Svo sem ekkert að frétta, ákvað samt að setja eitthvað hérna inn til að fólk viti að ég er þó á lífi...
Það hafa ekki bæst fleiri lömb við enn sem komið er, sauðburður á svo sem ekkert að byrja fyrr en um 6. maí heldur. Það eru samt nokkrar sem gætu borið eitthvað fyrr, ellismellirnir fengu glaðninginn sinn á undan hinum skjátunum, en það var bara af því að hrúturinn var svo fjandi léttur á sér og hélst ekki á sínum stað. Það er bara vonandi að Ragnar Logi fái glaðning á afmælisdaginn sinn, og ekki værri það verra ef það væru kindurnar hans :o)
Vorum að setja brynningu upp í gömlu húsunum í gær, Ingvar á Kolugili var að hjálpa okkur. Stefnt er svo að klára nýju húsin í kvöld. Þetta átti náttúrulega að vera löngu búið, alveg eins og ég ætlaði að vera löngu búin að temja þessi 7 hross sem standa inni í hesthúsi. Skelfilegt. Svo er ekkert hægt að gera núna af því að gerðið er orðið ógeðslegt, bara drullusvað! Reyndar er allt svo skelfilega blautt að það er varla hægt að ganga nokkurs staðar án þess að skilja gúmmístígvélin eftir í drullunni. Og ég er sko búin að gera það nokkrum sinnum...
Ég keypti mér þurrkara um daginn, verslaði hann auðvitað af Stebba í Húsasmiðjunni. Fínasti þurrkari, þvílíkur munur að vera ekki með þvott út um allt hús að reyna að þurrka hann. Svo er líka búin að vera glampandi sól síðan ég keypti hann!
Ég frétti af "katta" vinnukonunni í dag, hún ætlar víst að fara heim mun fyrr en hún ætlaði sér. Ísland er víst ekki alveg eins æðislegt og hún hélt. Skilur ekkert í þessu trjáleysi hérna td., henni finnst landið svo tómlegt eitthvað. Hún hefði nú átt að kynna sér það áður en hún anaði af stað! Allavega ætlar Garðar EKKI að fá fleiri vinnukonur, nennir ekki að standa í svona lotteríi. Svei mér þá, ég held að hann hafi bara verið nokkuð ánægður með alla kettina í þetta skiptið ;o)
Svo virðist það nú vera ansi algengt að þetta fólk segir ekki alveg satt í sambandi við hvað það kann og getur, einn maður hérna í sveitinni fékk vinnukonu sem átti að vera þrælvön hestum og börnum. Hún gat svo ekki einu sinni haldið í hest án þess að fara að vola og börn voru hin mesta skelfing í hennar augum. Hún var víst send heim hið snarasta...
Jæja, best að skella sér í pizzu baksturinn, það er jú föstudagur í dag ;o)
Góða helgi!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli