Búin að vera tölvulaus í að mér finnst heila eilífð.
Ég hafði það loksins af að koma tölvunni í viðgerð, það var búið að standa til í marga mánuði en ég hafði nú alltaf hummað það af mér. Það kom þá náttúrulega að því blessuð tölvan hætti algjörlega að hlýða mér, ég vissi alveg upp á mig skömmina með það og sendi hana því loks af stað til höfuðborgarinnar. Nú er bara að vona að hún hætti að láta eins og asni við mig, hún hefur nefnilega verið að kveikja og slökkva á sér í tíma og ótíma, ansi pirrandi þegar maður hefur ekki vit á að seifa það sem maður er að gera :/
Annars er allt tíðindalítið, heyskapurinn ekki enn byrjaður á Stórhóli en ég býst við að við byrjum á Hrísum í næstu viku. Við ætlum að reyna að taka heima-heyið í þurrrúllur, við höfum bara ekkert að gera með allt þetta hey. En vafalaust verður ágúst mánuðurinn blautur, þó ekki nema bara af því að við ætlum að heyja í þurrrúllur! Það er allt hreinlega að skrælna hérna, kemur ekki dropi úr lofti og rigningin virðist ekkert vera á leiðinni á næstunni.
Tryppin komust á heiðina eftir heilmikinn eltingarleik, og eitt er víst; við stríðum ekki Svenna meira á óþekku hrossunum hans ;o)
Kýrnar 2 og kvígan litla fengu loksins að fara út fyrir um viku síðan, að sjálfsögðu gekk það ekki áfallalaust fyrir sig frekar en annað hér á bæ. Kvígan hljóp upp á þjóðveg af því að hún missti af kúnum þegar þær hentust um í rassaköstum, það var okkur til happs að kvígan er svo skelfilega feit að hún var sprungin eftir nokkurra metra hlaup! Þannig að Garðar og Svenni gátu fylgt henni aftur inn í hólfið án nokkurra vandræða. Þær eru í sama hólfi og eineistungarnir okkar, þið hefðuð átt að sjá upplitið á þeim þegar beljurnar komu æðandi til þeirra með rassinn upp í loft!! Aldrei sést sperrtari skepnur á Stórhóli held ég ;o) Við erum viss um að annað hvort er eistað sem komið var niður með öllu horfið, eða þá að hitt hafi skoppað niður í öllum hamaganginum!
Enda þetta á mynd af Garðari og Amadeus, en Garðar reið með bræðrum sínum og fleirum hingað heim frá Blönduósi. Garðar var orðinn svo rasssár að hann var farinn að standa í hnakknum síðasta spölinn ;o)
Og ég sat inni í bíl og hló...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli