föstudagur, febrúar 23, 2007

Hér sjáið þið mynd af stórtamningarmanninum Garðari á henni Eldingu, sem Ragnar Logi á. Ekki seinna vænna að fara að temja hana þar sem hún verður víst 7.vetra í vor. Betra seint en aldrei er það ekki?
Garðar er búinn að vera með 8 af hrossunum á Blönduós þessa viku, öll komin á járn og hann er farinn að ríða öllum (nema einu reyndar) út um hvippinn og hvappinn. Það er svo mikill munur að ríða út með einhverjum öðrum og geta elt á tamningarhrossunum. Þetta eina sem hann er ekki farinn að ríða á úti er hryssan mín undan Kalman, hún er svo leiðinleg í beisli að það er ekki hægt að tjónka neitt við hana. Svo er hún klárgengari en andskotinn og það er víst ekkert gaman að eiga við hana svona úti við. Þannig að henni er bara riðið í hringgerði og unnið með hana þar. Þetta kemur allt saman á endanum vonandi.

Ég er búin að vera með ónót í mér alla þessa viku.
Þá er ég ekki að meina einhverja pest, heldur líður mér eins og eitthvað sé að fara að koma fyrir. Eitthvað vesen. Garðar er líka búinn að vera svona, það er vonandi að þetta sé bara einhver fyrirtíðarspenna í okkur báðum ;o) Skrýtið þegar eitthvað leggst svona á mann og maður veit ekkert út af hverju. Kannski fer að bresta á fyrsta almennilega hríð vetrarins, ég veit ekki!

Jæja, Valgerður farin að góla á mig, læt þetta duga í bili...

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Ég er svo aldeilis bit

Ég skildi ekkert í því í seinustu viku að Stöð 2 datt út hjá okkur. Það var alveg sama hvað ég fiktaði, aldrei kom helvítið inn aftur. Lét Garðar meira að segja hífa mig í fiskikari upp á strompinn til að reyna að laga það sem að væri. Hékk þar með lífið í lúkunum í um klukkutíma og fiktaði í öllu sem hægt var að fikta í -án árangurs. Búin að kreista og klípa allar loftnetssnúrur innanhúss í von um að finna einhverja bilun- án árangurs.

Fer svo í Víðigerði í gær og ákveð að spyrja þar hvort það sé í lagi með Stöð 2 þar. Þá kemur upp úr krafsinu að við erum að fá Digital Ísland á svæðið og það sé búið að aftengja gamla sendinn! Mamma eða hvað það nú heitir var víst um helgina að dreifa nýju lyklunum á svæðinu en auðvitað var ég ekki heima þennan eina dag sem þeir áttu að hafa komið hér við.
Brunaði því út á Laugarbakka í gær til að fá nýjan lykil og viti menn, ég sé aftur Stöð 2! Og núna er Sirkus og Skjár 1 kominn líka. Og ég sem er nýbúin að fá mér gervihnattadisk og græjur af því að við náðum ekki ma. Skjá einum! Ég verð að segja að mér finnst framkvæmdin á þessu alveg til skammar, það hefði nú alveg verið hægt að senda manni smá snepil um að það ætti að fara að breyta þessu hérna. Hefði sparað mér MIKINN tíma og ÓÞARFA fyrirhöfn.

Þannig að nú erum við líklega með um 130-140 stöðvar til að góna á, þetta er náttúrulega til að gera hvern mann vitlausan. Maður situr fyrir framan sjónvarpið með hrúgu af fjarstýringum og nær yfirleitt ekki að horfa á heilan þátt af neinu því maður er alltaf að gá hvað er á næstu stöð!
Það var nú ekki ætlunin að festast við sjónvarpið þó kindurnar væru farnar sko ;o) Enda reyni ég að stjórna notkuninni eftir fremsta megni, er ansi hörð á fjarstýringunum þessa dagana!
Kannski get ég farið að halda bíó kvöld fyrir sveitungana, boðið þeim í PBR partý meðal annars ;o) Það væri ráð....

mánudagur, febrúar 19, 2007

Mitt leiðinlegasta verk

er að gera eitthvað sem tengist bókhaldi. Fæ nettan hroll þegar ég hugsa til þess að það fer að styttast í skil á skattframtalinu.
Hafði það af að koma öllum nótum og greiðsluseðlum á vísan stað í dag, ætla alltaf að gera þetta jafnóðum en einhvern veginn fer það alltaf svo að ég safna þessu bara í stóran haug sem þarf svo að fara í gegnum þegar kominn er tími á skil á virðisaukaskattinum. Það er semsagt að styttast í skil...
Þið skulið ekki halda að ég hafi komið mér í þetta verk að ástæðulausu !

