föstudagur, júlí 27, 2007

Flutt!!

Nú er ég komin hingað og vonandi líkar mér þar, því mér leiðast flutningar alveg óskaplega ;o)
Sjáumst (eða þannig..) vonandi á hinni síðunni..

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Stóðið rekið á heiðina

Garðar og Svenni marka einbeittir á svip.

Hryssurnar voru reknar á heiðina í gær, öll folöldin mörkuð og hófarnir klipptir á því sem þurfti. Afföllin í hrossunum hérna ætla engan endi að taka, eitt folald var horfið og hvergi sást tangur né tetur af því. Annað folald er ekkert nema skinn og bein, við gáfum því ormalyf og pensilín og ætlum að fylgjast með því hvernig það plumar sig. Þetta er alveg ótrúlegt hvað við erum búin að vera óheppin síðastliðið ár :/

Hryssurnar lagðar af stað á heiðina.


Þegar búið var að sortera okkar hross voru þau rekin af stað upp í Valdarásrétt þar sem þau biðu þar til búið var að ná í hrossin hans Svenna. Þetta gekk allt saman alveg ljómandi vel, krakkarnir héngu á hverri þúfu og tróðu sig út af krækiberjum, sem mér fundust vera ansi safalaus og smá. Krökkunum fannst þau hins vegar alveg æðisleg! Verður greinilega gott berjaár í ár, hver þúfan af annarri var svört af berjum.















Svo fallegt bros ;o)

Svo voru folöldin hans Svenna mörkuð í réttinni, ef þið eruð að leita ykkur að litahrossum þá er Svenni rétti maðurinn! Varla hægt að finna einlitt folald í hópnum hjá honum og mörg býsna sperrt að sjá.

Eitt af fjölmörgum litaflottum folöldunum hans Svenna.

Jarpskjótta hryssan hennar Valgerðar er ekki lengur jarpskjótt, núna er hún orðin brúnskjótt en verður væntanlega gráskjótt ;o) Ég er hætt að reyna að litagreina þessi blessuðu folöld mín, ef ég ákveð einhvern lit á þau taka þau bara upp á því að skipta algjörlega um lit!

Svo sjáið þið í rassinn á hryssunni sem ég var að vonast til að yrði litförótt, það er bara ekki hægt að sjá það ennþá því það er ekkert byrjað að missa fæðingarhárin. Sá eitt litförótt hjá Svenna og það var mjög líkt þessu á litinn, kannski ekki eins ljóst og þetta. Það væri nú gaman að eignast eitt litförótt, þó það sé nú ekki minn uppáhaldslitur. Ég get þó sagt þá að ég hafi átt einu sinni svoleiðis ;o)

Enda þetta á mynd af Valgerði sem varð 7. mánaða í gær og mátti dúsa með mér í bílnum á eftir hrossunum mest allan daginn og var svo stillt og góð....eins og venjulega ;o)


sunnudagur, júlí 22, 2007

Heyskapur og tiltekt

Heyskapur stendur sem hæst núna á Stórhóli, búið að slá allt hérna heima við og Hrísar verða slegnir á þriðjudaginn. Garðar er að rúlla núna í þurrrúllur og pabbi gamli rakar. Og ég sit við tölvuna?! Ég ætti nú bara að skammast mín! Reyndar er ég búin að gera ýmislegt í dag sem gefur mér alveg fullan rétt til að setjast niður og skrifa nokkrar línur ;o)


Pabbi er búinn að vera hérna hjá okkur þessa vikuna að hjálpa til, smíða hænsna- og kanínubúr og svona sitt lítið af hverju- allt hlutir sem við komum aldrei í verk! Og síðast ekki en ekki síst er hann duglegur að tína upp hin ýmsu verkfæri sem vissir aðilar henda frá sér þar sem þeir standa...nefni engin nöfn. Alveg nauðsynlegt að fá svona fólk í heimsókn öðru hvoru til að laga slugsaganginn hérna :o)


Ég er alltaf að hugsa um að færa þessa síðu mína eitthvað annað, td. á 123.is eða bloggar.is eða eitthvað annað. Leiðist alveg óskaplega að setja myndir inn á einhverja síðu eins flickr.com, ég vil hafa þetta allt á sömu síðunni. Þið megið þess vegna alveg kommenta með það hver af þessum síðum er þægilegust við að eiga, mér líst svolítið vel á uppsetninguna hjá 123.is svona af því sem ég hef skoðað.


Á morgun rekum við merarnar á heiðina með Svenna á Hrísum, þá verður væntanlega heilmikið fjör þar sem það þarf að marka um 45 folöld. Ég er búin að setja batteríin í hleðslu....sem er jú ávísun á að ég gleymi að taka þau með á morgun! Skelli samt vonandi inn einhverjum skemmtilegum myndum eftir að við erum búin á morgun.

Enda þetta á mynd af Léttfeta sem er 3.vetra, hann er orðinn svo fallegur finnst mér og ekki skemmir nú liturinn. Hefði samt mátt vera aðeins gulari á skrokkinn, því þá sæi maður betur blesuna á honum.

