föstudagur, desember 23, 2005

Jól jól jól jól jól jól....

Já ef þið hafið ekki tekið eftir því fyrr að þá er bara að bresta á með jól einu sinni enn. Mér finnst jólin satt best að segja nýbúin að vera??! Svakalega hlýtur maður að vera orðinn gamall, tíminn líður aaaaaaaallt of hratt.
Annars er allt bærilegt að frétta héðan, enginn lasinn og rollurnar eru búnar að fá glaðningin sinn á þessu ári- semsagt hrútana. Það var barasta eiginlega ekkert sætt í ár, heilar fjórar kindur sem vonandi skila af ferhyrndu í vor. Já, það er mikil ræktun hér í gangi, aurunum eytt í forystufé og ferhyrnt sæði. Reyndar ætluðum við að sæða meira en við bara sprungum á tíma með það (eins og með svo margt annað hér á bæ...)en það verður bara að bæta það upp að ári.

Ég hef ekkert minnst á kusurnar mínar langa lengi, en þær eru bara að verða svona nokkuð prúðar skal ég segja ykkur! Kannski ekki alveg pollrólegar eeeeeeeeeen mikið rólegri en þær voru! Þetta verða alveg dýrindis skepnur eftir einhver ár- ég er alveg viss um það. Kannski ég breyti samt um skoðun þegar kálfarnir fara að koma í heiminn, ég hef heyrt að þá geti þær verið svolítið æstar greyin. Pabbi gamli vill að við sæðum þær- huh...hann ætti nú þá bara að koma sjálfur og troða prikinu upp í ****** á þeim!

Ragnar Logi er búinn að fara í þriðja skiptið til tannlæknisins og það gekk náttúrulega ekkert frekar en fyrri daginn. Þannig að við verðum að hafa okkur af stað í bæjarferð í janúar. Ekki okkar tebolli að þurfa að fara til Reykjarvíkur satt best að segja, erum bara sátt með það að fara í mesta lagi einu sinni á ári! Já ég veit- við ERUM sveitavargar! Ég ætti nú samt að skammast mín að vera ekki búin að heimsækja Stebba bróður oftar, *hóst* ég fer að bæta mig......ALVEG SATT! :o)

Ég er alveg hundfúl yfir að hafa ekki náð að kveikja á jólaljósunum á hlöðunni, við reyndum að tengja þetta saman þar sem það var sprungið, en þá sprakk bara alltaf nýr og nýr meter. Við erum búin að ákveða að græja þetta bara í sumar, svo þetta verði nú tilbúið hjá okkur fyrir næstu jól! En þetta fer alveg SVAKALEGA í taugarnar á mér að ná ekki að tengja þetta núna :o( Ég kannski haska mér út í fyrramálið...

Jæja, hafið það nú gott um jólin - ég ætla allavega að hafa það alveg rosalega gott skal ég ykkur segja ;o)

GLEÐILEG JÓL

mánudagur, desember 12, 2005

Ég kem engu í verk hér á þessum bæ- nema það snúist um fjárhúsin nýju. Ég er ekkert búin að baka, ekkert búin að þrífa (húsið er ískyggilega nærri því að kallast svínastía...), ekki farin að skrifa nein jólakort og flest allar jólagjafirnar pantaðar af Ebay....og ekki nema ein komin í mínar hendur. Svo er ég hætt að sofa af áhyggjum yfir því að fá ekki jólasteikina! Allir hamborgarhryggirnir verða öruggulega uppseldir þegar ég loksins kemst í verslunarleiðangur. Ég er farin að hallast að því að einhver hluti heilans hafi brunnið yfir á seinustu tveimur mánuðum, mér finnst ég allavega ekki getað hugsað heila hugsun lengur. HJÁÁÁLP!!!

Svo ég minnist nú enn og aftur á fjárhúsin að þá eru þau alveg gasalega fín. En ég verð samt alveg rosalega fegin þegar brynningarskálarnar verða komnar, það er bara tú möts að brynna í einhverja 15 stampa allavega 2x á dag. Ég hata orðið þessa stampa og mér langar mest til að snúa helvítis rollurnar úr hálslið þegar þær eru svona lystilega búnar að skíta ofan í hvern EINASTA STAMP! Þvílíkt jobb, vera með þessi fínu hús og vera svo á hlaupum hálfan daginn með slöngu í hendinni og fá ekki neitt í staðinn nema skít í stampi.
(Ef þið hafið ekki fattað það að þá er ég ekki í góðu skapi í dag...)

