dauðri?! Þarf flokkurinn að draga hana með sér í svaðið??

"Ungt framsóknarfólk notar kindina í sitt efni og er ekki feimið við uppruna flokksins. Það er töff að vera sveitó og íslenska sauðkindin er mögnuð!" Ég er semsagt töff. Og sveitó. Takk fyrir að láta mig vita.

Ég er nú ekki sérstaklega pólitísk í mér þó ég vissulega hafi mínar skoðanir, sem geta breyst frá degi til dags. En mikið ætla ég að vona að enginn sem ég þekki ýkja náið ætli sér að kjósa þetta. Reyndar væri best ef enginn kysi þessa apaketti, en það er kannski fullmikil bjartsýni í mér.
Og hananú.

miðvikudagur, apríl 25, 2007

Myndasíða

Ég er búin að setja nokkrar myndir inn á myndasíðuna mína, ég verð kannski ekkert voðalega dugleg við að setja inn, þar sem það tekur óratíma að hlaða þeim inn. Verk fyrir mjög þolinmótt fólk.......nú, já eða þá sem hafa almennilega nettengingu!

mánudagur, apríl 23, 2007

4. mánaða í dag

Set hérna inn myndir af Valgerði Emmu í tilefni dagsins. Myndin sem sýnir vel vaxtarlagið er sérstaklega sett inn fyrir mömmu, hún getur ekki hætt að dásama allar þessar fínu fellingar!
Mér finnst hún yndisleg hvort sem hún er í fötum eður ei ;o)



sunnudagur, apríl 22, 2007

Eitt og annað


Við fórum á sýninguna Tekið til kostanna í gærkvöldi. Verð að segja að ég var fyrir vonbrigðum með sýninguna í heild sinni, engin almennileg stemmning náðist upp og ekkert hross sem virkilega greip mig. Dívurnar voru flottar sem og Kraftur frá Bringu og Punktur frá Varmalæk; Geisla frá Sælukoti misstum við af, þar sem að Valgerður var orðin brjáluð hjá mömmu og við urðum að láta okkur hverfa. Asninn ég hafði ekki einu sinni prófað að gefa henni pela áður, og ég var sannfærð um að það yrði lítið mál þar sem hin börnin tóku við honum eins og skot. En það var öðru nær, hún vildi ekki sjá þetta peladót ;o)

Kannski var það bara stemmningsleysið sem gerði hrossin ekkert merkileg, ótrúlegt hvað góð stemmning skiptir miklu máli á svona sýningum! Það var fullt af fínum hrossum...en ekkert þeirra fékk mig til að segja VÁÁÁÁ!! En ég er greinilega alveg dottin út úr þessu, því það
hrósa allir sýningunni í hástert og öllum finnst að stemmningin í höllinni hafi verið frábær! Mikið hlýt ég að vera kröfuhörð ;o)



Ég reyndi með minni flass-lausu myndavél að taka einhverjar nothæfar myndir, en þær urðu af skornum skammti. Tók ótal myndir af Dívunum en það var svo mikil ferð á kellunum að það var andskotanum ómögulegt að ná góðri mynd af hópnum!


En út í aðra sálma. Hún Vaka virðist ætla að vera í lagi....allavega er hún lifandi enn ;o) Hvort hún verður til gagns ætla ég ekkert að segja um, það verður bara að koma í ljós. Ætlaði að taka mynd af henni, en enn og aftur var flassleysið að angra mig. Tók bara mynd af Krissa í staðinn, ósköp lítill en sykursætur. Svona eins og Jógvan, er það ekki Hallfríður?


Myndin af honum er ekkert sérstaklega góð, já helvítis flassið enn og aftur!


Fyrst ég var komin af stað með myndavélina, fór ég og tók myndir af folöldunum og stóðinu öllu.
Að vísu eru myndirnar varla hæfar á netið vegna þess hve drullan er ógurlega mikil en þið verðið bara að reyna að horfa framhjá því ;o) Alveg skelfilegt hvað allt veðst upp þar sem hrossunum er gefið.

Þessi brúna er hryssa undan Hrapp frá Sauðárkróki. Hún er frekar ófríð greyið, en afskaplega skemmtilegur gangur í henni.

Þessi bleikstjörnótta er undan Vita frá Miðsitju. Ég þarf endilega að reyna að ná henni af Garðari, það er eitthvað við hana sem mér líkar alveg óskaplega vel við.




Þessi móskjótti er undan Hrappi líka, fyrsta folaldið sem Garðar setur á sjálfur undan Húfu síðan við komum hingað, höfum alltaf selt folöldin undan henni. Reyndar gáfum við pabba eitt undan henni, ágætis reiðhestur sá klár.







Þessi bleikálótti risi hér til hliðar var seldur í réttunum í haust, en kaupandinn virðist hafa gleymt því og þess vegna ætlum við bara að eiga hann sjálf. Mér sýnist að hann ætti að geta borið mann og annan eftir einhver ár miðað við stærðina á honum núna.



Set ekki fleiri myndir inn í þessari lotu, bæti kannski við fleirum þegar umhverfið verður orðið skárra en á þessum myndum!

föstudagur, apríl 20, 2007

Ólíklegustu hlutir geta gerst...á Stórhól!

Það er best að byrja á að óska ykkur gleðilegs sumars og segja takk fyrir veturinn :o)
Sumarið byrjar reyndar ekkert sérstaklega vel hérna á bænum.

Á einhvern óskiljanlegan hátt hafði henni Vöku minni tekist að losa sig af básnum sínum í hesthúsinu, labba allan fóðurganginn (sem var reyndar lokaður með keðju), opna hurðina inn í hlöðu og komast þar inn. Þegar Janine fór að gefa í morgun þá stóð Vaka í heyinu inni í hlöðu og þegar hún sá stelpuna ákvað hún að skella sér inn á einn garðann í fjárhúsunum. Þar sem að búið er að moka út úr húsunum er ansi djúpt niður í krærnar og Garðar reyndi því að láta hana bakka allan garðann til baka. Honum tókst að láta hana bakka alveg að hurðinni á hlöðunni en þá vildi ekki betur til en að hún stökk yfir garðabandið og ofan í krónna. Og þar sem lánið leikur nú alltaf við mig og mín hross að þá tókst henni að lenda á heykvísl og stakkst hún í magann á henni! Enginn skilur hvernig í ósköpunum heykvíslin var komin ofan í krónna og hvað þá með kvíslina upp í loft?! Við höllumst helst að því að heykvíslin hafi staðið í hurðargættinni og dottið svona niður þegar hún hljóp inn á garðann.

Uppi varð fótur og fit og ég hringdi í dauðans ofboði í Ingunni dýralækni sem var mætt á mettíma. Og ótrúlegt en satt (miðað við mína heppni í það minnsta!), að þá var hægt að sauma saman gatið eftir kvíslina, en hún hefur samt líklega gert gat á annað lungað í sér þar sem hún andar ekki eðlilega. Þannig að nú er bara að bíða og sjá, við vitum svo sem ekkert hvernig þetta fer ennþá, en við erum í það minnsta nokkuð bjartsýn eins og er. Og ef hún tórir blessunin ætla ég að endurskíra hana; og ætli nafnið Ófeig verði ekki fyrir valinu, því ég er búin að missa 3 önnur hross undan Von (sem þessi er semsagt undan) og mér finnst það miklu meira en nóg.

Reyndar sagði ég við Garðar í fyrradag að ég ætlaði að endurskíra hana þar sem að nafnið Vaka passar bara alveg ómögulega við hana. Sé alltaf fyrir mér að það sé skeiðhross sem ber þetta nafn, Vaka/Ófeig mín er svo skelfilega klárgeng að hún ætlar alveg að drepa Garðar þegar hann fer á hana ;o) Hún hefur kannski frétt þetta og ákveðið að hjálpa mér í nafnavalinu, þar sem ég var alveg strand á því hvað hún ætti eiginlega að heita!

Annars er allt bærilegt í fréttum, það er allt búið að vera á rúi og stúi hérna innanhúss, en við vorum að breyta stofunni. Alltaf verið að brasa einhvern fjandann!

