mánudagur, maí 28, 2007

Það skiptast á skin og skúrir

og þá á ég bæði við í veðrinu hérna sem og lífinu sjálfu. Ný folöld hafa fæðst en því miður dó eitt þeirra, brúnhöttóttur hestur. Við vitum nú ekki af hverju það dó, við höldum að það hafi bara króknað því það fæddist þegar það var slyddudrulla hérna og kalt. Svo þurfti merargreyið endilega að kasta út í mýri þannig að það hefur verið erfitt fyrir folaldið að komast á lappir til að ná í ylvolgann sopann hjá mömmu sinni.


Það var svo reynt að venja annað folald undir merina, en það folald var fætt mánuði fyrir tímann og lifði því miður ekki heldur. Alveg ótrúlegt hvað merin var góð, þetta er hross sem hefur aldrei verið snert, annað skipti sem hún er sett í kerru á ævinni og hún var eins og ljós allan tímann! Við gátum meira að segja mjólkað hana eins og við vildum- hún stóð eins og stytta. Enda tók hún strax við nýja folaldinu en því miður fór sem fór. Það vantar ekki brasið í búskapinn :o/

Krissi gaf líka upp öndina um helgina. Við bjuggumst nú alveg við því, hann var bara ekki eins og hann átti að vera. Eitthvað klikk í meltingunni held ég, AB mjólkin var semsagt gagnslaus í þessu tilfelli..

Leikskólinn og skólinn að verða búinn, mikið er ég fegin því það er orðið ómögulegt að koma krökkunum í rúmið á skikkanlegum tíma. Og í kjölfarið alveg hundleiðinlegt að koma þeim á lappir á morgnana.

Húfa kastaði um helgina, kom með jarpskjótt- kynið veit ég ekkert um því þær mæðgur Húfa og Jarpskjóna voru vægast sagt ljónstyggar og leyfðu mér ekkert að koma nálægt.
Náði einni mynd af því á harðahlaupum á eftir Húfu, það er fallega rauðjarpskjótt sem ég er mjög ánægð með, því Jarpskjóna kom nefnilega með dökkjarpskjótt.




Ég fór með Valgerði í skoðun í vikunni, sem betur fer segi ég því hún var komin með mikla eyrnabólgu. Annars var hún ekkert búin að vera neitt voðalega óróleg, tók svona ágætis tarnir (5 mínútur eða svo :o) og svo bara allt í lagi. Hún fékk sýklalyf hjá lækninum og núna er hún alveg pollróleg eins og henni einni er lagið. Ég hef aldrei þekkt nokkurt barn sem hefur verið svona svakalega rólegt, svei mér þá, ég hélt ekki að svona börn væru til!

Garðar plægir eins og vitlaus væri, það verður nóg að gera í steinatínslunni í sumar! Hann er byrjaður að plægja löngu túnin niður frá og eins og annars staðar hérna er svona einn og einn steinn sem lætur sjá sig ;o) Það er um að gera að gera þetta á meðan við erum fjárlaus svo þetta fái einhvern frið til að verða almennilegt.

Jæja, læt þetta duga í þetta skiptið, nóg komið í bili ;o)

miðvikudagur, maí 23, 2007

23.5.2007

Það er tvennt sem þið lesendur eigið að taka eftir á þessari mynd.

Í fyrsta lagi er það hestakerran, sem var í heilmikilli yfirhalningu hjá Ása í Holti. Sérstaklega eigið þið að dásama hvað hún er fallega máluð af Garðari, hann er mjög stoltur að hafa haft þetta loksins af!
Í öðru lagi er það að sjálfsögðu hrossið á myndinni. Hver haldið þið nú að þetta sé?


