föstudagur, júlí 27, 2007

Flutt!!

Nú er ég komin hingað og vonandi líkar mér þar, því mér leiðast flutningar alveg óskaplega ;o)
Sjáumst (eða þannig..) vonandi á hinni síðunni..

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Stóðið rekið á heiðina

Garðar og Svenni marka einbeittir á svip.

Hryssurnar voru reknar á heiðina í gær, öll folöldin mörkuð og hófarnir klipptir á því sem þurfti. Afföllin í hrossunum hérna ætla engan endi að taka, eitt folald var horfið og hvergi sást tangur né tetur af því. Annað folald er ekkert nema skinn og bein, við gáfum því ormalyf og pensilín og ætlum að fylgjast með því hvernig það plumar sig. Þetta er alveg ótrúlegt hvað við erum búin að vera óheppin síðastliðið ár :/

Hryssurnar lagðar af stað á heiðina.


Þegar búið var að sortera okkar hross voru þau rekin af stað upp í Valdarásrétt þar sem þau biðu þar til búið var að ná í hrossin hans Svenna. Þetta gekk allt saman alveg ljómandi vel, krakkarnir héngu á hverri þúfu og tróðu sig út af krækiberjum, sem mér fundust vera ansi safalaus og smá. Krökkunum fannst þau hins vegar alveg æðisleg! Verður greinilega gott berjaár í ár, hver þúfan af annarri var svört af berjum.















Svo fallegt bros ;o)

Svo voru folöldin hans Svenna mörkuð í réttinni, ef þið eruð að leita ykkur að litahrossum þá er Svenni rétti maðurinn! Varla hægt að finna einlitt folald í hópnum hjá honum og mörg býsna sperrt að sjá.

Eitt af fjölmörgum litaflottum folöldunum hans Svenna.

Jarpskjótta hryssan hennar Valgerðar er ekki lengur jarpskjótt, núna er hún orðin brúnskjótt en verður væntanlega gráskjótt ;o) Ég er hætt að reyna að litagreina þessi blessuðu folöld mín, ef ég ákveð einhvern lit á þau taka þau bara upp á því að skipta algjörlega um lit!

Svo sjáið þið í rassinn á hryssunni sem ég var að vonast til að yrði litförótt, það er bara ekki hægt að sjá það ennþá því það er ekkert byrjað að missa fæðingarhárin. Sá eitt litförótt hjá Svenna og það var mjög líkt þessu á litinn, kannski ekki eins ljóst og þetta. Það væri nú gaman að eignast eitt litförótt, þó það sé nú ekki minn uppáhaldslitur. Ég get þó sagt þá að ég hafi átt einu sinni svoleiðis ;o)

Enda þetta á mynd af Valgerði sem varð 7. mánaða í gær og mátti dúsa með mér í bílnum á eftir hrossunum mest allan daginn og var svo stillt og góð....eins og venjulega ;o)


sunnudagur, júlí 22, 2007

Heyskapur og tiltekt

Heyskapur stendur sem hæst núna á Stórhóli, búið að slá allt hérna heima við og Hrísar verða slegnir á þriðjudaginn. Garðar er að rúlla núna í þurrrúllur og pabbi gamli rakar. Og ég sit við tölvuna?! Ég ætti nú bara að skammast mín! Reyndar er ég búin að gera ýmislegt í dag sem gefur mér alveg fullan rétt til að setjast niður og skrifa nokkrar línur ;o)


Pabbi er búinn að vera hérna hjá okkur þessa vikuna að hjálpa til, smíða hænsna- og kanínubúr og svona sitt lítið af hverju- allt hlutir sem við komum aldrei í verk! Og síðast ekki en ekki síst er hann duglegur að tína upp hin ýmsu verkfæri sem vissir aðilar henda frá sér þar sem þeir standa...nefni engin nöfn. Alveg nauðsynlegt að fá svona fólk í heimsókn öðru hvoru til að laga slugsaganginn hérna :o)


Ég er alltaf að hugsa um að færa þessa síðu mína eitthvað annað, td. á 123.is eða bloggar.is eða eitthvað annað. Leiðist alveg óskaplega að setja myndir inn á einhverja síðu eins flickr.com, ég vil hafa þetta allt á sömu síðunni. Þið megið þess vegna alveg kommenta með það hver af þessum síðum er þægilegust við að eiga, mér líst svolítið vel á uppsetninguna hjá 123.is svona af því sem ég hef skoðað.


Á morgun rekum við merarnar á heiðina með Svenna á Hrísum, þá verður væntanlega heilmikið fjör þar sem það þarf að marka um 45 folöld. Ég er búin að setja batteríin í hleðslu....sem er jú ávísun á að ég gleymi að taka þau með á morgun! Skelli samt vonandi inn einhverjum skemmtilegum myndum eftir að við erum búin á morgun.

Enda þetta á mynd af Léttfeta sem er 3.vetra, hann er orðinn svo fallegur finnst mér og ekki skemmir nú liturinn. Hefði samt mátt vera aðeins gulari á skrokkinn, því þá sæi maður betur blesuna á honum.

Gott í þetta skiptið, farin að líta á hvernig heyskapurinn gengur!

sunnudagur, júlí 15, 2007

I´m back

Búin að vera tölvulaus í að mér finnst heila eilífð.

Ég hafði það loksins af að koma tölvunni í viðgerð, það var búið að standa til í marga mánuði en ég hafði nú alltaf hummað það af mér. Það kom þá náttúrulega að því blessuð tölvan hætti algjörlega að hlýða mér, ég vissi alveg upp á mig skömmina með það og sendi hana því loks af stað til höfuðborgarinnar. Nú er bara að vona að hún hætti að láta eins og asni við mig, hún hefur nefnilega verið að kveikja og slökkva á sér í tíma og ótíma, ansi pirrandi þegar maður hefur ekki vit á að seifa það sem maður er að gera :/


Annars er allt tíðindalítið, heyskapurinn ekki enn byrjaður á Stórhóli en ég býst við að við byrjum á Hrísum í næstu viku. Við ætlum að reyna að taka heima-heyið í þurrrúllur, við höfum bara ekkert að gera með allt þetta hey. En vafalaust verður ágúst mánuðurinn blautur, þó ekki nema bara af því að við ætlum að heyja í þurrrúllur! Það er allt hreinlega að skrælna hérna, kemur ekki dropi úr lofti og rigningin virðist ekkert vera á leiðinni á næstunni.


Tryppin komust á heiðina eftir heilmikinn eltingarleik, og eitt er víst; við stríðum ekki Svenna meira á óþekku hrossunum hans ;o)

Kýrnar 2 og kvígan litla fengu loksins að fara út fyrir um viku síðan, að sjálfsögðu gekk það ekki áfallalaust fyrir sig frekar en annað hér á bæ. Kvígan hljóp upp á þjóðveg af því að hún missti af kúnum þegar þær hentust um í rassaköstum, það var okkur til happs að kvígan er svo skelfilega feit að hún var sprungin eftir nokkurra metra hlaup! Þannig að Garðar og Svenni gátu fylgt henni aftur inn í hólfið án nokkurra vandræða. Þær eru í sama hólfi og eineistungarnir okkar, þið hefðuð átt að sjá upplitið á þeim þegar beljurnar komu æðandi til þeirra með rassinn upp í loft!! Aldrei sést sperrtari skepnur á Stórhóli held ég ;o) Við erum viss um að annað hvort er eistað sem komið var niður með öllu horfið, eða þá að hitt hafi skoppað niður í öllum hamaganginum!


Enda þetta á mynd af Garðari og Amadeus, en Garðar reið með bræðrum sínum og fleirum hingað heim frá Blönduósi. Garðar var orðinn svo rasssár að hann var farinn að standa í hnakknum síðasta spölinn ;o)
Og ég sat inni í bíl og hló...

fimmtudagur, júní 21, 2007

Ég var búin að skrifa

alveg heljarinnar pistil hérna í gær, sem svo hvarf eins og dögg fyrir sólu. Og í dag er ég alveg andlaus og man ekkert hvað það var sem var svona óskaplega gáfulegt og merkilegt sem ég pikkaði inn. Sem bendir til þess að það hafi ekki verið mjög bitastætt og því get ég varla grátið það að hann hafi ekki skilað sér á síðuna.

Ekkert merkilegt í fréttum, Garðar háþrýstiþvær timbur alla daga og ég planta sumarblómum í alla mögulega og ómögulega blómapotta. Og svo koma hundarnir og kettirnir í kjölfarið og naga blómin mér til ómældrar ánægju...eða þannig.

Eitt af því skemmtilegra sem ég geri er að kaupa sumarblóm. Það er til svo mikið af fallegum blómum og ótrúlegt en satt, geta sum þeirra lifað allt sumarið hérna hjá mér -þeas. ef þau fá frið fyrir hinum ýmsu dýrum sem búa hér. Sem betur fer var Garðar ekki með í för þegar ég fór og verslaði blómin, honum hefði blöskrað eyðslan í kerlingunni og sett mig í sumarblómakaupstraff...svona fyrst að ég er laus úr Bónusstraffinu ;o)
Ég var búin að fylla í alla mjólkurbrúsa sem til voru af blómum, þannig að ég ákvað að færa mig upp aðeins upp á skaftið og fór að spyrja Garðar hvort hann ætti ekki eins og eitt myndarlegt traktorsdekk fyrir mig til að planta blómum í.
Þið sem þekkið Garðar vitið að hann er nefnilega ansi duglegur í að sprengja dekkin á traktorunum.
Það eina sem hann gat hins vegar boðið mér var lúið dekk undan skítadreifara. Uhhhh....nei takk. Ég held að ég reyni þá bara að finna eitthvað annað, nóg er til af draslinu hérna og það hlýtur að vera hægt að troða blómum í eitthvað af því!
Jæja, nú er víst best að hætta, Kolbrún var að koma inn með bólgið og blóðugt nef; Garðar sem er þessi týpíski karlmaður (kvenfólk veit hvað ég á við), sveiflaði einni spýtunni beint framan í Kolbrúnu, "sem átti ekki að standa þar sem hún stóð, allavega var hún ekki þarna rétt áðan!"
Bið að heilsa í bili..

mánudagur, júní 18, 2007

Húsbóndinn á heimilinu

á afmæli í dag. 31. árs gamall, set inn mynd af honum í tilefni dagsins. Svo sjáið þið líka á myndinni eina af aðferðum hans til að endurrækta- rífa bara þúfurnar með sér þegar hann rúntar um á fjórhjólinu! Alltaf að spara sér tíma þessi elska ;o)

fimmtudagur, júní 14, 2007

Það hafðist af


Folald undan Alvari og Skessu
að koma stóðhestinum á sinn stað, með hvorki meira né minna en 29 hryssur! Dágóður slatti myndi ég segja! Ég hafði það líka af að taka heilar 120 myndir í tilefni dagsins, ég hendi inn myndum af folöldum á myndasíðuna eins hratt og mín góða nettenging leyfir.

Þetta gekk allt býsna vel með góðri hjálp frá Nonna, Víði og Svenna, að sjálfsögðu máttum við elta hrossin hingað og þangað en það fylgir nú bara svona brasi. Allt fór á réttan stað á endanum og þá er nú í lagi þó karlarnir þurfi aðeins að hlaupa spikið af sér ;o)


Varmi kominn á veginn.


4.vetra voru tekin inn, Varmi og Sandra. Varmi henti sér nú strax á hliðið á réttinni og hljóp því út um allt og endaði með reiðhestunum inni í gerðinu. Meira fiðrildið sem ég á! Það verður eitthvað fjörið að temja hann skal ég segja ykkur!

