föstudagur, apríl 28, 2006

Allt og ekkert

Svo sem ekkert að frétta, ákvað samt að setja eitthvað hérna inn til að fólk viti að ég er þó á lífi...

Það hafa ekki bæst fleiri lömb við enn sem komið er, sauðburður á svo sem ekkert að byrja fyrr en um 6. maí heldur. Það eru samt nokkrar sem gætu borið eitthvað fyrr, ellismellirnir fengu glaðninginn sinn á undan hinum skjátunum, en það var bara af því að hrúturinn var svo fjandi léttur á sér og hélst ekki á sínum stað. Það er bara vonandi að Ragnar Logi fái glaðning á afmælisdaginn sinn, og ekki værri það verra ef það væru kindurnar hans :o)

Vorum að setja brynningu upp í gömlu húsunum í gær, Ingvar á Kolugili var að hjálpa okkur. Stefnt er svo að klára nýju húsin í kvöld. Þetta átti náttúrulega að vera löngu búið, alveg eins og ég ætlaði að vera löngu búin að temja þessi 7 hross sem standa inni í hesthúsi. Skelfilegt. Svo er ekkert hægt að gera núna af því að gerðið er orðið ógeðslegt, bara drullusvað! Reyndar er allt svo skelfilega blautt að það er varla hægt að ganga nokkurs staðar án þess að skilja gúmmístígvélin eftir í drullunni. Og ég er sko búin að gera það nokkrum sinnum...

Ég keypti mér þurrkara um daginn, verslaði hann auðvitað af Stebba í Húsasmiðjunni. Fínasti þurrkari, þvílíkur munur að vera ekki með þvott út um allt hús að reyna að þurrka hann. Svo er líka búin að vera glampandi sól síðan ég keypti hann!

Ég frétti af "katta" vinnukonunni í dag, hún ætlar víst að fara heim mun fyrr en hún ætlaði sér. Ísland er víst ekki alveg eins æðislegt og hún hélt. Skilur ekkert í þessu trjáleysi hérna td., henni finnst landið svo tómlegt eitthvað. Hún hefði nú átt að kynna sér það áður en hún anaði af stað! Allavega ætlar Garðar EKKI að fá fleiri vinnukonur, nennir ekki að standa í svona lotteríi. Svei mér þá, ég held að hann hafi bara verið nokkuð ánægður með alla kettina í þetta skiptið ;o)

Svo virðist það nú vera ansi algengt að þetta fólk segir ekki alveg satt í sambandi við hvað það kann og getur, einn maður hérna í sveitinni fékk vinnukonu sem átti að vera þrælvön hestum og börnum. Hún gat svo ekki einu sinni haldið í hest án þess að fara að vola og börn voru hin mesta skelfing í hennar augum. Hún var víst send heim hið snarasta...

Jæja, best að skella sér í pizzu baksturinn, það er jú föstudagur í dag ;o)
Góða helgi!

laugardagur, apríl 22, 2006

Ekki er öll vitleysan eins..

Við skelltum okkur suður á sumardaginn fyrsta, en við vorum að ná í þýska stelpu sem ætlaði að vera hjá okkur í 5 vikur. Nýttum ferðina og fórum með gleraugun hans Ragnars og pöntuðum ný, ég ætlaði líka að kaupa mér þurrkara í ferðinni en mér leist svo andskoti illa á þennan sem ég skoðaði að ég hætti við það. Sem var eins gott því að það hefði ekki komist eitt smjörstykki í viðbót inn í bílinn eftir að við vorum búin að láta greipar sópa í Bónus ;o)

Nú, stelpugreyið þýska entist ekki nema 2 daga hjá okkur...
Það vildi nefnilega svo skemmtilega til að hún er með ofnæmi fyrir köttum, hún bara rétt sí svona gleymdi að minnast á það þegar hún sóttist eftir að koma til okkar. Og eins og staðan er í dag eru 7 kettir á kotinu. Ég, sem er svo glær í öllu svona datt ekki einu sinni í hug að spyrja að því, þar sem hún jú vildi komast á sveitabæ með mörgum dýrum á!

Þannig að hún er núna komin í sveit á Vatnshorni, við skulum bara vona að það eigi eftir að blessast og að engir kettir fari að kíkja í heimsókn til þeirra næstu 5 vikurnar...

mánudagur, apríl 17, 2006

...

You Belong in Dublin

Friendly and down to earth, you want to enjoy Europe without snobbery or pretensions.
You're the perfect person to go wild on a pub crawl... or enjoy a quiet bike ride through the old part of town.

Páskalömb!


Þegar Garðar kom í fjárhúsin í gærmorgun (páskadag) voru komin 2 lítil lömb í heiminn. Alltaf gaman að fá svona páskaglaðning ;o)
Svo eftir hádegi bar önnur kind tveimur lömbum- það er bara rífandi gangur í þessu! Sú kind átti reyndar ekki að vera til lengur, en eitthvað hefur það misfarist hjá okkur að senda hana til himnaríkis blessunina. Það er vonandi að hún tóri eitthvað áfram, ég nenni ekki að vera með heimalninga strax!

laugardagur, apríl 15, 2006

Höfðingi í heimsókn


Set hérna inn mynd af Jóni gamla í Gautsdal (afa Garðars), en við buðum honum í mat í dag. Garðar fór og náði í hann í morgun og keyrði honum svo aftur heim eftir kaffi.
Alltaf gaman að fá hann í heimsókn, það eru nú ekki margir eftir eins og hann skal ég segja ykkur...

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Páskar!

Jibbbbbííí! Ég er komin í páskafrí og er alveg með eindæmum fegin! Reyndar á ég heldur ekki eftir nema tvær vaktir og þá er ég komin í sumarfrí, eða réttara sagt sauðburðarfrí. Skiptir ekki máli hvað það kallast, ég verð allavega heima hjá mér og því er ég fegin :o)
Var að vinna í dag og það var alveg svakalega mikið að gera, lappirnar á mér eru mauksoðnar alveg. Það virðist vera algjört möst þessa dagana að hafa öll rúm í notkun á stofnuninni, sem er svo sem ágætt EF það er nóg starfsfólk á vakt......sem er ekki alltaf!

Svo er bara stefnt á að slappa af alla páskana, borða góðan mat og nammi og góna á imbann með börnunum. Getur ekki verið betra :o)

Gleðilega páska þið fáu hræður sem lesið þetta og hafið það gott yfir hátíðina.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Mjá

Ég horfði á Idolið á föstudagskvöldið..........og svei mér þá ég var alveg himinlifandi að Snorri skyldi vinna þetta eftir allt saman. Ína var bara ekki nærri því eins góð og Snorri og hann er vel að titlinum kominn. Samt er ég búin að halda með Ínu alla keppnina, svona getur þetta breyst!

Kolbrún var veik um helgina, hundslöpp alveg hreint. Er samt öll að koma til núna, orðin alveg jafn óþekk og hún var -eða svona eins og 1 og 1/2 árs gamalt barn getur verið! Bara sæt :o) Fínu krullurnar hennar haldast alveg, ég þori ekki fyrir mitt litla líf að klippa hana (nema rétt toppinn) því ég er svo hrædd um að krullurnar fari! Mamma myndi líka stúta mér ef ég myndi gera það.
Ragnar Logi sleppur alveg við allar pestir, ég held að Kolbrún sé nú kannski veikari fyrir því að það er jú ekkert svo langt síðan hún fór í leikskóla í fyrsta skipti. Ef ekki eru veikindi á leikskólum - þá eru hvergi veikindi held ég.

Heyrðu, já það bættust fleiri kisur við á kotinu, auðvitað þurfti kisuskömmin mín að spýta út 3 kettlingum á föstudaginn var. Ég segi nú bara guði sé lof að það komu þó EKKI NEMA 3!!! Ég bjóst við 10.
Bráðum verða fleiri kettir á Stórhól heldur en kindur með þessu áframhaldi :o(
Ég verð að fara að hafa sér kattar-blogg held ég, allt sem ég orðið skrifa hérna inn snýst um ketti!

Ég þarf svo heldur betur að fara að hella mér út í smíðarnar, nú þegar við erum komin á viðbúnaðarstig 2. í fuglaflensunni. Ég verð að útbúa heilmikið búr fyrir hænurnar mínar og endurnar ef ég ætla mér að láta þær lifa og leyfa þeim eitthvað út í sumar. Ekki seinna vænna að fara að hefja smíðarnar, Garðar sá tvær álftir í Reyðarlæknum í seinustu viku- öruggulega alveg baneitraðar.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Íslenskt veður.....I love it!!

Já, það er búin að vera sannkölluð blíða hérna í dag....eða þannig. Að vísu heldur skárra en í gær, en þá þurfti ég að redda annarri á næturvaktina mína þar sem ég treysti mér sko alls ekki að keyra eins og veðrið var! Með ólíkindum að það þurfti að vera skítaveður fyrir þessa einu næturvakt sem ég átti að taka í þessari viku. Svona er þetta alltaf.
Reyndar sýnir þessi mynd ekki alveg hvernig veðrið er, það er eiginlega búið að vera kóf í kringum bæinn í allan dag, ég ætlaði mér að fara út og taka myndir en svo þegar ég var búin að reka trýnið út þá ákvað ég að taka bara myndir í gegnum eldhúsgluggann ;o) Miklu betra..

Svo eiga allir að horfa á Idolið á morgun..........OG KJÓSA ÍNU!!!

mánudagur, apríl 03, 2006

Skaðvaldurinn


Ákvað að skella inn mynd af honum Tarzan, en hann er búinn að vera mér til mikils ama síðustu daga.
Eins og ég sagði í seinustu færslu, að þá hef ég staðið í miklu hekli dag eftir dag. Því miður er Tarzan alveg jafn spenntur yfir þessu, ég hef ekki undan að elta hann með garnhnyklana sem hann stelur frá mér um leið og ég dreg þá upp.
Fyrst tók hann bara þann rauða. Ef ykkur finnst Skvísa úfin og asnaleg að þá er hún EKKERT miðað við hnykilinn eins og hann lítur út í dag.
Þá tók ég mig til og faldi garnið í VEL lokuðum poka uppi á hillu. Svo fór ég út og þegar inn var komið að nýju lá pokinn sundurtættur á eldhúsgólfinu og hnyklarnir 3 horfnir undir sófann. Og þeir litu allir út eins og Skvísa.
Ég skal viðurkenna að ég var anskoti reið.
Ég náði ekki mynd af Bangsa, hann vissi greinilega að Tarzan var að gera einhver skammarstrik og faldi sig inni á klósetti meðan á myndatökunni stóð....