Já, þetta er Vaka- hin eina sanna. Hún er semsagt öll að braggast eins og þið sjáið, við höfum haft hana úti á túni á daginn og svo er hún farin að taka upp á því að vera ekkert nema óþekktin þegar hún á að fara inn ;o) Garðar og Ragnar Logi eltu hana uppi á fjórhjólinu, þeim leiddist það nú ekki! Þannig að nú vona ég að þetta sé allt að koma hjá ólánshrossinu mínu...7-9-13!
Og já, enn eitt folaldið komið; jarpskjótt hryssa sem að við erum að hugsa um að gefa Valgerði Emmu. Er það ekki kjörið að gefa henni það í 5 mánaða afmælisgjöf? ;o)

Enda þetta á mynd af prinsessunni sem er semsagt 5 mánaða í dag..


þriðjudagur, maí 22, 2007

Snjór og folöld


Þegar ég fór á fætur rúmlega 7 í morgun var allt hvítt. Um hálf 9 var allur snjórinn sem betur fer farinn, það er huggun að hann er allavega fljótur að hverfa aftur!

Tvö ný folöld komin; Skessa kom með móbrúnan hest í gær, ég veit ekki hvað er málið með þessa liti á folöldunum. Þar sem ég hef átt mjög fá grá hross veit ég ekkert hvernig þau geta verið á litinn þegar þau fæðast. Getur móbrúnt orðið grátt? Spyr sá sem ekki veit..

Kvika var svo nýköstuð þegar ég kíkti upp eftir í morgun, það er svartur hestur- sem verður væntanlega grár þá. Hún valdi sér nú ekki besta staðinn, greyið folaldið lá úti í mýri og skalf úr kulda. Ég stuggaði við því og Kvika hljóp á braut með folaldið á eftir sér.



Annars verð ég að fá að monta mig af því hvað merarnar eru vel fóðraðar hjá Garðari. Já, maður verður nú að reyna að finna eitthvað til að monta sig útaf, það er ekki mikið til skiptana í þeim efnum ;o) Það er enginn munur á þeim fyrir eða eftir köstun. Enda hefur svo sem ekki verið sparað í þau þar sem allt snýst um að koma heyjunum út hið snarasta.

Skessa td. sem er hérna á mynd fyrir neðan hefur oft verið frekar erfið í holdum á vorin, hún er yfirleitt svo stygg og erfið þegar hún er með folaldi. Núna gæti hún allt eins átt eftir að kasta einu folaldi í viðbót ;o) Mig grunar nú að við eigum eftir að fá þetta góða atlæti í hausinn þegar við fáum fé aftur, þá verða þau að sætta sig við að fá ekki eins ríflega gjöf og núna og vafalaust verður fýlusvipur á einhverju þeirra þá! Sjaldan launar kálfurinn ofeldið eins og ég hef sagt áður...

sunnudagur, maí 20, 2007

Númer 3

Ósköp eru þetta vesæl bloggskrif hjá mér, ekkert gerist nema að ný folöld komi í heiminn. Hálf skammarlegt að sitja við tölvuna og blogga einhverja bölvaða vitleysu þegar flestir aðrir sem við þekkjum eru á kafi í sauðburði þessa dagana! Já Hallfríður; ég skil alveg ósköp vel hvernig þér líður, við skulum bara vona og trúa að við getum tekið þetta með trompi þegar að því kemur og við fáum tækifæri til ;o)

En áfram með Glæstar Stórhóls-Vonir ;o) - hún Jörp mín frá Stórhóli kastaði í nótt. En að sjálfsögðu gat það ekki gengið snuðrulaust fyrir sig; hún Þota þurfti að taka upp á því að stela folaldinu! Bölvuð p..... er geld þetta árið og það var ekki að spyrja að því að hún ákvað að næla sér í eitt folald í sárabætur. Þota er þessi brúna á myndinni en það er þessi dökkjarpa sem á það. Folaldið saug og saug Þotu en auðvitað var sá dropi ansi þunnur.