Fann annars "skemmtilegan" reikning (er eitthvað slíkt til?!) sem ég hafði borgað; fyrir tæmingu á rótþrónni. 7.000 kr. greiddar fyrir þetta verk....og það skemmtilega er að rotþróin stendur ennþá í portinu hjá Húnaþingi vestra. Búin að vera þar líklega í um 2 ár. Það er nú meira hvað þetta lið hjá bænum getur skitið.

Bakaði bollur í gær í tilefni bolludagsins í dag, var hófleg í bakstrinum í ár. Hef stundum gert óheyrilega mikið magn af bollum og í staðinn fengið algjört ógeð á rjóma og glassúr í laaaangan tíma. Allt er víst gott í hófi...

Verð að segja að ég er ánægð með að Eiríkur Hauksson skyldi hreppa sigurinn í Evróvisíon-undankeppninni. Fínt lag, ekkert viss um að það geri neinar rosalegar rósir í keppninni í Finnlandi- en það verður okkur allavega til ekki skammar heldur. Hann er bara svo æðislegur kallinn, ég fer alltaf að hugsa um Lion Bar þegar ég sé hann... Urrandi flottur ;o)

Jæja, styttist í að ég þurfi að ná í Kolbrúnu í leikskólann, best að hætta þessu bulli í bili.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Ég ætla mér alltaf að fara að taka þessa bloggsíðu í gegn, setja inn fullt af linkum og flottheitum, en eina sem ég kem mér í er að skipta um útlit á síðunni sjálfri. Gat nú ekki einu sinni munað hvar maður á að setja inn linkana á aðrar síður, þið sem það vitið megið gjarnan benda mér á það! Minnið greinilega farið að svíkja gömlu konuna.

Styttist í þrítugs afmælið mitt, mér finnst ég samt alltaf vera tvítug. Seinasti áratugur liðið ótrúlega hratt enda margt gerst á þessum árum. Reyndar eltist ég andskoti hratt fyrir rúmum mánuði síðan, mest hissa að ég skyldi ekki verða gráhærð meðan á öllu havaríinu stóð. Garðar er orðinn býsna gráhærður, enda er hann að verða 31. árs ;o)

Tamningar ganga bærilega, nú þarf bara að fara að koma gömlu klárunum inn svo það sé hægt að nota þá til að teyma og svona ýmislegt. Ekkert hægt að æða í reiðtúr á þessum tamningar tryppum, verða að hafa helst einhvern til að elta þessi grey. Garðar er farinn að ríða á þeim öllum nema tveimur, hann á einn klikkhausinn og ég á hinn. Jafnræði í þessu sko ;o)
Nonni ætlar svo að koma á morgun vonandi og járna eitthvað.

Annars eru tömdu klárarnir orðnir svo svakalega feitir að ég stórefast um að hægt verði að spenna hnakk á þá. Verðum að fá fíla-gjörð til að geta fest hnakkinn á þá held ég. Það var líklega ekkert sniðugt að láta þá hreinsa hánna á túnunum og afganginn af kálinu og rófunum ;o)


Alltaf svo þreytt!


Valgerður Emma stækkar hratt þessa dagana. Ég tek svo sem ekki mikið eftir því sjálf, fyrr en ég fer að skoða myndir af henni. Hef ekkert sett hana í vagn ennþá þar sem það hefur verið svo kalt upp á síðkastið, get ekki hugsað mér að setja hana út í gaddinn sem hefur verið. Fer nú að styttast í það þó, frostið aðeins á undanhaldi loksins. Verður gott að komast aðeins út aftur, hef gert ósköp lítið af því undanfarið :o)

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Bræðurnir Varmi og Léttfeti
Set auðvitað bara inn myndir af mínum hestum, þar sem þeir eru að sjálfsögðu langflottastir ;o) Haldið þið ekki að ég verði vígaleg í göngunum eftir nokkur ár þegar ég verð komin á Léttfeta? Lukku Láki my ass....ég verð sko mikið flottari! Var ekki hesturinn hans annars ljósblesóttur?
Hafði það semsagt af að fara og taka myndir af 1/2 af stóðinu, auðvitað var myndavélin batteríslaus eftir nokkrar myndir...
Þarf svo að fara í annan leiðangur næstu daga, þar sem folaldsmerarnar eru sér í hólfi. Er orðin spennt að sjá folöldin, ekki séð þau þannig lagað síðan í október. Garðar er nú búinn að viðurkenna fyrir mér að ég eigi fallegasta folaldið...ég vissi það nú alveg ;o)