Svo voru eineistungarnir að sjálfsögðu teknir inn líka. Nú er bara að fara að klípa í til að athuga hvort nú finnist tvær kúlur í stað einnar..


Ég reyndi sem mest ég mátti að kyngreina öll folöld, en eftir að ég var búin að kíkja undir stertinn á einum 7 stykkjum mátti ég játa mig sigraða. Það er víst betra að hafa blað og skriffæri þegar maður stendur í svoleiðis löguðu, allavega er það ekki fyrir minn litla heila að muna.


Skundi fékk far heim eftir öll hlaupin..


Hitinn var eiginlega of mikill fyrir greyið hrossin. Folöldin voru rennsveitt og héngu á spenanum nærri stanslaust. Þess á milli dormuðu þau við hliðina á mömmu sinni, alveg ógurlega þreytt! Folaldið undan Gránu hennar Kolbrúnar var nú bara við það að falla um koll af þreytu!

Það þyngdist heldur á mér brúnin þegar á leið, því nú var víst komið að því að taka hana Von mína úr ásamt tveimur öðrum sem fara undir aðra hesta. Já, það er víst komið að leiðarlokum, alltaf erfitt að láta frá sér hross sem hafa fylgt manni síðan maður var smákrakki. Það var ekki langt í að tárin læddust niður kinnarnar þegar hún var teymd úr hópnum og kökkurinn í hálsinum stækkaði með hverri mínútunni sem leið. Það er bara vonandi að sú veturgamla sem ég á undan henni verði jafnmikil kempa og sú gamla, þá verð ég glöð með mitt!
Læt þetta duga,annars endar þetta með því að ég set inn allar 120 myndirnar sem ég tók!

laugardagur, júní 09, 2007

Gargandi snilld!


Hér sjáið þið nýjasta folaldið sem fæddist í gær, varð bara að sýna ykkur það!

Best að sýna ykkur mynd af því frá öllum hliðum, ég er ekki viss um að allir séu hrifnir af hinni hliðinni á þessum litla stubb! Við erum hins vegar hæst ánægð með hann...
Og að framan séð..
Svo langar mig til að spyrja ykkur hvaða litur þetta er:

Það er undan moldóttri meri og jörpum hesti, er þetta ekki bara följarpt eða bleikjarpt einhvernveginn?? Mér fannst eins og augun í því væru mun ljósari en venjulega?

Erum að fara að stússast í hrossum í dag og vonandi á morgun, losa okkur við hagagönguhross og græja hryssurnar sem eiga að fara með Mjölni í hólf.

Folaldið sem ég bjástraðist við í 5 daga drapst að lokum, það fékk aldrei almennilegan þrótt í afturpartinn og gat aldrei staðið upp af sjálfsdáðum. Ekki alveg eins og það átti að vera. Aldrei verið eins mikið bras á hrossunum eins og eftir að við urðum fjárlaus!

Vonandi næ ég að taka myndir af öllum folöldunum, mig langar til að koma myndum af þeim öllum á myndasíðuna mína, það eru bara 3 hryssur sem eiga eftir að kasta sýndist mér. Og vonandi verður veðrið svona frábært á morgun eins og það er í dag, það er svo gaman að labba innan um hrossin í svona veðri og taka myndir af þeim.

Þetta er gott í bili, hef ekkert að segja -langaði bara að sýna ykkur folaldið!


fimmtudagur, júní 07, 2007

Best að hugsa sinn gang

Ætli þetta endi svona hjá mér einhvern daginn? Nógu dugleg er ég að sanka að mér öllum anskotanum, Garðari til ómældrar gleði....eða þannig! Að vísu get ég alveg lofað að ég ætla alls,alls ekki að fá mér rottur, það er nóg að hafa einn dverghamstur á heimilinu held ég ;o)

þriðjudagur, júní 05, 2007

Mjölnir

Ég hef ekki haft neinn tíma í að fara að skoða folöldin þar sem við erum að reyna að basla við að halda lífi í einu folaldi sem virðist alveg ómögulega geta fattað að fara á spena. Það er svo máttlaust og virðist ekki hafa neina krafta til að sjúga merina. Þannig að ég er að reyna að mjólka merina og blanda einhverju mjólkursulli saman handa því til að reyna að fá einhvern kraft í það. Er ekki ýkja bjartsýn á framhaldið satt best að segja...

En þar sem ég var búin að lofa að setja inn myndir af Mjölni er víst best að standa við það ;o)

Klárinn er virkilega fallegur og mjög prúður í umgengni, við settum hann bara beint í merar þegar hann kom, þar sem plássið í hesthúsinu er orðið af skornum skammti út af veika folaldinu. Enda engin ástæða til að láta þetta hanga inni að ástæðulausu. Folinn var líka guðslifandi feginn að komast út á lífið ;o)



Jæja, hef engan tíma í þetta, farin að hræra saman mjólk, eggjum og hunangi og kveð í bili..

laugardagur, júní 02, 2007

Loksins

Eftir heilmikla lægð í folöldafæðingum rættist heldur betur úr því í dag og gær. Hvorki meira né minna en 7 folöld sem komu í þessari bunu. Hef ekki enn náð að skoða þau eða taka myndir af þeim, skelli mér í það eins fljótt og ég get og um leið og styttir upp hérna. Það er búið að rigna alveg svakalega mikið svona inn á milli í dag, sem er frábært því það var allt orðið hálf skrælnað hérna og úthagi ekkert farinn að taka við sér að ráði. Og hitinn sem betur fer á uppleið, hann var að verða ansi þreytandi þessi endalausi kuldi. Vænti þess að góður kippur komi í þetta núna og stóðhesturinn komist því í merarnar eftir næstu helgi.