Gleymdi alveg að segja ykkur frá kálfinum hans Garðars; honum Krissa ;o)
Kristófer í Finnmörk hringdi í Garðar á föstudaginn langa og sagði honum að ef hann kæmi strax mætti hann eiga kálf sem að ein holdakýrin vildi ekki. Garðar tjúnaðist að sjálfsögðu alveg upp og brunaði upp eftir og náði í kálfinn. Það gekk hálf brösulega að koma mjólkinni í hann fyrst þar sem hann hafði lítið sem ekkert drukkið í 3 daga eftir að hann fæddist, en hann er allur að koma til núna. Og Garðar alveg hæstánægður með gripinn, sannfærður um að hann hafi bjargað geðheilsu hans þennan sauðburðinn...

Á morgun er stefnan sett á Hvammstanga til að byrja með, en hún Kristin Birna er að fermast á morgun. Svo verður vonandi brunað á Krókinn á eftir, þar sem við ætlum okkur að komast á Tekið til kostanna. Að vísu er veðurspáin ekki til að hrópa húrra fyrir, en vonandi er ekkert að marka hana í þetta skiptið ;o)
Set inn myndir af bágbornum búskapnum okkar og kannski af sýningunni þegar tími gefst til ;o)

sunnudagur, apríl 15, 2007

Hvað erum við að kvarta undan drullu?!

Svona lítur þetta út í dag hjá mömmu og pabba, húsið þeirra er hvíta húsið til vinstri á myndinni.
Þau búa (sem betur fer) á efri hæðinni.


Hérna er svo mynd sem pabbi sendi mér í dag:




Þarna sjáum við vatnsstrauminn niður tröppurnar hjá þeim, ekki mjög kræsilegt!
Það var lán í óláni að mamma var í heimsókn hjá okkur um helgina, þannig að bíllinn hennar slapp í það minnsta. Hún brunaði hins vegar heim áðan þar sem hún vildi að sjálfsögðu ekki missa af öllu fjörinu! Henni hreint elskar svona vesen ;o) Tók Kolbrúnu með sér, henni leiðist nú ekki að komast í smá drullu! Ég ætla allavega ekki að kvarta meira undan drullunni hérna úti hjá mér, sem er ekkert í líkingu við þetta!

mánudagur, apríl 02, 2007

Afmælisgjöfin




Já, "afmælisgjöfin mín" frá Garðari kom í gærkvöldi:


Á ég að þora út hérna?!



Þetta er semsagt hann Trítill minn. Ég keypti hann nú reyndar sjálf og sá alfarið um allt sem því fylgdi , en svo að Garðari líði nú betur kallast hann semsagt afmælisgjöfin mín. Það verður að réttlæta vitleysuna í mér á einn eða annan hátt ;o)


Víðir náði í hann fyrir okkur þar sem hann þurfti að fara suður með Lindu í flug, þetta var ansi langt ferðalag og ég er ekki frá því að það hefði verið mun ódýrara að senda hann með flutningabíl hingað. Við vitum það allavega fyrir næsta hross sem við kaupum ;o)

Víðir kom ekki fyrr en um 10 leytið í gærkvöldi , þannig að við gáfum honum hey í kerruna og létum hann svo út í morgun - vildum ekki vera að henda honum út í myrkrið í gær. Hann var nú hálf eitthvað sljór greyið, og kannski alveg skiljanlegt eftir allt þetta ferðalag.



Flottastur ;o)

Ég "fékk hann í afmælisgjöf" út á litinn, hann er jarpblesóttur, leistóttur og hringeygður; með þessi líka fallegu bláu augu. Eða mér finnst það fallegt...ekki viss um að allir séu sammála mér með það! Svo er hann bara ansi huggulegur undir sjálfum sér skal ég segja ykkur, veður áfram á skrefmiklu brokki en mér sýnist hann nú ekki vera ganglaus þrátt fyrir það. Kemur betur í ljós seinna!

Nú er ég bara að reyna að sannfæra eiginmann minn um að fá að hafa "afmælisgjöfina" graða áfram, þó ekki væri nema 1-2 ár. Garðar er, vægt til orða tekið, ekki mjög spenntur fyrir því að hafa graðhest í okkar eigu. Þetta er nú meiri þvermóðskan alltaf.

Þannig að nú er um að gera fyrir ALLA að segja Garðari hversu óskaplega sniðugt það væri að hafa hann graðan -þó ekki nema fyrir litinn. Þá endar með því að hann stingur upp á því sjálfur og þykist vera ógurlega sniðugur. Látið mig vita það, ég þekki hann ;o)