föstudagur, febrúar 09, 2007

090207

Frábært veður í dag, glampandi sól og logn. Að vísu fjandanum kaldara; -12°C en æðislegt engu að síður. Náðum í stóðið í dag sem var fyrir sunnan veg og settum það í hólfið hérna norðan við bæinn, erum nefnilega að fá hross í hagagöngu og ætlum að hafa þau ein í stóra hólfinu. Okkar merar eru nefnilega soddan frekjur að það er ekki hægt að bjóða ókunnugum hrossum upp á svoleiðis ;o) Ég ætla að reyna að komast kannski út í dag að taka myndir af hrossunum ef tími gefst til. Hef ekki farið og kíkt á hestana mína í ansi langan tíma, ég ætti nú bara að skammast mín það er svo langt síðan!

Gervihnattadiskurinn minn er kominn á vísan stað á strompinum, núna getum við horft á ágætis slatta af stöðvum -hver annarri vitlausari. Engar klámstöðvar fyrir Gassa, en fuuullt af einhverjum tjatt stöðvum þar sem þú getur hringt í dömurnar og þær fækka fötum fyrir þig og gera ýmsar hundakúnstir. Geti ekki sagt að þetta heilli mig, væri kannski annað ef það væru einhverjar svona stöðvar með flottum karlmönnum í stað þessara kvenna :o)

Kolbrún er komin með kvef eina ferðina enn, ég þarf víst að fara með hana til HNE læknis og láta rífa úr henni nefkirtlana. Hún gengur um alla daga orðið með hor niður að hnjám, ég hef aldrei þolað svona hor-krakka. Viðbjóðslega ógeðslegt alveg hreint. Vonandi kemst ég því með hana fyrr en seinna í aðgerð, orðin hundleið á þessum snýtingum daginn út og inn.

Læt þetta duga í bili, hef ekkert að segja hvort eð er. Aðallega skylduræknin sem rak mig til þess að skrifa.
Adios amigos

mánudagur, febrúar 05, 2007

Valgerður Emma


Já, hérna er mynd af henni Valgerði Emmu á skírnardaginn sinn. Það var skírt í kvöldmessu í Víðidalstungukirkju í gærkvöldi og var bara æðislega fínt. Var svo rólegt og huggulegt einhvern veginn. Að vísu tók Kolbrún smá aríu fyrir söfnuðinn en Didda í Brún reddaði því með Svala :o)

Held að allir séu nokkuð sáttir með nafnavalið, Valgerður er í höfuðið á ömmu Garðars en Emma er nú bara út í bláinn. Við vorum bæði harðákveðin í þessu nafni eftir að við sáum hana, við höfum sem betur fer ekki þurft að rífast í nafnavalinu á börnunum okkar...enn sem komið er í það minnsta. Höfum alltaf verið ótrúlega samtaka með þetta, td. með Kolbrúnu; þetta var fyrsta nafnið sem okkur báðum datt í hug! Andlega skyld-ekki spurning!

Garðar er byrjaður að temja! Já, þetta telst til tíðinda. Að sjálfsögðu eru mínir hestar bestir....en því miður líka verstir. Og sú sem átti að vera verst er nú bara langbest, enn sem komið er allavega. Spennandi að sjá hvernig þetta þróast allt saman. Víðir tók svo einn folann á Blönduós og ætlar að vera með hann í mánuð og tuska hann eitthvað til.
Folinn sem Víðir er með heitir Glymur, það er þessi brúni á myndinni. Hann er gullfallegur......en hörmulega illa markaður eins og kannski sést á myndinni! Förum ekki nánar út í það, mjög viðkvæmt mál hjá Garðari. Þessi rauðblesótti á myndinni er svo Parkersonurinn minn hann Varmi, hann er á fjórða vetur. Dauðlangar til að taka hann inn núna, það er bara ekki pláss fyrir hann eins og er. Kannski ég geti tekið hann á hús ef eitthvað verður sent til tengdó í eilífðartamningu ;o) Varmi er undan minni gömlu og góðu Von, sem er búin að fylgja mér ansi lengi. Henni var ekki haldið í sumar og fylgir henni nú hennar síðasta afkvæmi sem var sem betur fer hryssa. Á því miður bara eina aðra hryssu undan henni og hún verður vonandi tamin núna :o) Læt að lokum fylgja með mynd af gömlu hetjunni, fjúff...ég fer að verða búin með myndakvótann fyrir allt þetta ár!