Talandi um stóðhesta; klárinn sem við verðum með í sumar var byggingardæmdur í vikunni á Gaddstaðaflötum og fékk þennan líka fína dóm. 8,44 fyrir byggingu takk fyrir! Svo skemmir nú ekki liturinn, en hann er bleikskjóttur. Ég sé fram á erfitt næsta ár í folalda ásetningi ;o)
Þessi hestur heitir Mjölnir frá Héraðsdal og er undan Hilmi frá Sauðárkróki. Hann á að koma til okkar á mánudaginn, að sjálfsögðu læt ég Garðar prófa gripinn og sjá hvort hann er eitthvað meira en útlitið blessaður. Og ég verð á vísum stað-með myndavélina á lofti..

Ætla að segja þetta gott í bili, set engar myndir í þessari færslu þar sem ég býst við að hafa ríflegt magn af þeim í þeirri næstu. Vafalaust einhverjir sem eru jafn illa tengdir og ég sem blóta þessum endalausu myndum sem ég treð hér inn! Eða er ég orðin sú eina sem bý með ISDN+, sem átti að vera svo MIKLU BETRI en sú tenging sem ég hafði. Hef nú ekki fundið það nema á einn hátt; mun hærri símreikningi...

Eitt enn, þið eruð nú meiri dónarnir að minnast ekkert á breytt útlit síðunnar, kostaði blóð, svita og tár að breyta þessu (ok...smá ýkjur :)! Hnusssssss....!

mánudagur, maí 28, 2007

Það skiptast á skin og skúrir

og þá á ég bæði við í veðrinu hérna sem og lífinu sjálfu. Ný folöld hafa fæðst en því miður dó eitt þeirra, brúnhöttóttur hestur. Við vitum nú ekki af hverju það dó, við höldum að það hafi bara króknað því það fæddist þegar það var slyddudrulla hérna og kalt. Svo þurfti merargreyið endilega að kasta út í mýri þannig að það hefur verið erfitt fyrir folaldið að komast á lappir til að ná í ylvolgann sopann hjá mömmu sinni.


Það var svo reynt að venja annað folald undir merina, en það folald var fætt mánuði fyrir tímann og lifði því miður ekki heldur. Alveg ótrúlegt hvað merin var góð, þetta er hross sem hefur aldrei verið snert, annað skipti sem hún er sett í kerru á ævinni og hún var eins og ljós allan tímann! Við gátum meira að segja mjólkað hana eins og við vildum- hún stóð eins og stytta. Enda tók hún strax við nýja folaldinu en því miður fór sem fór. Það vantar ekki brasið í búskapinn :o/

Krissi gaf líka upp öndina um helgina. Við bjuggumst nú alveg við því, hann var bara ekki eins og hann átti að vera. Eitthvað klikk í meltingunni held ég, AB mjólkin var semsagt gagnslaus í þessu tilfelli..

Leikskólinn og skólinn að verða búinn, mikið er ég fegin því það er orðið ómögulegt að koma krökkunum í rúmið á skikkanlegum tíma. Og í kjölfarið alveg hundleiðinlegt að koma þeim á lappir á morgnana.

Húfa kastaði um helgina, kom með jarpskjótt- kynið veit ég ekkert um því þær mæðgur Húfa og Jarpskjóna voru vægast sagt ljónstyggar og leyfðu mér ekkert að koma nálægt.
Náði einni mynd af því á harðahlaupum á eftir Húfu, það er fallega rauðjarpskjótt sem ég er mjög ánægð með, því Jarpskjóna kom nefnilega með dökkjarpskjótt.




Ég fór með Valgerði í skoðun í vikunni, sem betur fer segi ég því hún var komin með mikla eyrnabólgu. Annars var hún ekkert búin að vera neitt voðalega óróleg, tók svona ágætis tarnir (5 mínútur eða svo :o) og svo bara allt í lagi. Hún fékk sýklalyf hjá lækninum og núna er hún alveg pollróleg eins og henni einni er lagið. Ég hef aldrei þekkt nokkurt barn sem hefur verið svona svakalega rólegt, svei mér þá, ég hélt ekki að svona börn væru til!

Garðar plægir eins og vitlaus væri, það verður nóg að gera í steinatínslunni í sumar! Hann er byrjaður að plægja löngu túnin niður frá og eins og annars staðar hérna er svona einn og einn steinn sem lætur sjá sig ;o) Það er um að gera að gera þetta á meðan við erum fjárlaus svo þetta fái einhvern frið til að verða almennilegt.

Jæja, læt þetta duga í þetta skiptið, nóg komið í bili ;o)

miðvikudagur, maí 23, 2007

23.5.2007

Það er tvennt sem þið lesendur eigið að taka eftir á þessari mynd.

Í fyrsta lagi er það hestakerran, sem var í heilmikilli yfirhalningu hjá Ása í Holti. Sérstaklega eigið þið að dásama hvað hún er fallega máluð af Garðari, hann er mjög stoltur að hafa haft þetta loksins af!
Í öðru lagi er það að sjálfsögðu hrossið á myndinni. Hver haldið þið nú að þetta sé?


Já, þetta er Vaka- hin eina sanna. Hún er semsagt öll að braggast eins og þið sjáið, við höfum haft hana úti á túni á daginn og svo er hún farin að taka upp á því að vera ekkert nema óþekktin þegar hún á að fara inn ;o) Garðar og Ragnar Logi eltu hana uppi á fjórhjólinu, þeim leiddist það nú ekki! Þannig að nú vona ég að þetta sé allt að koma hjá ólánshrossinu mínu...7-9-13!
Og já, enn eitt folaldið komið; jarpskjótt hryssa sem að við erum að hugsa um að gefa Valgerði Emmu. Er það ekki kjörið að gefa henni það í 5 mánaða afmælisgjöf? ;o)

Enda þetta á mynd af prinsessunni sem er semsagt 5 mánaða í dag..


þriðjudagur, maí 22, 2007

Snjór og folöld


Þegar ég fór á fætur rúmlega 7 í morgun var allt hvítt. Um hálf 9 var allur snjórinn sem betur fer farinn, það er huggun að hann er allavega fljótur að hverfa aftur!

Tvö ný folöld komin; Skessa kom með móbrúnan hest í gær, ég veit ekki hvað er málið með þessa liti á folöldunum. Þar sem ég hef átt mjög fá grá hross veit ég ekkert hvernig þau geta verið á litinn þegar þau fæðast. Getur móbrúnt orðið grátt? Spyr sá sem ekki veit..

Kvika var svo nýköstuð þegar ég kíkti upp eftir í morgun, það er svartur hestur- sem verður væntanlega grár þá. Hún valdi sér nú ekki besta staðinn, greyið folaldið lá úti í mýri og skalf úr kulda. Ég stuggaði við því og Kvika hljóp á braut með folaldið á eftir sér.



Annars verð ég að fá að monta mig af því hvað merarnar eru vel fóðraðar hjá Garðari. Já, maður verður nú að reyna að finna eitthvað til að monta sig útaf, það er ekki mikið til skiptana í þeim efnum ;o) Það er enginn munur á þeim fyrir eða eftir köstun. Enda hefur svo sem ekki verið sparað í þau þar sem allt snýst um að koma heyjunum út hið snarasta.

Skessa td. sem er hérna á mynd fyrir neðan hefur oft verið frekar erfið í holdum á vorin, hún er yfirleitt svo stygg og erfið þegar hún er með folaldi. Núna gæti hún allt eins átt eftir að kasta einu folaldi í viðbót ;o) Mig grunar nú að við eigum eftir að fá þetta góða atlæti í hausinn þegar við fáum fé aftur, þá verða þau að sætta sig við að fá ekki eins ríflega gjöf og núna og vafalaust verður fýlusvipur á einhverju þeirra þá! Sjaldan launar kálfurinn ofeldið eins og ég hef sagt áður...

sunnudagur, maí 20, 2007

Númer 3

Ósköp eru þetta vesæl bloggskrif hjá mér, ekkert gerist nema að ný folöld komi í heiminn. Hálf skammarlegt að sitja við tölvuna og blogga einhverja bölvaða vitleysu þegar flestir aðrir sem við þekkjum eru á kafi í sauðburði þessa dagana! Já Hallfríður; ég skil alveg ósköp vel hvernig þér líður, við skulum bara vona og trúa að við getum tekið þetta með trompi þegar að því kemur og við fáum tækifæri til ;o)

En áfram með Glæstar Stórhóls-Vonir ;o) - hún Jörp mín frá Stórhóli kastaði í nótt. En að sjálfsögðu gat það ekki gengið snuðrulaust fyrir sig; hún Þota þurfti að taka upp á því að stela folaldinu! Bölvuð p..... er geld þetta árið og það var ekki að spyrja að því að hún ákvað að næla sér í eitt folald í sárabætur. Þota er þessi brúna á myndinni en það er þessi dökkjarpa sem á það. Folaldið saug og saug Þotu en auðvitað var sá dropi ansi þunnur.



Það var kominn óttalegur kengur í hestinn litla og ekki var það nú til að bæta útlit þess, þar sem það er bæði lítið og ósköp ljótt (þó svo að folöld séu nú alltaf ósköp sæt). Við náðum að taka Þotu frá folaldinu og það endaði með að við máttum taka hana inn því hún var jú kolvitlaus yfir því að missa folaldið sitt!



Nú, þeir sem kannast við hana Jörp frá Stórhóli, vita að hún er ekki beint lamb að leika sér við. Hún æðir áfram eins og hraðskreið lest og ekkert má verða á vegi hennar. Hún vildi folaldið en vildi það samt ekki, og ekki er hlaupið að því að halda henni á meðan folaldið sýgur. Þannig að hún var látin dúsa í allan dag með folaldið hjá sér í réttinni og sem betur fer fór þetta allt á hinn besta veg. Folaldið fékk loksins að sjúga hana og Jörp losnaði líka við hildarnar sem við vorum farin að vera áhyggjufull um að færu ekki af sjálfsdáðum. Guð hjálpi mér ef við hefðum þurft að fá dýralækni til að taka hildarnar úr henni!



Liturinn á folaldinu....hmmm...best að segja minnst um hann, Hallfríður rekur hann ofan í mig öfugan og því best að láta ykkur dæma litinn sjálf. Reyndar finnst mér persónulega folaldið vera bara brúnt en samt kannski dökkjarpt, sem verður svo kannski grátt ;o)



Ég sé ekki fram á það að geta gefið henni Vöku minni nýtt nafn eins og staðan er í dag. Hún er bara alls, alls ekki eins og hún á að vera. Ingunn er búin að skoða hana aftur og getur ekki bent á neitt sérstakt sem hrjáir hana, nema það að henni líður illa alls staðar. Sem er alls ekki gott svar. Við erum búin að vera með hana á sýklalyfjum, bólgueyðandi og verkjastillandi nærri því samfleytt síðan slysið gerðist en því miður þrífst hún ekki nógu vel. Við tókum upp á því í dag að gefa henni AB mjólk, en við erum búin að vera að gefa Krissa AB mjólk að ráði pabba og ákváðum að gefa henni bara líka fyrst við værum að þessu AB sulli. Hún getur allavega ekki orðið verri greyið, ég ætla nú ekki að gefa hana upp á bátinn strax. Það væri náttúrulega bara best að koma henni út á græn grös, en það er bara svo skelfilega kalt alla daga og hún hímir bara í kuldanum. Garðar hefur haft hana í smá hólfi á daginn til að leyfa henni að bíta, en eins og ég segi vantar að pota hitastiginu aðeins meira upp hérna...heyrirðu það Hallfríður!


Best að enda þetta á mynd af grislingunum þremur fyrir mömmu, þar sem ég veit að hún hefur afskaplega takmarkaðan áhuga á hrossum og einhverju þeim tengdu..












fimmtudagur, maí 17, 2007

Annað folald



Eitt folald kom í heiminn í nótt, jörp hryssa undan Kolbrúnu frá Stórhóli og Alvari. Ég bjóst nú ekki við að það kæmi jarpt undan brúnni meri og gráum hesti (fæddur brúnn)? Hann er að vísu undan jarpri hryssu og Kolbrún gæti verið það líka, hef ekkert gáð að því í Feng. Enda skiptir það nú engu máli, huggulegt folald hvernig svosem liturinn er á því ;o)


miðvikudagur, maí 16, 2007

Labbitúr


Við Valgerður Emma og Skundi fórum í gönguferð í blíðunni, ég skellti henni í svona barnapoka og þrammaði með hana á maganum hingað og þangað. Við byrjuðum á að kíkja á hrossin en það voru engin ný folöld mætt á svæðið. Folaldið hennar Dömu var að skoða sig um í réttinni, því leist afskaplega vel á tökubásinn. Er ekki eins viss um að það verði svona vinsæll staður seinna meir ;o)

Við tókum myndir af öndum og hænum líka, reyndar áttum við fótum okkar fjör að launa þar sem haninn var ískyggilega æstur í að elta okkur. Hann hljóp á eftir okkur eins og vitlaus væri en ég reddaði málunum með því að kalla á Skunda, honum finnst sem betur fer alveg ÆÐISLEGT að fá að elta hanann ;o)














Þegar heim var komið sátu Tarzan og Bangsi á þvottavélinni og biðu eftir matnum sínum. Pírðu augun í sólinni en fylgdu mér samt eftir með höfðinu til að gá hvort ég færi nú ekki að hella mat í dallinn þeirra. Minntu mig hálfpartinn á Stevie Wonder, vantaði bara að þeir dilluðu sér meira .
"Hvar er maturinn okkar kerling??!"
Annars gengur lífið sinn vanagang. Kosninga- og Júró helgin var ágæt, fyrir utan að ríkisstjórnin féll ekki. Ætla ekkert að fara að rökræða um það, ég hef ekki nógu mikið vit á pólitík til þess. Og eins og ég hef áður sagt vil ég hafa rétt fyrir mér í alla staði og því er best að láta þetta umræðuefni kyrrt liggja. Því það þykjast jú allir hafa rétt fyrir sér í þessum efnum, er það ekki?


laugardagur, maí 12, 2007

Nú er úti veður vont



og að sjálfsögðu fæðist þá fyrsta folaldið í ár! Og eins og undanfarin ár er það hryssan hans Gísla, Dama frá Brekku, sem ríður á vaðið. Folaldið er bika svart og hryssa sýndist mér, verður því væntanlega grátt. Faðirinn er Alvar frá Nýja-Bæ, sem er grár foli fæddur 2003. Hann er undan Huginn frá Haga og Furðu frá Nýja-Bæ. Ég legg til að hún verði nefnd Kosning, það er öllu skárra en Júróvísa eða eitthvað álíka ;o) En ef þetta er hestur, tja...allavega verður það þá ekki nefnt Össur!

Eins og þið sjáið er veðrið ekki til að hrópa húrra fyrir, kengur í litla greyinu. Það er samt vel sprækt og Dama passar sig á að vera í skjólinu við réttina. Að vísu rauk hún af stað þegar ég mætti á svæðið, alltaf stygg þegar hún er nýköstuð. Þannig að ég var fljót að láta mig hverfa eftir að hafa náð nokkrum misgóðum myndum, reyni að ná betri myndum seinna þegar veðrið er aðeins betra..
Ég og Garðar vorum einmitt að tala um það hvenær fyrsta folaldið kæmi í morgun, ég sagðist halda að það ætti nú að fara að koma. Hann vildi meina að það kæmi í fyrsta lagi folald upp úr 20. maí, en eins og venjulega veit ég best ;o)



föstudagur, maí 11, 2007

Ég hef greinilega allt annan smekk

á tónlist en aðrir Evrópubúar. Ókei.... sök sér að Eiríkur komst ekki áfram. En þvílík leiðindalög voru þetta sem komust í úrslitin! Serbía var með nokkuð gott lag og eitthvað eitt lag enn (sem ég man samt ekki hvaðan er) en þar með er það upptalið. Alveg hreint arfaslök lög að mínu mati. Fullt af fínum lögum sátu svo eftir í súpunni með Eika. Nenni varla að horfa á aðalkeppnina á morgun, er svo fúl yfir þessu.

Kosningarnar eru á morgun, ég er enn að reyna að ákveða hvar ég á að setja krossinn minn. Búin að útiloka 3 flokka; Samfylkinguna sem vill helst drepa alla bændur, Íslandsflokkurinn (eða hvað hann heitir) getur ekki talað um neitt annað en stóriðjustopp og Framsókn....já....er bara Framsókn -útskýri það ekkert nánar. Ég get vonandi gert upp hug minn í kvöld þegar leiðtogaumræðurnar verða í Kastljósinu, en ég er eins og fjöður í vindi í sambandi við þetta. En mikið verð ég glöð þegar "Kæri vinur" og "Ágæti bóndi" pósturinn hættir að berast hingað!

Það er napurt um að litast hér í dag. Gengur á með éljum af og til, ekkert orðið hvítt þó. Bara þetta týpíska sauðburðarveður býst ég við.

Hafið það gott um helgina og kjósið nú rétt (segir sá sem ekkert veit í sinn eigin haus!)
;o)

fimmtudagur, maí 10, 2007

Fjölgun á Stórhóli

Nei, það eru ekki komin folöld. En það eru hins vegar komnar 3 litlar og sætar kanínur hingað ;o) Já, já, þið þurfið ekkert að segja mér að ég sé rugluð, ég veit allt um það. Búin að fá allnokkur andköf og hneykslunarsvip frá fólki, but who cares?

Tvær þeirra eru voða kammó en sú þriðja er svolítið feimin ennþá. Þetta eiga að vera 3 herramenn og vonandi er það rétt, svo maður fari nú ekki að fá óvænta glaðninga einhvern daginn ;o)

Annars er ekkert að frétta, er að fara að gera mig klára í júróvision gláp- er ekkert voðalega bjartsýn á að við komumst áfram...en það er aldrei að vita. Svo fer sem fer eða eitthvað álíka. Eiríkur er náttúrulega langflottastur, ég veit bara ekki alveg hvort aðrir Evrópubúar viti það?

þriðjudagur, maí 08, 2007

Ég er á lífi

Já, það hafðist af að halda afmælið hans Ragnars Loga með pompi og pragt. Allur bekkurinn hans mætti og meira til og þetta gekk svona líka ljómandi vel. Og gaman að spjalla við krakkana, greinilega þónokkrir spekingar í bekknum ;o) Ég gleymdi náttúrulega myndavélinni heima í öllum æsingnum, ekki í fyrsta og öruggulega ekki síðasta skipti sem ég gleymi henni.

Gubbupestin hefur verið að hrjá okkur hérna á hólnum. Fyrst fékk ég hana, Kolbrún á miðvikudaginn seinasta og svo Garðar, Ragnar og Janine á föstudagskvöldið. Ég er búin að þvo ískyggilega marga umganga af rúmfötum,koddum,sængum, teppum og böngsum, fyrir utan gólf og sófa sem hafa líka fengið að kenna á því. Kolbrún heldur meira að segja áfram að gubba, er búin að gubba einu sinni á hverju kvöldi núna í 3 daga. Hún vill greinilega halda mér í æfingu í rúmþvottum, ég get ekki sagt að ég sé neitt sérstaklega ánægð. Garðar er líka þeim eiginleika gæddur að hann bara lokar augunum þegar einhver gubbar og svo þegar hann opnar þau aftur-Abrakadabra!! ælan er horfin! -eins gott að hann lendi ekki í því að vera einn heima með börnin þegar svona gerist ;o)

Garðar fór með veturgömlu folana á Blönduós í geldingu í gær. Og hvað haldiði? Auðvitað var ekki hægt að gelda nema einn þeirra, þrír þeirra eru eineistungar. Lykill (sem hét Trítill), Móskjóni og Mósi hennar Sóleyjar komu því heim aftur með kúluna á sínum stað. Ég held að það sé bara verið að segja okkur að hafa þá graða, einhver að reyna að hafa vit fyrir okkur þarna uppi ;o) Hver veit? Garðari fannst þetta hins vegar ekkert sniðugt...týpískur karlmaður!

Ég er farin að bíða spennt eftir fyrstu folöldunum, sem koma líklega um miðjan mánuðinn. Reyndar eru tvær geldar, kannski þrjár, sem okkur finnst leiðinlega mikið. Yfirleitt aldrei verið nema mesta lagi ein á ári sem hefur verið geld. Plús það að ein er líka búin að láta. Alltaf sami skaðinn á Stórhól, það er ekki að spyrja að því :o/

Við erum rétt byrjuð að háþrýstiþvo í fjárhúsunum, þetta potast allt saman. Erum að vona að við getum klárað mestu inniþrifin núna í maí, þá er malarkeyrslan og allt það eftir. Svo þarf að plægja niður skítinn úr húsunum, það er eitt og annað sem þarf að gera þessa dagana.

Kálfurinn Krissi tórir enn. Þó ekki meira en það, þar sem hann drekkur ósköp takmarkað finnst okkur. Virðist ómögulega fatta að sjúga, ég held að hann sé pínu þroskaheftur greyið. Það er búið að reyna alls konar hundakúnstir á hann en ekkert virkar. Þannig að ef þið lumið á góðu ráði þá megið þið alveg láta mig vita ;o)

Ég er búin að hleypa fiðurfénaðinum mínum út í veðurblíðuna. Endurnar rúnta um alla jörðina eins og venjulega, ég vona bara að þær fari nú ekki á upp á veg eins og þær gerðu í fyrra, ekki viss um að það hafi allir vegfarendur mikla þolinmæði að bíða eftir að þær drattist áfram eftir þjóðvegi 1. Ég er ekkert allt of dugleg að loka þær af, mér finnst svo gaman að leyfa þeim að vappa um (plús það að ég er allt of löt til að nenna því) en það er öllu verra að tína upp eggin þeirra hist og her. Þetta eru hamingjusamar og frjálsar hænur og endur sem búa hér sjáiði til ;o)

fimmtudagur, maí 03, 2007

Styttist í afmæli



Ragnar Logi á afmæli á sunnudaginn. Litla barnið mitt að verða 7. ára! Það verður heljarinnar partý í félagsmiðstöðinni á mánudaginn. Það þarf allt að vera eftir kúnstarinnar reglum, diskarnir verða að vera svona, glösin svona, boðskortin svona, maturinn svona, svona mætti lengi telja. Það var nú bara skítur á priki að halda giftingarveisluna forðum miðað við þetta! Gráu hárunum hefur fjölgað allverulega síðustu daga skal ég segja ykkur...


Fór í Bónusferð með Olgu í gær. Ég er sem sagt ekki í BónusíBorgarnesimeðOlgu-straffi lengur. Þið munið kannski eftir köttunum sem ég kom heim með seinast þegar ég fór með Olgu í verslunarferð? Garðar er ekki búinn að gleyma því , þó hann sé nú búinn að fyrirgefa mér það svona innst inni;o)

Ég var ósköp stillt í þessari ferð, kom bara heim með heilmikið af drasli fyrir afmælisveisluna og sælgæti handa Garðari. Hefðum ekki getað komið einu brauði í bílinn í viðbót, hann var svo smekkfullur af vörum.

Talandi um verslunarferðir; ég fór í kaupfélagið mánudaginn fyrir 1.maí og viti menn- það var ekki til nýmjólk í búðinni?! Frídagur daginn eftir og engin mjólk. Ég hef aldrei rekið verslun, en kommon- það hlýtur að vera hægt að eiga helstu nauðsynjar fyrir fólk?? Held að ég fari bara að keyra á Blönduós einu sinni í viku, nenni ekki svona bulli aftur og aftur. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist. Já, ég get pirrað mig á ýmsu þessa dagana ;o)


Og þar sem pirringurinn í mér er í hámarki þessa dagana ætla ég ekki að hafa þetta lengra. Það gæti endað með því að ég skrifaði einhverja óskaplega vitleysu og kæmi mér í vandræði í kjölfarið. Sem myndi auka enn frekar áðurnefndan pirring. Læt heyra í mér eftir afmælið...ef ég verð á lífi eftir það þeas!

föstudagur, apríl 27, 2007

???

Mig langar ekkert sérstaklega til að láta ykkur sjá þessa síðu, en ég bara verð. Á nú gjörsamlega að ganga af blessaðri sauðkindinni dauðri?! Þarf flokkurinn að draga hana með sér í svaðið??

"Ungt framsóknarfólk notar kindina í sitt efni og er ekki feimið við uppruna flokksins. Það er töff að vera sveitó og íslenska sauðkindin er mögnuð!" Ég er semsagt töff. Og sveitó. Takk fyrir að láta mig vita.

Ég er nú ekki sérstaklega pólitísk í mér þó ég vissulega hafi mínar skoðanir, sem geta breyst frá degi til dags. En mikið ætla ég að vona að enginn sem ég þekki ýkja náið ætli sér að kjósa þetta. Reyndar væri best ef enginn kysi þessa apaketti, en það er kannski fullmikil bjartsýni í mér.
Og hananú.

miðvikudagur, apríl 25, 2007

Myndasíða

Ég er búin að setja nokkrar myndir inn á myndasíðuna mína, ég verð kannski ekkert voðalega dugleg við að setja inn, þar sem það tekur óratíma að hlaða þeim inn. Verk fyrir mjög þolinmótt fólk.......nú, já eða þá sem hafa almennilega nettengingu!

mánudagur, apríl 23, 2007

4. mánaða í dag

Set hérna inn myndir af Valgerði Emmu í tilefni dagsins. Myndin sem sýnir vel vaxtarlagið er sérstaklega sett inn fyrir mömmu, hún getur ekki hætt að dásama allar þessar fínu fellingar!
Mér finnst hún yndisleg hvort sem hún er í fötum eður ei ;o)



sunnudagur, apríl 22, 2007

Eitt og annað


Við fórum á sýninguna Tekið til kostanna í gærkvöldi. Verð að segja að ég var fyrir vonbrigðum með sýninguna í heild sinni, engin almennileg stemmning náðist upp og ekkert hross sem virkilega greip mig. Dívurnar voru flottar sem og Kraftur frá Bringu og Punktur frá Varmalæk; Geisla frá Sælukoti misstum við af, þar sem að Valgerður var orðin brjáluð hjá mömmu og við urðum að láta okkur hverfa. Asninn ég hafði ekki einu sinni prófað að gefa henni pela áður, og ég var sannfærð um að það yrði lítið mál þar sem hin börnin tóku við honum eins og skot. En það var öðru nær, hún vildi ekki sjá þetta peladót ;o)

Kannski var það bara stemmningsleysið sem gerði hrossin ekkert merkileg, ótrúlegt hvað góð stemmning skiptir miklu máli á svona sýningum! Það var fullt af fínum hrossum...en ekkert þeirra fékk mig til að segja VÁÁÁÁ!! En ég er greinilega alveg dottin út úr þessu, því það
hrósa allir sýningunni í hástert og öllum finnst að stemmningin í höllinni hafi verið frábær! Mikið hlýt ég að vera kröfuhörð ;o)



Ég reyndi með minni flass-lausu myndavél að taka einhverjar nothæfar myndir, en þær urðu af skornum skammti. Tók ótal myndir af Dívunum en það var svo mikil ferð á kellunum að það var andskotanum ómögulegt að ná góðri mynd af hópnum!


En út í aðra sálma. Hún Vaka virðist ætla að vera í lagi....allavega er hún lifandi enn ;o) Hvort hún verður til gagns ætla ég ekkert að segja um, það verður bara að koma í ljós. Ætlaði að taka mynd af henni, en enn og aftur var flassleysið að angra mig. Tók bara mynd af Krissa í staðinn, ósköp lítill en sykursætur. Svona eins og Jógvan, er það ekki Hallfríður?


Myndin af honum er ekkert sérstaklega góð, já helvítis flassið enn og aftur!


Fyrst ég var komin af stað með myndavélina, fór ég og tók myndir af folöldunum og stóðinu öllu.
Að vísu eru myndirnar varla hæfar á netið vegna þess hve drullan er ógurlega mikil en þið verðið bara að reyna að horfa framhjá því ;o) Alveg skelfilegt hvað allt veðst upp þar sem hrossunum er gefið.

Þessi brúna er hryssa undan Hrapp frá Sauðárkróki. Hún er frekar ófríð greyið, en afskaplega skemmtilegur gangur í henni.

Þessi bleikstjörnótta er undan Vita frá Miðsitju. Ég þarf endilega að reyna að ná henni af Garðari, það er eitthvað við hana sem mér líkar alveg óskaplega vel við.




Þessi móskjótti er undan Hrappi líka, fyrsta folaldið sem Garðar setur á sjálfur undan Húfu síðan við komum hingað, höfum alltaf selt folöldin undan henni. Reyndar gáfum við pabba eitt undan henni, ágætis reiðhestur sá klár.







Þessi bleikálótti risi hér til hliðar var seldur í réttunum í haust, en kaupandinn virðist hafa gleymt því og þess vegna ætlum við bara að eiga hann sjálf. Mér sýnist að hann ætti að geta borið mann og annan eftir einhver ár miðað við stærðina á honum núna.



Set ekki fleiri myndir inn í þessari lotu, bæti kannski við fleirum þegar umhverfið verður orðið skárra en á þessum myndum!