fimmtudagur, júní 21, 2007

Ég var búin að skrifa

alveg heljarinnar pistil hérna í gær, sem svo hvarf eins og dögg fyrir sólu. Og í dag er ég alveg andlaus og man ekkert hvað það var sem var svona óskaplega gáfulegt og merkilegt sem ég pikkaði inn. Sem bendir til þess að það hafi ekki verið mjög bitastætt og því get ég varla grátið það að hann hafi ekki skilað sér á síðuna.

Ekkert merkilegt í fréttum, Garðar háþrýstiþvær timbur alla daga og ég planta sumarblómum í alla mögulega og ómögulega blómapotta. Og svo koma hundarnir og kettirnir í kjölfarið og naga blómin mér til ómældrar ánægju...eða þannig.

Eitt af því skemmtilegra sem ég geri er að kaupa sumarblóm. Það er til svo mikið af fallegum blómum og ótrúlegt en satt, geta sum þeirra lifað allt sumarið hérna hjá mér -þeas. ef þau fá frið fyrir hinum ýmsu dýrum sem búa hér. Sem betur fer var Garðar ekki með í för þegar ég fór og verslaði blómin, honum hefði blöskrað eyðslan í kerlingunni og sett mig í sumarblómakaupstraff...svona fyrst að ég er laus úr Bónusstraffinu ;o)
Ég var búin að fylla í alla mjólkurbrúsa sem til voru af blómum, þannig að ég ákvað að færa mig upp aðeins upp á skaftið og fór að spyrja Garðar hvort hann ætti ekki eins og eitt myndarlegt traktorsdekk fyrir mig til að planta blómum í.
Þið sem þekkið Garðar vitið að hann er nefnilega ansi duglegur í að sprengja dekkin á traktorunum.
Það eina sem hann gat hins vegar boðið mér var lúið dekk undan skítadreifara. Uhhhh....nei takk. Ég held að ég reyni þá bara að finna eitthvað annað, nóg er til af draslinu hérna og það hlýtur að vera hægt að troða blómum í eitthvað af því!
Jæja, nú er víst best að hætta, Kolbrún var að koma inn með bólgið og blóðugt nef; Garðar sem er þessi týpíski karlmaður (kvenfólk veit hvað ég á við), sveiflaði einni spýtunni beint framan í Kolbrúnu, "sem átti ekki að standa þar sem hún stóð, allavega var hún ekki þarna rétt áðan!"
Bið að heilsa í bili..

mánudagur, júní 18, 2007

Húsbóndinn á heimilinu

á afmæli í dag. 31. árs gamall, set inn mynd af honum í tilefni dagsins. Svo sjáið þið líka á myndinni eina af aðferðum hans til að endurrækta- rífa bara þúfurnar með sér þegar hann rúntar um á fjórhjólinu! Alltaf að spara sér tíma þessi elska ;o)

fimmtudagur, júní 14, 2007

Það hafðist af


Folald undan Alvari og Skessu
að koma stóðhestinum á sinn stað, með hvorki meira né minna en 29 hryssur! Dágóður slatti myndi ég segja! Ég hafði það líka af að taka heilar 120 myndir í tilefni dagsins, ég hendi inn myndum af folöldum á myndasíðuna eins hratt og mín góða nettenging leyfir.

Þetta gekk allt býsna vel með góðri hjálp frá Nonna, Víði og Svenna, að sjálfsögðu máttum við elta hrossin hingað og þangað en það fylgir nú bara svona brasi. Allt fór á réttan stað á endanum og þá er nú í lagi þó karlarnir þurfi aðeins að hlaupa spikið af sér ;o)


Varmi kominn á veginn.


4.vetra voru tekin inn, Varmi og Sandra. Varmi henti sér nú strax á hliðið á réttinni og hljóp því út um allt og endaði með reiðhestunum inni í gerðinu. Meira fiðrildið sem ég á! Það verður eitthvað fjörið að temja hann skal ég segja ykkur!

Svo voru eineistungarnir að sjálfsögðu teknir inn líka. Nú er bara að fara að klípa í til að athuga hvort nú finnist tvær kúlur í stað einnar..


Ég reyndi sem mest ég mátti að kyngreina öll folöld, en eftir að ég var búin að kíkja undir stertinn á einum 7 stykkjum mátti ég játa mig sigraða. Það er víst betra að hafa blað og skriffæri þegar maður stendur í svoleiðis löguðu, allavega er það ekki fyrir minn litla heila að muna.


Skundi fékk far heim eftir öll hlaupin..


Hitinn var eiginlega of mikill fyrir greyið hrossin. Folöldin voru rennsveitt og héngu á spenanum nærri stanslaust. Þess á milli dormuðu þau við hliðina á mömmu sinni, alveg ógurlega þreytt! Folaldið undan Gránu hennar Kolbrúnar var nú bara við það að falla um koll af þreytu!

Það þyngdist heldur á mér brúnin þegar á leið, því nú var víst komið að því að taka hana Von mína úr ásamt tveimur öðrum sem fara undir aðra hesta. Já, það er víst komið að leiðarlokum, alltaf erfitt að láta frá sér hross sem hafa fylgt manni síðan maður var smákrakki. Það var ekki langt í að tárin læddust niður kinnarnar þegar hún var teymd úr hópnum og kökkurinn í hálsinum stækkaði með hverri mínútunni sem leið. Það er bara vonandi að sú veturgamla sem ég á undan henni verði jafnmikil kempa og sú gamla, þá verð ég glöð með mitt!
Læt þetta duga,annars endar þetta með því að ég set inn allar 120 myndirnar sem ég tók!

laugardagur, júní 09, 2007

Gargandi snilld!