Það var kominn óttalegur kengur í hestinn litla og ekki var það nú til að bæta útlit þess, þar sem það er bæði lítið og ósköp ljótt (þó svo að folöld séu nú alltaf ósköp sæt). Við náðum að taka Þotu frá folaldinu og það endaði með að við máttum taka hana inn því hún var jú kolvitlaus yfir því að missa folaldið sitt!



Nú, þeir sem kannast við hana Jörp frá Stórhóli, vita að hún er ekki beint lamb að leika sér við. Hún æðir áfram eins og hraðskreið lest og ekkert má verða á vegi hennar. Hún vildi folaldið en vildi það samt ekki, og ekki er hlaupið að því að halda henni á meðan folaldið sýgur. Þannig að hún var látin dúsa í allan dag með folaldið hjá sér í réttinni og sem betur fer fór þetta allt á hinn besta veg. Folaldið fékk loksins að sjúga hana og Jörp losnaði líka við hildarnar sem við vorum farin að vera áhyggjufull um að færu ekki af sjálfsdáðum. Guð hjálpi mér ef við hefðum þurft að fá dýralækni til að taka hildarnar úr henni!



Liturinn á folaldinu....hmmm...best að segja minnst um hann, Hallfríður rekur hann ofan í mig öfugan og því best að láta ykkur dæma litinn sjálf. Reyndar finnst mér persónulega folaldið vera bara brúnt en samt kannski dökkjarpt, sem verður svo kannski grátt ;o)



Ég sé ekki fram á það að geta gefið henni Vöku minni nýtt nafn eins og staðan er í dag. Hún er bara alls, alls ekki eins og hún á að vera. Ingunn er búin að skoða hana aftur og getur ekki bent á neitt sérstakt sem hrjáir hana, nema það að henni líður illa alls staðar. Sem er alls ekki gott svar. Við erum búin að vera með hana á sýklalyfjum, bólgueyðandi og verkjastillandi nærri því samfleytt síðan slysið gerðist en því miður þrífst hún ekki nógu vel. Við tókum upp á því í dag að gefa henni AB mjólk, en við erum búin að vera að gefa Krissa AB mjólk að ráði pabba og ákváðum að gefa henni bara líka fyrst við værum að þessu AB sulli. Hún getur allavega ekki orðið verri greyið, ég ætla nú ekki að gefa hana upp á bátinn strax. Það væri náttúrulega bara best að koma henni út á græn grös, en það er bara svo skelfilega kalt alla daga og hún hímir bara í kuldanum. Garðar hefur haft hana í smá hólfi á daginn til að leyfa henni að bíta, en eins og ég segi vantar að pota hitastiginu aðeins meira upp hérna...heyrirðu það Hallfríður!


Best að enda þetta á mynd af grislingunum þremur fyrir mömmu, þar sem ég veit að hún hefur afskaplega takmarkaðan áhuga á hrossum og einhverju þeim tengdu..












fimmtudagur, maí 17, 2007

Annað folald



Eitt folald kom í heiminn í nótt, jörp hryssa undan Kolbrúnu frá Stórhóli og Alvari. Ég bjóst nú ekki við að það kæmi jarpt undan brúnni meri og gráum hesti (fæddur brúnn)? Hann er að vísu undan jarpri hryssu og Kolbrún gæti verið það líka, hef ekkert gáð að því í Feng. Enda skiptir það nú engu máli, huggulegt folald hvernig svosem liturinn er á því ;o)


miðvikudagur, maí 16, 2007

Labbitúr


Við Valgerður Emma og Skundi fórum í gönguferð í blíðunni, ég skellti henni í svona barnapoka og þrammaði með hana á maganum hingað og þangað. Við byrjuðum á að kíkja á hrossin en það voru engin ný folöld mætt á svæðið. Folaldið hennar Dömu var að skoða sig um í réttinni, því leist afskaplega vel á tökubásinn. Er ekki eins viss um að það verði svona vinsæll staður seinna meir ;o)

