mánudagur, maí 28, 2007

Það skiptast á skin og skúrir

og þá á ég bæði við í veðrinu hérna sem og lífinu sjálfu. Ný folöld hafa fæðst en því miður dó eitt þeirra, brúnhöttóttur hestur. Við vitum nú ekki af hverju það dó, við höldum að það hafi bara króknað því það fæddist þegar það var slyddudrulla hérna og kalt. Svo þurfti merargreyið endilega að kasta út í mýri þannig að það hefur verið erfitt fyrir folaldið að komast á lappir til að ná í ylvolgann sopann hjá mömmu sinni.


Það var svo reynt að venja annað folald undir merina, en það folald var fætt mánuði fyrir tímann og lifði því miður ekki heldur. Alveg ótrúlegt hvað merin var góð, þetta er hross sem hefur aldrei verið snert, annað skipti sem hún er sett í kerru á ævinni og hún var eins og ljós allan tímann! Við gátum meira að segja mjólkað hana eins og við vildum- hún stóð eins og stytta. Enda tók hún strax við nýja folaldinu en því miður fór sem fór. Það vantar ekki brasið í búskapinn :o/

Krissi gaf líka upp öndina um helgina. Við bjuggumst nú alveg við því, hann var bara ekki eins og hann átti að vera. Eitthvað klikk í meltingunni held ég, AB mjólkin var semsagt gagnslaus í þessu tilfelli..

Leikskólinn og skólinn að verða búinn, mikið er ég fegin því það er orðið ómögulegt að koma krökkunum í rúmið á skikkanlegum tíma. Og í kjölfarið alveg hundleiðinlegt að koma þeim á lappir á morgnana.

Húfa kastaði um helgina, kom með jarpskjótt- kynið veit ég ekkert um því þær mæðgur Húfa og Jarpskjóna voru vægast sagt ljónstyggar og leyfðu mér ekkert að koma nálægt.
Náði einni mynd af því á harðahlaupum á eftir Húfu, það er fallega rauðjarpskjótt sem ég er mjög ánægð með, því Jarpskjóna kom nefnilega með dökkjarpskjótt.




Ég fór með Valgerði í skoðun í vikunni, sem betur fer segi ég því hún var komin með mikla eyrnabólgu. Annars var hún ekkert búin að vera neitt voðalega óróleg, tók svona ágætis tarnir (5 mínútur eða svo :o) og svo bara allt í lagi. Hún fékk sýklalyf hjá lækninum og núna er hún alveg pollróleg eins og henni einni er lagið. Ég hef aldrei þekkt nokkurt barn sem hefur verið svona svakalega rólegt, svei mér þá, ég hélt ekki að svona börn væru til!

Garðar plægir eins og vitlaus væri, það verður nóg að gera í steinatínslunni í sumar! Hann er byrjaður að plægja löngu túnin niður frá og eins og annars staðar hérna er svona einn og einn steinn sem lætur sjá sig ;o) Það er um að gera að gera þetta á meðan við erum fjárlaus svo þetta fái einhvern frið til að verða almennilegt.

Jæja, læt þetta duga í þetta skiptið, nóg komið í bili ;o)

Engin ummæli: