föstudagur, júlí 27, 2007
Flutt!!
Sjáumst (eða þannig..) vonandi á hinni síðunni..
þriðjudagur, júlí 24, 2007
Stóðið rekið á heiðina
Svo fallegt bros ;o)
Eitt af fjölmörgum litaflottum folöldunum hans Svenna.
Jarpskjótta hryssan hennar Valgerðar er ekki lengur jarpskjótt, núna er hún orðin brúnskjótt en verður væntanlega gráskjótt ;o) Ég er hætt að reyna að litagreina þessi blessuðu folöld mín, ef ég ákveð einhvern lit á þau taka þau bara upp á því að skipta algjörlega um lit!
Svo sjáið þið í rassinn á hryssunni sem ég var að vonast til að yrði litförótt, það er bara ekki hægt að sjá það ennþá því það er ekkert byrjað að missa fæðingarhárin. Sá eitt litförótt hjá Svenna og það var mjög líkt þessu á litinn, kannski ekki eins ljóst og þetta. Það væri nú gaman að eignast eitt litförótt, þó það sé nú ekki minn uppáhaldslitur. Ég get þó sagt þá að ég hafi átt einu sinni svoleiðis ;o)Enda þetta á mynd af Valgerði sem varð 7. mánaða í gær og mátti dúsa með mér í bílnum á eftir hrossunum mest allan daginn og var svo stillt og góð....eins og venjulega ;o)
sunnudagur, júlí 22, 2007
Heyskapur og tiltekt
Gott í þetta skiptið, farin að líta á hvernig heyskapurinn gengur!
sunnudagur, júlí 15, 2007
I´m back
fimmtudagur, júní 21, 2007
Ég var búin að skrifa
mánudagur, júní 18, 2007
Húsbóndinn á heimilinu
fimmtudagur, júní 14, 2007
Það hafðist af
Varmi kominn á veginn.
Skundi fékk far heim eftir öll hlaupin..
Hitinn var eiginlega of mikill fyrir greyið hrossin. Folöldin voru rennsveitt og héngu á spenanum nærri stanslaust. Þess á milli dormuðu þau við hliðina á mömmu sinni, alveg ógurlega þreytt! Folaldið undan Gránu hennar Kolbrúnar var nú bara við það að falla um koll af þreytu!
Læt þetta duga,annars endar þetta með því að ég set inn allar 120 myndirnar sem ég tók!
laugardagur, júní 09, 2007
Gargandi snilld!
Það er undan moldóttri meri og jörpum hesti, er þetta ekki bara följarpt eða bleikjarpt einhvernveginn?? Mér fannst eins og augun í því væru mun ljósari en venjulega?
Erum að fara að stússast í hrossum í dag og vonandi á morgun, losa okkur við hagagönguhross og græja hryssurnar sem eiga að fara með Mjölni í hólf.
Folaldið sem ég bjástraðist við í 5 daga drapst að lokum, það fékk aldrei almennilegan þrótt í afturpartinn og gat aldrei staðið upp af sjálfsdáðum. Ekki alveg eins og það átti að vera. Aldrei verið eins mikið bras á hrossunum eins og eftir að við urðum fjárlaus!
Vonandi næ ég að taka myndir af öllum folöldunum, mig langar til að koma myndum af þeim öllum á myndasíðuna mína, það eru bara 3 hryssur sem eiga eftir að kasta sýndist mér. Og vonandi verður veðrið svona frábært á morgun eins og það er í dag, það er svo gaman að labba innan um hrossin í svona veðri og taka myndir af þeim.
Þetta er gott í bili, hef ekkert að segja -langaði bara að sýna ykkur folaldið!
fimmtudagur, júní 07, 2007
Best að hugsa sinn gang
þriðjudagur, júní 05, 2007
Mjölnir
Klárinn er virkilega fallegur og mjög prúður í umgengni, við settum hann bara beint í merar þegar hann kom, þar sem plássið í hesthúsinu er orðið af skornum skammti út af veika folaldinu. Enda engin ástæða til að láta þetta hanga inni að ástæðulausu. Folinn var líka guðslifandi feginn að komast út á lífið ;o)
Jæja, hef engan tíma í þetta, farin að hræra saman mjólk, eggjum og hunangi og kveð í bili..
laugardagur, júní 02, 2007
Loksins
Talandi um stóðhesta; klárinn sem við verðum með í sumar var byggingardæmdur í vikunni á Gaddstaðaflötum og fékk þennan líka fína dóm. 8,44 fyrir byggingu takk fyrir! Svo skemmir nú ekki liturinn, en hann er bleikskjóttur. Ég sé fram á erfitt næsta ár í folalda ásetningi ;o)
Þessi hestur heitir Mjölnir frá Héraðsdal og er undan Hilmi frá Sauðárkróki. Hann á að koma til okkar á mánudaginn, að sjálfsögðu læt ég Garðar prófa gripinn og sjá hvort hann er eitthvað meira en útlitið blessaður. Og ég verð á vísum stað-með myndavélina á lofti..