Við tókum myndir af öndum og hænum líka, reyndar áttum við fótum okkar fjör að launa þar sem haninn var ískyggilega æstur í að elta okkur. Hann hljóp á eftir okkur eins og vitlaus væri en ég reddaði málunum með því að kalla á Skunda, honum finnst sem betur fer alveg ÆÐISLEGT að fá að elta hanann ;o)














Þegar heim var komið sátu Tarzan og Bangsi á þvottavélinni og biðu eftir matnum sínum. Pírðu augun í sólinni en fylgdu mér samt eftir með höfðinu til að gá hvort ég færi nú ekki að hella mat í dallinn þeirra. Minntu mig hálfpartinn á Stevie Wonder, vantaði bara að þeir dilluðu sér meira .
"Hvar er maturinn okkar kerling??!"
Annars gengur lífið sinn vanagang. Kosninga- og Júró helgin var ágæt, fyrir utan að ríkisstjórnin féll ekki. Ætla ekkert að fara að rökræða um það, ég hef ekki nógu mikið vit á pólitík til þess. Og eins og ég hef áður sagt vil ég hafa rétt fyrir mér í alla staði og því er best að láta þetta umræðuefni kyrrt liggja. Því það þykjast jú allir hafa rétt fyrir sér í þessum efnum, er það ekki?


laugardagur, maí 12, 2007

Nú er úti veður vont



og að sjálfsögðu fæðist þá fyrsta folaldið í ár! Og eins og undanfarin ár er það hryssan hans Gísla, Dama frá Brekku, sem ríður á vaðið. Folaldið er bika svart og hryssa sýndist mér, verður því væntanlega grátt. Faðirinn er Alvar frá Nýja-Bæ, sem er grár foli fæddur 2003. Hann er undan Huginn frá Haga og Furðu frá Nýja-Bæ. Ég legg til að hún verði nefnd Kosning, það er öllu skárra en Júróvísa eða eitthvað álíka ;o) En ef þetta er hestur, tja...allavega verður það þá ekki nefnt Össur!

Eins og þið sjáið er veðrið ekki til að hrópa húrra fyrir, kengur í litla greyinu. Það er samt vel sprækt og Dama passar sig á að vera í skjólinu við réttina. Að vísu rauk hún af stað þegar ég mætti á svæðið, alltaf stygg þegar hún er nýköstuð. Þannig að ég var fljót að láta mig hverfa eftir að hafa náð nokkrum misgóðum myndum, reyni að ná betri myndum seinna þegar veðrið er aðeins betra..
Ég og Garðar vorum einmitt að tala um það hvenær fyrsta folaldið kæmi í morgun, ég sagðist halda að það ætti nú að fara að koma. Hann vildi meina að það kæmi í fyrsta lagi folald upp úr 20. maí, en eins og venjulega veit ég best ;o)



föstudagur, maí 11, 2007

Ég hef greinilega allt annan smekk

á tónlist en aðrir Evrópubúar. Ókei.... sök sér að Eiríkur komst ekki áfram. En þvílík leiðindalög voru þetta sem komust í úrslitin! Serbía var með nokkuð gott lag og eitthvað eitt lag enn (sem ég man samt ekki hvaðan er) en þar með er það upptalið. Alveg hreint arfaslök lög að mínu mati. Fullt af fínum lögum sátu svo eftir í súpunni með Eika. Nenni varla að horfa á aðalkeppnina á morgun, er svo fúl yfir þessu.

Kosningarnar eru á morgun, ég er enn að reyna að ákveða hvar ég á að setja krossinn minn. Búin að útiloka 3 flokka; Samfylkinguna sem vill helst drepa alla bændur, Íslandsflokkurinn (eða hvað hann heitir) getur ekki talað um neitt annað en stóriðjustopp og Framsókn....já....er bara Framsókn -útskýri það ekkert nánar. Ég get vonandi gert upp hug minn í kvöld þegar leiðtogaumræðurnar verða í Kastljósinu, en ég er eins og fjöður í vindi í sambandi við þetta. En mikið verð ég glöð þegar "Kæri vinur" og "Ágæti bóndi" pósturinn hættir að berast hingað!