Ég er farin að undirbúa mig fyrir næstu tannlæknaferð, hrelli Ragnar á hverjum degi, niðurrifsstarfsemin alveg á fullu þessa dagana. Það verður engin tölva, engin jól, engin leikskóli, engin Sauðárkróksferð til ömmu og afa, engin lömb næsta vor og fleira og fleira. Mér tekst að finna eitthvað nýtt á hverjum degi. Það eru góðar uppeldisaðferðirnar hjá mér, finnst ykkur ekki? c",) Ég held að þetta sé að síast inn hjá honum, ég vona það allavega. Og viljið þið vinsamlegast minna mig á það þegar Kolbrún verður 3 ára, AÐ FARA MEÐ HANA TIL TANNLÆKNIS!!

föstudagur, desember 09, 2005

Skjáturnar komnar inn :o)

Já, ótrúlegt en satt- kindurnar eru komnar inn í nýju húsin! Þetta hafðist hjá okkur, ég var nú farin að halda að þetta ætlaði engann enda að taka- en það kom endi eftir allt saman (Halelúja!). Að vísu er sitt lítið af hverju eftir, en ekkert stórvægilegt. Bara svona smáhlutir eins og rafmagn og vatn..... ;o)
Þetta kemur bara vel út, að vísu kemst 1-2 kindum færra í krónna en við héldum, en það er kannski ekki alveg að marka fyrr en búið er að rýja. Ég gaf í morgun- þetta er allt annað líf að hafa svona fóðurgang, líka krakkanna vegna því núna getur Kolbrún rölt í rólegheitum eftir ganginum og kíkt í gegnum "grindverkið" til að skoða kindurnar. Núna finnst manni bara aaaalveg GLATAÐ að gefa í gömlu húsunum- iss maður er allt of fljótur að venjast þægindunum!

Annað í fréttum er að Ragnar fór aftur til tannlæknis í gær, núna fór hann á Blönduós. Ég held að það sé kannski bara best að segja ekkert meira um þá ferð...allavega kom hann heim með allar sínar skemmdir ósnertar. Ég er búin að pakka niður XBox tölvunni, hún verður ekki tekin upp aftur fyrr en búið verður að gera við allar skemmdir í tönnunum. Ragnar segist bara ekkert geta við þessu gert, hann ráði ekkert við það hvað hann er óþekkur?!! Líklega best að tjá sig ekkert um þetta mál meira, gæti sagt eitthvað sem ég sé eftir.
Hann fór líka í langþráða klippingu- það hefur ekki verið neitt sældarlíf heldur að fara með hann á hárgreiðslustofu, en það hafðist þó. Ég held að það hafi reddast af því að hann var ennþá dröggeraður síðan hann var hjá tannsa...

Það er orðið svo fljúgandi hált hérna fyrir utan að það er varla hægt að stíga niður fæti á nokkurn stað. Ég rann alla leiðina niður í fjárhús í morgun, ég var með Kolbrúnu í fanginu og ég get svo svarið það að ég nötraði og skalf þegar ég komst loksins á fast, ég rembdist svo mikið við að standa í lappirnar! Ég vona bara að allur snjórinn fari og komi ekkert aftur, það mega sko vera rauð jól mín vegna!

föstudagur, desember 02, 2005

Fjárhús, fjárhús, fjárhús...


Já, það er komin pínku ponsu mynd á þetta, en það er líka svaaaaakalega mikið eftir! Ég var búin að hreinsa svo vel til inni, tína alla spýtukubba og plast sem lá út um allt- núna er þetta orðið þúsund sinnum verra en þetta var nokkurn tímann! Varla hægt að stíga niður fæti nokkurs staðar, við þurfum að vera ansi rösk ef við ætlum að taka inn á sunnudaginn c",) Sé reyndar ekki að það verði, það á eftir að græja allt vatn og rafmagn- ég held að það sé ekkert gaman að bera vatnið úr gömlu húsunum sko...

Það er komið vel á veg með að setja stóru hurðina sunnan á hlöðuna, við fengum Baldur í Saurbæ til að hjálpa okkur. Alveg vonlaust að fá nokkurn í þetta, annað hvort brjálað að gera hjá viðkomandi eða þá að það kann enginn að setja svona hurð í. Ég verð alveg svakalega fegin þegar þessi hurð verður komin í því við höfum ekki komist með vél inn í hlöðuna í marga mánuði og draslið inni í henni er eftir því! Líka alveg glatað að koma rúllunum ekkert lengra en rétt inn fyrir hlöðugatið og þurfa svo þá að rúlla þeim út um alla hlöðuna til að koma þeim á áfangastað. Reyndar hefur ekkert verið hægt að rúlla þeim neitt að ráði- það er svo mikið drasl út um allt að það hefur ekki verið hægt með góðu móti! Ég bara skil ekki í öllu þessu drasli hérna, þetta sprettur af sjálfu sér þetta helvíti..

Nonni keypti sér nýjann jeppa um daginn, Nissan Patrol árg. 95 held ég að hann sé. Bara voðalega fínn að sjá og hann fékk hann á góðu verði held ég. Náttúrulega varð ég alveg kolvitlaus af því að hann fékk sér annan bíl- ÉG VIL LÍKA FÁ ANNAN BÍL!!! En það þýðir víst lítið að hugsa um það þetta árið, fjárhagurinn verður líklegast ekki svo beysinn eftir byggingarframkvæmdirnar. Ég VERÐ bara að fara að muna að kaupa Lottó, eða kannski selja úr mér annað nýrað?