Gott í þetta skiptið, farin að líta á hvernig heyskapurinn gengur!

sunnudagur, júlí 15, 2007

I´m back

Búin að vera tölvulaus í að mér finnst heila eilífð.

Ég hafði það loksins af að koma tölvunni í viðgerð, það var búið að standa til í marga mánuði en ég hafði nú alltaf hummað það af mér. Það kom þá náttúrulega að því blessuð tölvan hætti algjörlega að hlýða mér, ég vissi alveg upp á mig skömmina með það og sendi hana því loks af stað til höfuðborgarinnar. Nú er bara að vona að hún hætti að láta eins og asni við mig, hún hefur nefnilega verið að kveikja og slökkva á sér í tíma og ótíma, ansi pirrandi þegar maður hefur ekki vit á að seifa það sem maður er að gera :/


Annars er allt tíðindalítið, heyskapurinn ekki enn byrjaður á Stórhóli en ég býst við að við byrjum á Hrísum í næstu viku. Við ætlum að reyna að taka heima-heyið í þurrrúllur, við höfum bara ekkert að gera með allt þetta hey. En vafalaust verður ágúst mánuðurinn blautur, þó ekki nema bara af því að við ætlum að heyja í þurrrúllur! Það er allt hreinlega að skrælna hérna, kemur ekki dropi úr lofti og rigningin virðist ekkert vera á leiðinni á næstunni.


Tryppin komust á heiðina eftir heilmikinn eltingarleik, og eitt er víst; við stríðum ekki Svenna meira á óþekku hrossunum hans ;o)

Kýrnar 2 og kvígan litla fengu loksins að fara út fyrir um viku síðan, að sjálfsögðu gekk það ekki áfallalaust fyrir sig frekar en annað hér á bæ. Kvígan hljóp upp á þjóðveg af því að hún missti af kúnum þegar þær hentust um í rassaköstum, það var okkur til happs að kvígan er svo skelfilega feit að hún var sprungin eftir nokkurra metra hlaup! Þannig að Garðar og Svenni gátu fylgt henni aftur inn í hólfið án nokkurra vandræða. Þær eru í sama hólfi og eineistungarnir okkar, þið hefðuð átt að sjá upplitið á þeim þegar beljurnar komu æðandi til þeirra með rassinn upp í loft!! Aldrei sést sperrtari skepnur á Stórhóli held ég ;o) Við erum viss um að annað hvort er eistað sem komið var niður með öllu horfið, eða þá að hitt hafi skoppað niður í öllum hamaganginum!


Enda þetta á mynd af Garðari og Amadeus, en Garðar reið með bræðrum sínum og fleirum hingað heim frá Blönduósi. Garðar var orðinn svo rasssár að hann var farinn að standa í hnakknum síðasta spölinn ;o)
Og ég sat inni í bíl og hló...

fimmtudagur, júní 21, 2007

Ég var búin að skrifa

alveg heljarinnar pistil hérna í gær, sem svo hvarf eins og dögg fyrir sólu. Og í dag er ég alveg andlaus og man ekkert hvað það var sem var svona óskaplega gáfulegt og merkilegt sem ég pikkaði inn. Sem bendir til þess að það hafi ekki verið mjög bitastætt og því get ég varla grátið það að hann hafi ekki skilað sér á síðuna.

Ekkert merkilegt í fréttum, Garðar háþrýstiþvær timbur alla daga og ég planta sumarblómum í alla mögulega og ómögulega blómapotta. Og svo koma hundarnir og kettirnir í kjölfarið og naga blómin mér til ómældrar ánægju...eða þannig.

Eitt af því skemmtilegra sem ég geri er að kaupa sumarblóm. Það er til svo mikið af fallegum blómum og ótrúlegt en satt, geta sum þeirra lifað allt sumarið hérna hjá mér -þeas. ef þau fá frið fyrir hinum ýmsu dýrum sem búa hér. Sem betur fer var Garðar ekki með í för þegar ég fór og verslaði blómin, honum hefði blöskrað eyðslan í kerlingunni og sett mig í sumarblómakaupstraff...svona fyrst að ég er laus úr Bónusstraffinu ;o)
Ég var búin að fylla í alla mjólkurbrúsa sem til voru af blómum, þannig að ég ákvað að færa mig upp aðeins upp á skaftið og fór að spyrja Garðar hvort hann ætti ekki eins og eitt myndarlegt traktorsdekk fyrir mig til að planta blómum í.
Þið sem þekkið Garðar vitið að hann er nefnilega ansi duglegur í að sprengja dekkin á traktorunum.
Það eina sem hann gat hins vegar boðið mér var lúið dekk undan skítadreifara. Uhhhh....nei takk. Ég held að ég reyni þá bara að finna eitthvað annað, nóg er til af draslinu hérna og það hlýtur að vera hægt að troða blómum í eitthvað af því!
Jæja, nú er víst best að hætta, Kolbrún var að koma inn með bólgið og blóðugt nef; Garðar sem er þessi týpíski karlmaður (kvenfólk veit hvað ég á við), sveiflaði einni spýtunni beint framan í Kolbrúnu, "sem átti ekki að standa þar sem hún stóð, allavega var hún ekki þarna rétt áðan!"
Bið að heilsa í bili..