fimmtudagur, júní 21, 2007

Ég var búin að skrifa

alveg heljarinnar pistil hérna í gær, sem svo hvarf eins og dögg fyrir sólu. Og í dag er ég alveg andlaus og man ekkert hvað það var sem var svona óskaplega gáfulegt og merkilegt sem ég pikkaði inn. Sem bendir til þess að það hafi ekki verið mjög bitastætt og því get ég varla grátið það að hann hafi ekki skilað sér á síðuna.

Ekkert merkilegt í fréttum, Garðar háþrýstiþvær timbur alla daga og ég planta sumarblómum í alla mögulega og ómögulega blómapotta. Og svo koma hundarnir og kettirnir í kjölfarið og naga blómin mér til ómældrar ánægju...eða þannig.

Eitt af því skemmtilegra sem ég geri er að kaupa sumarblóm. Það er til svo mikið af fallegum blómum og ótrúlegt en satt, geta sum þeirra lifað allt sumarið hérna hjá mér -þeas. ef þau fá frið fyrir hinum ýmsu dýrum sem búa hér. Sem betur fer var Garðar ekki með í för þegar ég fór og verslaði blómin, honum hefði blöskrað eyðslan í kerlingunni og sett mig í sumarblómakaupstraff...svona fyrst að ég er laus úr Bónusstraffinu ;o)
Ég var búin að fylla í alla mjólkurbrúsa sem til voru af blómum, þannig að ég ákvað að færa mig upp aðeins upp á skaftið og fór að spyrja Garðar hvort hann ætti ekki eins og eitt myndarlegt traktorsdekk fyrir mig til að planta blómum í.
Þið sem þekkið Garðar vitið að hann er nefnilega ansi duglegur í að sprengja dekkin á traktorunum.
Það eina sem hann gat hins vegar boðið mér var lúið dekk undan skítadreifara. Uhhhh....nei takk. Ég held að ég reyni þá bara að finna eitthvað annað, nóg er til af draslinu hérna og það hlýtur að vera hægt að troða blómum í eitthvað af því!
Jæja, nú er víst best að hætta, Kolbrún var að koma inn með bólgið og blóðugt nef; Garðar sem er þessi týpíski karlmaður (kvenfólk veit hvað ég á við), sveiflaði einni spýtunni beint framan í Kolbrúnu, "sem átti ekki að standa þar sem hún stóð, allavega var hún ekki þarna rétt áðan!"
Bið að heilsa í bili..

Engin ummæli: