Já, það hafðist af að halda afmælið hans Ragnars Loga með pompi og pragt. Allur bekkurinn hans mætti og meira til og þetta gekk svona líka ljómandi vel. Og gaman að spjalla við krakkana, greinilega þónokkrir spekingar í bekknum ;o) Ég gleymdi náttúrulega myndavélinni heima í öllum æsingnum, ekki í fyrsta og öruggulega ekki síðasta skipti sem ég gleymi henni.
Gubbupestin hefur verið að hrjá okkur hérna á hólnum. Fyrst fékk ég hana, Kolbrún á miðvikudaginn seinasta og svo Garðar, Ragnar og Janine á föstudagskvöldið. Ég er búin að þvo ískyggilega marga umganga af rúmfötum,koddum,sængum, teppum og böngsum, fyrir utan gólf og sófa sem hafa líka fengið að kenna á því. Kolbrún heldur meira að segja áfram að gubba, er búin að gubba einu sinni á hverju kvöldi núna í 3 daga. Hún vill greinilega halda mér í æfingu í rúmþvottum, ég get ekki sagt að ég sé neitt sérstaklega ánægð. Garðar er líka þeim eiginleika gæddur að hann bara lokar augunum þegar einhver gubbar og svo þegar hann opnar þau aftur-Abrakadabra!! ælan er horfin! -eins gott að hann lendi ekki í því að vera einn heima með börnin þegar svona gerist ;o)
Garðar fór með veturgömlu folana á Blönduós í geldingu í gær. Og hvað haldiði? Auðvitað var ekki hægt að gelda nema einn þeirra, þrír þeirra eru eineistungar. Lykill (sem hét Trítill), Móskjóni og Mósi hennar Sóleyjar komu því heim aftur með kúluna á sínum stað. Ég held að það sé bara verið að segja okkur að hafa þá graða, einhver að reyna að hafa vit fyrir okkur þarna uppi ;o) Hver veit? Garðari fannst þetta hins vegar ekkert sniðugt...týpískur karlmaður!
Ég er farin að bíða spennt eftir fyrstu folöldunum, sem koma líklega um miðjan mánuðinn. Reyndar eru tvær geldar, kannski þrjár, sem okkur finnst leiðinlega mikið. Yfirleitt aldrei verið nema mesta lagi ein á ári sem hefur verið geld. Plús það að ein er líka búin að láta. Alltaf sami skaðinn á Stórhól, það er ekki að spyrja að því :o/
Við erum rétt byrjuð að háþrýstiþvo í fjárhúsunum, þetta potast allt saman. Erum að vona að við getum klárað mestu inniþrifin núna í maí, þá er malarkeyrslan og allt það eftir. Svo þarf að plægja niður skítinn úr húsunum, það er eitt og annað sem þarf að gera þessa dagana.
Kálfurinn Krissi tórir enn. Þó ekki meira en það, þar sem hann drekkur ósköp takmarkað finnst okkur. Virðist ómögulega fatta að sjúga, ég held að hann sé pínu þroskaheftur greyið. Það er búið að reyna alls konar hundakúnstir á hann en ekkert virkar. Þannig að ef þið lumið á góðu ráði þá megið þið alveg láta mig vita ;o)
Ég er búin að hleypa fiðurfénaðinum mínum út í veðurblíðuna. Endurnar rúnta um alla jörðina eins og venjulega, ég vona bara að þær fari nú ekki á upp á veg eins og þær gerðu í fyrra, ekki viss um að það hafi allir vegfarendur mikla þolinmæði að bíða eftir að þær drattist áfram eftir þjóðvegi 1. Ég er ekkert allt of dugleg að loka þær af, mér finnst svo gaman að leyfa þeim að vappa um (plús það að ég er allt of löt til að nenna því) en það er öllu verra að tína upp eggin þeirra hist og her. Þetta eru hamingjusamar og frjálsar hænur og endur sem búa hér sjáiði til ;o)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli