þriðjudagur, janúar 30, 2007

Life goes on

Já, það er kominn tími til að láta vissa hluti ekki draga sig endalaust niður og gefa sjálfum sér spark í rassinn. Fara að gera eitthvað annað en að horfa út í loftið og hugsa.

Hafði það af að hringja í prestinn og panta skírn, settur dagur er sunnudagurinn næsti, ekki alveg ákveðið hvort það verði í messunni í Víðidalstungukirkju eða bara heima. Messan er nefnilega um kvöldið og það er nú ekkert agalega spennandi að vera seint að þessu þegar fólk er að koma að og er kannski með lítil börn líka. Þurfa að vakna í skóla daginn eftir og svona. Veit ekki hvað við gerum, fer og hitti prestinn í vikunni. Ég verð að hryggja þig með því Hallfríður mín að þú færð ekki nöfnu í þetta skiptið, hver veit hvað gerist með næsta ;o)

Ég fjárfesti í gervihnattamóttakara og græjum í vikunni, nú er bara einn höfuðverkur eftir; það er að tengja þetta helvíti. En ég sé fram á bjarta tíma, get flakkað um nokkur hundruð stöðvar þegar herlegheitin verða komin í gagnið og við skötuhjúin horft á uppáhaldssjónvarpsefnið okkar; Pro Bull Riding :o) Reyndar heimtar Garðar að fá bláar stöðvar til að horfa á, segist ekki skilja neitt ef það er ekki textað?! Hann getur nú bara hunskast út og horft á himininn ef hann vill fá eitthvað blátt!

Svo verður maður að horfa á handboltann í kvöld, Danmörk- Ísland, ég vildi nú að við hefðum fengið einhverja aðra til að keppa við í fyrsta leiknum í 8 liða úrslitunum, eru þau tvö lið sem ég held með :o/ Ég er náttúrulega Íslendingur í húð og hár....en ég er samt hálfur Dani þrátt fyrir það ;o)

fimmtudagur, janúar 25, 2007

...

Ég er í vondu skapi. Ef þið vonist til að lesa fyndna og skemmtilega færslu þá skulið þið haska ykkur hið snarasta af þessari síðu.

Kindurnar okkar voru sendar í sitt síðasta ferðalag í gær. Þetta var erfitt. Mjög erfitt.
Allt sem maður hefur stritað við seinustu átta árin er bara farið. Ég veit vel að þetta eru "bara" kindur og ég á að vera þakklát fyrir mín heilbrigðu börn og allt það, en það gerir þetta ekkert auðveldara. Ef það er eitthvað sem ég þoli illa, þá er það óréttlæti gagnvart dýrum. Finnst við vera ósanngjörn við allar kindurnar sem ekkert var að.

Þar sem að við erum svo sýkt og hættuleg ,var ekki hægt að fá neina almennilega bíla í þetta verk og fengum við 2 gamla skrjóða sem tóku rétt rúmlega 100 kindur í ferð. Þetta endaði því í 5 ferðum, var byrjað 8 um morguninn og var ekki búið fyrr en um 5 leytið í gær. Sérlega skemmtilegt eða þannig. Ekki viss um að allir myndu sætta sig við þetta..

Þetta er líka búið að taka allt of langan tíma. Nærri 6. vikur erum við búin að bíða og bíða. Ég gæti haldið laaaaaaaaaaangan pistil um heimskar skrifstofublókir fyrir sunnan, en ég ætla að hemja mig í þetta skiptið. Held að þær séu ekki færar um að skilja að fólki getur aktúally þótt vænt um dýrin sín.

mánudagur, janúar 01, 2007

Nýtt ár gengið í garð

Gleðilegt nýtt ár!!!!!!!!!!!!!!!
Já hér sjáið þið nýasta fjölskyldumeðliminn, sem ákvað að koma í heiminn á þorláksmessu. Hún var fædd 14 merkur og 52 cm. - meira en nóg að mínu mati *hóst*....
Fæðingin gekk annars vel, frekar hægt kannski þar sem hún var í framhöfuðstöðu, en hún skilaði sér út á endanum (ég var nú farin að örvænta á tímabili), mér til mikillar lukku. Þetta er nú meira helvítið að fæða barn, skil ekki hvernig manni dettur í hug að gera þetta aftur og aftur?!
Held að hún sé líkari Ragnari Loga þegar hann var kríli, allavega er hún róleg eins og hann var- sefur allan daginn og er bara alveg til fyrirmyndar enn sem komið er ;o)
Ég eyddi semsagt jólunum á spítalanum, Garðar og krakkarnir voru hjá mor og far á aðfangadagskvöld, svo var Garðar hjá mér um nóttina. Segi ekki að ég vilji eyða mörgum jólum á sjúkrahúsi, en þetta var svosem upplifun að vera þar á þessum tíma.

Annars er allt bærilegt að frétta, þó ekki meira en það. Ýmislegt búið að ganga á hér og stendur þó hæst að búið er að staðfesta riðu í fénu hjá okkur og verður skorið niður núna eftir áramótin. Svakalegt kjaftshögg að fá, þetta eru búnar að vera erfiðar vikur og ég sé svosem ekki fram á bjartari tíma á næstunni. Vildi fegin geta sofið af mér þessi ósköp :o/ Það rættist það sem Garðar var búinn að spá; að um leið og við værum komin yfir 500 fjár og búin að byggja, myndum við fá einhvern svona "glaðning" í hausinn. Ughhhh...

Stefnan er sett á að taka hross inn um næstu helgi, Garðar verður bara að demba sér í tamningarnar- enda svo sem af nógu að taka! Ekki mikið gerst í þeim efnum síðustu árin og eigum við því uppsafnað svona eins og eitt eða tvö hross (+ fleiri) til að hjaksast á í vetur. Það þýðir víst ekkert að gefast upp er það??

Læt þetta duga í bili, best að eyða ekki öllum nýársdeginum fyrir framan tölvuna..
Hafið það gott á nýju ári greyin mín :o)