Hér sjáið þið nýjasta folaldið sem fæddist í gær, varð bara að sýna ykkur það!

Best að sýna ykkur mynd af því frá öllum hliðum, ég er ekki viss um að allir séu hrifnir af hinni hliðinni á þessum litla stubb! Við erum hins vegar hæst ánægð með hann...
Og að framan séð..
Svo langar mig til að spyrja ykkur hvaða litur þetta er:

Það er undan moldóttri meri og jörpum hesti, er þetta ekki bara följarpt eða bleikjarpt einhvernveginn?? Mér fannst eins og augun í því væru mun ljósari en venjulega?

Erum að fara að stússast í hrossum í dag og vonandi á morgun, losa okkur við hagagönguhross og græja hryssurnar sem eiga að fara með Mjölni í hólf.

Folaldið sem ég bjástraðist við í 5 daga drapst að lokum, það fékk aldrei almennilegan þrótt í afturpartinn og gat aldrei staðið upp af sjálfsdáðum. Ekki alveg eins og það átti að vera. Aldrei verið eins mikið bras á hrossunum eins og eftir að við urðum fjárlaus!

Vonandi næ ég að taka myndir af öllum folöldunum, mig langar til að koma myndum af þeim öllum á myndasíðuna mína, það eru bara 3 hryssur sem eiga eftir að kasta sýndist mér. Og vonandi verður veðrið svona frábært á morgun eins og það er í dag, það er svo gaman að labba innan um hrossin í svona veðri og taka myndir af þeim.

Þetta er gott í bili, hef ekkert að segja -langaði bara að sýna ykkur folaldið!


fimmtudagur, júní 07, 2007

Best að hugsa sinn gang

Ætli þetta endi svona hjá mér einhvern daginn? Nógu dugleg er ég að sanka að mér öllum anskotanum, Garðari til ómældrar gleði....eða þannig! Að vísu get ég alveg lofað að ég ætla alls,alls ekki að fá mér rottur, það er nóg að hafa einn dverghamstur á heimilinu held ég ;o)

þriðjudagur, júní 05, 2007

Mjölnir

Ég hef ekki haft neinn tíma í að fara að skoða folöldin þar sem við erum að reyna að basla við að halda lífi í einu folaldi sem virðist alveg ómögulega geta fattað að fara á spena. Það er svo máttlaust og virðist ekki hafa neina krafta til að sjúga merina. Þannig að ég er að reyna að mjólka merina og blanda einhverju mjólkursulli saman handa því til að reyna að fá einhvern kraft í það. Er ekki ýkja bjartsýn á framhaldið satt best að segja...

En þar sem ég var búin að lofa að setja inn myndir af Mjölni er víst best að standa við það ;o)

Klárinn er virkilega fallegur og mjög prúður í umgengni, við settum hann bara beint í merar þegar hann kom, þar sem plássið í hesthúsinu er orðið af skornum skammti út af veika folaldinu. Enda engin ástæða til að láta þetta hanga inni að ástæðulausu. Folinn var líka guðslifandi feginn að komast út á lífið ;o)



Jæja, hef engan tíma í þetta, farin að hræra saman mjólk, eggjum og hunangi og kveð í bili..

laugardagur, júní 02, 2007

Loksins

Eftir heilmikla lægð í folöldafæðingum rættist heldur betur úr því í dag og gær. Hvorki meira né minna en 7 folöld sem komu í þessari bunu. Hef ekki enn náð að skoða þau eða taka myndir af þeim, skelli mér í það eins fljótt og ég get og um leið og styttir upp hérna. Það er búið að rigna alveg svakalega mikið svona inn á milli í dag, sem er frábært því það var allt orðið hálf skrælnað hérna og úthagi ekkert farinn að taka við sér að ráði. Og hitinn sem betur fer á uppleið, hann var að verða ansi þreytandi þessi endalausi kuldi. Vænti þess að góður kippur komi í þetta núna og stóðhesturinn komist því í merarnar eftir næstu helgi.

Talandi um stóðhesta; klárinn sem við verðum með í sumar var byggingardæmdur í vikunni á Gaddstaðaflötum og fékk þennan líka fína dóm. 8,44 fyrir byggingu takk fyrir! Svo skemmir nú ekki liturinn, en hann er bleikskjóttur. Ég sé fram á erfitt næsta ár í folalda ásetningi ;o)
Þessi hestur heitir Mjölnir frá Héraðsdal og er undan Hilmi frá Sauðárkróki. Hann á að koma til okkar á mánudaginn, að sjálfsögðu læt ég Garðar prófa gripinn og sjá hvort hann er eitthvað meira en útlitið blessaður. Og ég verð á vísum stað-með myndavélina á lofti..

Ætla að segja þetta gott í bili, set engar myndir í þessari færslu þar sem ég býst við að hafa ríflegt magn af þeim í þeirri næstu. Vafalaust einhverjir sem eru jafn illa tengdir og ég sem blóta þessum endalausu myndum sem ég treð hér inn! Eða er ég orðin sú eina sem bý með ISDN+, sem átti að vera svo MIKLU BETRI en sú tenging sem ég hafði. Hef nú ekki fundið það nema á einn hátt; mun hærri símreikningi...

Eitt enn, þið eruð nú meiri dónarnir að minnast ekkert á breytt útlit síðunnar, kostaði blóð, svita og tár að breyta þessu (ok...smá ýkjur :)! Hnusssssss....!