Það er napurt um að litast hér í dag. Gengur á með éljum af og til, ekkert orðið hvítt þó. Bara þetta týpíska sauðburðarveður býst ég við.

Hafið það gott um helgina og kjósið nú rétt (segir sá sem ekkert veit í sinn eigin haus!)
;o)

fimmtudagur, maí 10, 2007

Fjölgun á Stórhóli

Nei, það eru ekki komin folöld. En það eru hins vegar komnar 3 litlar og sætar kanínur hingað ;o) Já, já, þið þurfið ekkert að segja mér að ég sé rugluð, ég veit allt um það. Búin að fá allnokkur andköf og hneykslunarsvip frá fólki, but who cares?

Tvær þeirra eru voða kammó en sú þriðja er svolítið feimin ennþá. Þetta eiga að vera 3 herramenn og vonandi er það rétt, svo maður fari nú ekki að fá óvænta glaðninga einhvern daginn ;o)

Annars er ekkert að frétta, er að fara að gera mig klára í júróvision gláp- er ekkert voðalega bjartsýn á að við komumst áfram...en það er aldrei að vita. Svo fer sem fer eða eitthvað álíka. Eiríkur er náttúrulega langflottastur, ég veit bara ekki alveg hvort aðrir Evrópubúar viti það?

þriðjudagur, maí 08, 2007

Ég er á lífi

Já, það hafðist af að halda afmælið hans Ragnars Loga með pompi og pragt. Allur bekkurinn hans mætti og meira til og þetta gekk svona líka ljómandi vel. Og gaman að spjalla við krakkana, greinilega þónokkrir spekingar í bekknum ;o) Ég gleymdi náttúrulega myndavélinni heima í öllum æsingnum, ekki í fyrsta og öruggulega ekki síðasta skipti sem ég gleymi henni.

Gubbupestin hefur verið að hrjá okkur hérna á hólnum. Fyrst fékk ég hana, Kolbrún á miðvikudaginn seinasta og svo Garðar, Ragnar og Janine á föstudagskvöldið. Ég er búin að þvo ískyggilega marga umganga af rúmfötum,koddum,sængum, teppum og böngsum, fyrir utan gólf og sófa sem hafa líka fengið að kenna á því. Kolbrún heldur meira að segja áfram að gubba, er búin að gubba einu sinni á hverju kvöldi núna í 3 daga. Hún vill greinilega halda mér í æfingu í rúmþvottum, ég get ekki sagt að ég sé neitt sérstaklega ánægð. Garðar er líka þeim eiginleika gæddur að hann bara lokar augunum þegar einhver gubbar og svo þegar hann opnar þau aftur-Abrakadabra!! ælan er horfin! -eins gott að hann lendi ekki í því að vera einn heima með börnin þegar svona gerist ;o)

Garðar fór með veturgömlu folana á Blönduós í geldingu í gær. Og hvað haldiði? Auðvitað var ekki hægt að gelda nema einn þeirra, þrír þeirra eru eineistungar. Lykill (sem hét Trítill), Móskjóni og Mósi hennar Sóleyjar komu því heim aftur með kúluna á sínum stað. Ég held að það sé bara verið að segja okkur að hafa þá graða, einhver að reyna að hafa vit fyrir okkur þarna uppi ;o) Hver veit? Garðari fannst þetta hins vegar ekkert sniðugt...týpískur karlmaður!

Ég er farin að bíða spennt eftir fyrstu folöldunum, sem koma líklega um miðjan mánuðinn. Reyndar eru tvær geldar, kannski þrjár, sem okkur finnst leiðinlega mikið. Yfirleitt aldrei verið nema mesta lagi ein á ári sem hefur verið geld. Plús það að ein er líka búin að láta. Alltaf sami skaðinn á Stórhól, það er ekki að spyrja að því :o/

Við erum rétt byrjuð að háþrýstiþvo í fjárhúsunum, þetta potast allt saman. Erum að vona að við getum klárað mestu inniþrifin núna í maí, þá er malarkeyrslan og allt það eftir. Svo þarf að plægja niður skítinn úr húsunum, það er eitt og annað sem þarf að gera þessa dagana.

Kálfurinn Krissi tórir enn. Þó ekki meira en það, þar sem hann drekkur ósköp takmarkað finnst okkur. Virðist ómögulega fatta að sjúga, ég held að hann sé pínu þroskaheftur greyið. Það er búið að reyna alls konar hundakúnstir á hann en ekkert virkar. Þannig að ef þið lumið á góðu ráði þá megið þið alveg láta mig vita ;o)

Ég er búin að hleypa fiðurfénaðinum mínum út í veðurblíðuna. Endurnar rúnta um alla jörðina eins og venjulega, ég vona bara að þær fari nú ekki á upp á veg eins og þær gerðu í fyrra, ekki viss um að það hafi allir vegfarendur mikla þolinmæði að bíða eftir að þær drattist áfram eftir þjóðvegi 1. Ég er ekkert allt of dugleg að loka þær af, mér finnst svo gaman að leyfa þeim að vappa um (plús það að ég er allt of löt til að nenna því) en það er öllu verra að tína upp eggin þeirra hist og her. Þetta eru hamingjusamar og frjálsar hænur og endur sem búa hér sjáiði til ;o)

fimmtudagur, maí 03, 2007

Styttist í afmæli



Ragnar Logi á afmæli á sunnudaginn. Litla barnið mitt að verða 7. ára! Það verður heljarinnar partý í félagsmiðstöðinni á mánudaginn. Það þarf allt að vera eftir kúnstarinnar reglum, diskarnir verða að vera svona, glösin svona, boðskortin svona, maturinn svona, svona mætti lengi telja. Það var nú bara skítur á priki að halda giftingarveisluna forðum miðað við þetta! Gráu hárunum hefur fjölgað allverulega síðustu daga skal ég segja ykkur...


Fór í Bónusferð með Olgu í gær. Ég er sem sagt ekki í BónusíBorgarnesimeðOlgu-straffi lengur. Þið munið kannski eftir köttunum sem ég kom heim með seinast þegar ég fór með Olgu í verslunarferð? Garðar er ekki búinn að gleyma því , þó hann sé nú búinn að fyrirgefa mér það svona innst inni;o)

Ég var ósköp stillt í þessari ferð, kom bara heim með heilmikið af drasli fyrir afmælisveisluna og sælgæti handa Garðari. Hefðum ekki getað komið einu brauði í bílinn í viðbót, hann var svo smekkfullur af vörum.

Talandi um verslunarferðir; ég fór í kaupfélagið mánudaginn fyrir 1.maí og viti menn- það var ekki til nýmjólk í búðinni?! Frídagur daginn eftir og engin mjólk. Ég hef aldrei rekið verslun, en kommon- það hlýtur að vera hægt að eiga helstu nauðsynjar fyrir fólk?? Held að ég fari bara að keyra á Blönduós einu sinni í viku, nenni ekki svona bulli aftur og aftur. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist. Já, ég get pirrað mig á ýmsu þessa dagana ;o)


Og þar sem pirringurinn í mér er í hámarki þessa dagana ætla ég ekki að hafa þetta lengra. Það gæti endað með því að ég skrifaði einhverja óskaplega vitleysu og kæmi mér í vandræði í kjölfarið. Sem myndi auka enn frekar áðurnefndan pirring. Læt heyra í mér eftir afmælið...ef ég verð á lífi eftir það þeas!