Ætla að segja þetta gott í bili, set engar myndir í þessari færslu þar sem ég býst við að hafa ríflegt magn af þeim í þeirri næstu. Vafalaust einhverjir sem eru jafn illa tengdir og ég sem blóta þessum endalausu myndum sem ég treð hér inn! Eða er ég orðin sú eina sem bý með ISDN+, sem átti að vera svo MIKLU BETRI en sú tenging sem ég hafði. Hef nú ekki fundið það nema á einn hátt; mun hærri símreikningi...
Eitt enn, þið eruð nú meiri dónarnir að minnast ekkert á breytt útlit síðunnar, kostaði blóð, svita og tár að breyta þessu (ok...smá ýkjur :)! Hnusssssss....!
mánudagur, maí 28, 2007
Það skiptast á skin og skúrir
Jæja, læt þetta duga í þetta skiptið, nóg komið í bili ;o)
miðvikudagur, maí 23, 2007
23.5.2007
Enda þetta á mynd af prinsessunni sem er semsagt 5 mánaða í dag..
þriðjudagur, maí 22, 2007
Snjór og folöld
Kvika var svo nýköstuð þegar ég kíkti upp eftir í morgun, það er svartur hestur- sem verður væntanlega grár þá. Hún valdi sér nú ekki besta staðinn, greyið folaldið lá úti í mýri og skalf úr kulda. Ég stuggaði við því og Kvika hljóp á braut með folaldið á eftir sér.
Annars verð ég að fá að monta mig af því hvað merarnar eru vel fóðraðar hjá Garðari. Já, maður verður nú að reyna að finna eitthvað til að monta sig útaf, það er ekki mikið til skiptana í þeim efnum ;o) Það er enginn munur á þeim fyrir eða eftir köstun. Enda hefur svo sem ekki verið sparað í þau þar sem allt snýst um að koma heyjunum út hið snarasta.
Skessa td. sem er hérna á mynd fyrir neðan hefur oft verið frekar erfið í holdum á vorin, hún er yfirleitt svo stygg og erfið þegar hún er með folaldi. Núna gæti hún allt eins átt eftir að kasta einu folaldi í viðbót ;o) Mig grunar nú að við eigum eftir að fá þetta góða atlæti í hausinn þegar við fáum fé aftur, þá verða þau að sætta sig við að fá ekki eins ríflega gjöf og núna og vafalaust verður fýlusvipur á einhverju þeirra þá! Sjaldan launar kálfurinn ofeldið eins og ég hef sagt áður...
sunnudagur, maí 20, 2007
Númer 3
Liturinn á folaldinu....hmmm...best að segja minnst um hann, Hallfríður rekur hann ofan í mig öfugan og því best að láta ykkur dæma litinn sjálf. Reyndar finnst mér persónulega folaldið vera bara brúnt en samt kannski dökkjarpt, sem verður svo kannski grátt ;o)
fimmtudagur, maí 17, 2007
Annað folald
miðvikudagur, maí 16, 2007
Labbitúr
Við tókum myndir af öndum og hænum líka, reyndar áttum við fótum okkar fjör að launa þar sem haninn var ískyggilega æstur í að elta okkur. Hann hljóp á eftir okkur eins og vitlaus væri en ég reddaði málunum með því að kalla á Skunda, honum finnst sem betur fer alveg ÆÐISLEGT að fá að elta hanann ;o)
Þegar heim var komið sátu Tarzan og Bangsi á þvottavélinni og biðu eftir matnum sínum. Pírðu augun í sólinni en fylgdu mér samt eftir með höfðinu til að gá hvort ég færi nú ekki að hella mat í dallinn þeirra. Minntu mig hálfpartinn á Stevie Wonder, vantaði bara að þeir dilluðu sér meira .
laugardagur, maí 12, 2007
Nú er úti veður vont
Eins og þið sjáið er veðrið ekki til að hrópa húrra fyrir, kengur í litla greyinu. Það er samt vel sprækt og Dama passar sig á að vera í skjólinu við réttina. Að vísu rauk hún af stað þegar ég mætti á svæðið, alltaf stygg þegar hún er nýköstuð. Þannig að ég var fljót að láta mig hverfa eftir að hafa náð nokkrum misgóðum myndum, reyni að ná betri myndum seinna þegar veðrið er aðeins betra..
föstudagur, maí 11, 2007
Ég hef greinilega allt annan smekk
Kosningarnar eru á morgun, ég er enn að reyna að ákveða hvar ég á að setja krossinn minn. Búin að útiloka 3 flokka; Samfylkinguna sem vill helst drepa alla bændur, Íslandsflokkurinn (eða hvað hann heitir) getur ekki talað um neitt annað en stóriðjustopp og Framsókn....já....er bara Framsókn -útskýri það ekkert nánar. Ég get vonandi gert upp hug minn í kvöld þegar leiðtogaumræðurnar verða í Kastljósinu, en ég er eins og fjöður í vindi í sambandi við þetta. En mikið verð ég glöð þegar "Kæri vinur" og "Ágæti bóndi" pósturinn hættir að berast hingað!
Það er napurt um að litast hér í dag. Gengur á með éljum af og til, ekkert orðið hvítt þó. Bara þetta týpíska sauðburðarveður býst ég við.
Hafið það gott um helgina og kjósið nú rétt (segir sá sem ekkert veit í sinn eigin haus!)
;o)
fimmtudagur, maí 10, 2007
Fjölgun á Stórhóli
Tvær þeirra eru voða kammó en sú þriðja er svolítið feimin ennþá. Þetta eiga að vera 3 herramenn og vonandi er það rétt, svo maður fari nú ekki að fá óvænta glaðninga einhvern daginn ;o)
Annars er ekkert að frétta, er að fara að gera mig klára í júróvision gláp- er ekkert voðalega bjartsýn á að við komumst áfram...en það er aldrei að vita. Svo fer sem fer eða eitthvað álíka. Eiríkur er náttúrulega langflottastur, ég veit bara ekki alveg hvort aðrir Evrópubúar viti það?
þriðjudagur, maí 08, 2007
Ég er á lífi
Gubbupestin hefur verið að hrjá okkur hérna á hólnum. Fyrst fékk ég hana, Kolbrún á miðvikudaginn seinasta og svo Garðar, Ragnar og Janine á föstudagskvöldið. Ég er búin að þvo ískyggilega marga umganga af rúmfötum,koddum,sængum, teppum og böngsum, fyrir utan gólf og sófa sem hafa líka fengið að kenna á því. Kolbrún heldur meira að segja áfram að gubba, er búin að gubba einu sinni á hverju kvöldi núna í 3 daga. Hún vill greinilega halda mér í æfingu í rúmþvottum, ég get ekki sagt að ég sé neitt sérstaklega ánægð. Garðar er líka þeim eiginleika gæddur að hann bara lokar augunum þegar einhver gubbar og svo þegar hann opnar þau aftur-Abrakadabra!! ælan er horfin! -eins gott að hann lendi ekki í því að vera einn heima með börnin þegar svona gerist ;o)
Garðar fór með veturgömlu folana á Blönduós í geldingu í gær. Og hvað haldiði? Auðvitað var ekki hægt að gelda nema einn þeirra, þrír þeirra eru eineistungar. Lykill (sem hét Trítill), Móskjóni og Mósi hennar Sóleyjar komu því heim aftur með kúluna á sínum stað. Ég held að það sé bara verið að segja okkur að hafa þá graða, einhver að reyna að hafa vit fyrir okkur þarna uppi ;o) Hver veit? Garðari fannst þetta hins vegar ekkert sniðugt...týpískur karlmaður!
Ég er farin að bíða spennt eftir fyrstu folöldunum, sem koma líklega um miðjan mánuðinn. Reyndar eru tvær geldar, kannski þrjár, sem okkur finnst leiðinlega mikið. Yfirleitt aldrei verið nema mesta lagi ein á ári sem hefur verið geld. Plús það að ein er líka búin að láta. Alltaf sami skaðinn á Stórhól, það er ekki að spyrja að því :o/
Við erum rétt byrjuð að háþrýstiþvo í fjárhúsunum, þetta potast allt saman. Erum að vona að við getum klárað mestu inniþrifin núna í maí, þá er malarkeyrslan og allt það eftir. Svo þarf að plægja niður skítinn úr húsunum, það er eitt og annað sem þarf að gera þessa dagana.
Kálfurinn Krissi tórir enn. Þó ekki meira en það, þar sem hann drekkur ósköp takmarkað finnst okkur. Virðist ómögulega fatta að sjúga, ég held að hann sé pínu þroskaheftur greyið. Það er búið að reyna alls konar hundakúnstir á hann en ekkert virkar. Þannig að ef þið lumið á góðu ráði þá megið þið alveg láta mig vita ;o)
Ég er búin að hleypa fiðurfénaðinum mínum út í veðurblíðuna. Endurnar rúnta um alla jörðina eins og venjulega, ég vona bara að þær fari nú ekki á upp á veg eins og þær gerðu í fyrra, ekki viss um að það hafi allir vegfarendur mikla þolinmæði að bíða eftir að þær drattist áfram eftir þjóðvegi 1. Ég er ekkert allt of dugleg að loka þær af, mér finnst svo gaman að leyfa þeim að vappa um (plús það að ég er allt of löt til að nenna því) en það er öllu verra að tína upp eggin þeirra hist og her. Þetta eru hamingjusamar og frjálsar hænur og endur sem búa hér sjáiði til ;o)
fimmtudagur, maí 03, 2007
Styttist í afmæli
föstudagur, apríl 27, 2007
???
"Ungt framsóknarfólk notar kindina í sitt efni og er ekki feimið við uppruna flokksins. Það er töff að vera sveitó og íslenska sauðkindin er mögnuð!" Ég er semsagt töff. Og sveitó. Takk fyrir að láta mig vita.
Ég er nú ekki sérstaklega pólitísk í mér þó ég vissulega hafi mínar skoðanir, sem geta breyst frá degi til dags. En mikið ætla ég að vona að enginn sem ég þekki ýkja náið ætli sér að kjósa þetta. Reyndar væri best ef enginn kysi þessa apaketti, en það er kannski fullmikil bjartsýni í mér.
Og hananú.
miðvikudagur, apríl 25, 2007
Myndasíða
mánudagur, apríl 23, 2007
4. mánaða í dag
sunnudagur, apríl 22, 2007
Eitt og annað
Ég reyndi með minni flass-lausu myndavél að taka einhverjar nothæfar myndir, en þær urðu af skornum skammti. Tók ótal myndir af Dívunum en það var svo mikil ferð á kellunum að það var andskotanum ómögulegt að ná góðri mynd af hópnum!
En út í aðra sálma. Hún Vaka virðist ætla að vera í lagi....allavega er hún lifandi enn ;o) Hvort hún verður til gagns ætla ég ekkert að segja um, það verður bara að koma í ljós. Ætlaði að taka mynd af henni, en enn og aftur var flassleysið að angra mig. Tók bara mynd af Krissa í staðinn, ósköp lítill en sykursætur. Svona eins og Jógvan, er það ekki Hallfríður?
Myndin af honum er ekkert sérstaklega góð, já helvítis flassið enn og aftur!
Fyrst ég var komin af stað með myndavélina, fór ég og tók myndir af folöldunum og stóðinu öllu.
Að vísu eru myndirnar varla hæfar á netið vegna þess hve drullan er ógurlega mikil en þið verðið bara að reyna að horfa framhjá því ;o) Alveg skelfilegt hvað allt veðst upp þar sem hrossunum er gefið.
Þessi brúna er hryssa undan Hrapp frá Sauðárkróki. Hún er frekar ófríð greyið, en afskaplega skemmtilegur gangur í henni.
Þessi bleikstjörnótta er undan Vita frá Miðsitju. Ég þarf endilega að reyna að ná henni af Garðari, það er eitthvað við hana sem mér líkar alveg óskaplega vel við.
Þessi móskjótti er undan Hrappi líka, fyrsta folaldið sem Garðar setur á sjálfur undan Húfu síðan við komum hingað, höfum alltaf selt folöldin undan henni. Reyndar gáfum við pabba eitt undan henni, ágætis reiðhestur sá klár.
Þessi bleikálótti risi hér til hliðar var seldur í réttunum í haust, en kaupandinn virðist hafa gleymt því og þess vegna ætlum við bara að eiga hann sjálf. Mér sýnist að hann ætti að geta borið mann og annan eftir einhver ár miðað við stærðina á honum núna.
Set ekki fleiri myndir inn í þessari lotu, bæti kannski við fleirum þegar umhverfið verður orðið skárra en á þessum myndum!