fimmtudagur, júní 14, 2007

Það hafðist af


Folald undan Alvari og Skessu
að koma stóðhestinum á sinn stað, með hvorki meira né minna en 29 hryssur! Dágóður slatti myndi ég segja! Ég hafði það líka af að taka heilar 120 myndir í tilefni dagsins, ég hendi inn myndum af folöldum á myndasíðuna eins hratt og mín góða nettenging leyfir.

Þetta gekk allt býsna vel með góðri hjálp frá Nonna, Víði og Svenna, að sjálfsögðu máttum við elta hrossin hingað og þangað en það fylgir nú bara svona brasi. Allt fór á réttan stað á endanum og þá er nú í lagi þó karlarnir þurfi aðeins að hlaupa spikið af sér ;o)


Varmi kominn á veginn.


4.vetra voru tekin inn, Varmi og Sandra. Varmi henti sér nú strax á hliðið á réttinni og hljóp því út um allt og endaði með reiðhestunum inni í gerðinu. Meira fiðrildið sem ég á! Það verður eitthvað fjörið að temja hann skal ég segja ykkur!

Svo voru eineistungarnir að sjálfsögðu teknir inn líka. Nú er bara að fara að klípa í til að athuga hvort nú finnist tvær kúlur í stað einnar..


Ég reyndi sem mest ég mátti að kyngreina öll folöld, en eftir að ég var búin að kíkja undir stertinn á einum 7 stykkjum mátti ég játa mig sigraða. Það er víst betra að hafa blað og skriffæri þegar maður stendur í svoleiðis löguðu, allavega er það ekki fyrir minn litla heila að muna.


Skundi fékk far heim eftir öll hlaupin..


Hitinn var eiginlega of mikill fyrir greyið hrossin. Folöldin voru rennsveitt og héngu á spenanum nærri stanslaust. Þess á milli dormuðu þau við hliðina á mömmu sinni, alveg ógurlega þreytt! Folaldið undan Gránu hennar Kolbrúnar var nú bara við það að falla um koll af þreytu!

Það þyngdist heldur á mér brúnin þegar á leið, því nú var víst komið að því að taka hana Von mína úr ásamt tveimur öðrum sem fara undir aðra hesta. Já, það er víst komið að leiðarlokum, alltaf erfitt að láta frá sér hross sem hafa fylgt manni síðan maður var smákrakki. Það var ekki langt í að tárin læddust niður kinnarnar þegar hún var teymd úr hópnum og kökkurinn í hálsinum stækkaði með hverri mínútunni sem leið. Það er bara vonandi að sú veturgamla sem ég á undan henni verði jafnmikil kempa og sú gamla, þá verð ég glöð með mitt!
Læt þetta duga,annars endar þetta með því að ég set inn allar 120 myndirnar sem ég tók!

1 ummæli:

Hallfríður Ósk sagði...

æi knús á þig, skil þig svoooo vel.
Kem í heimsókn bráðum og við getum grenjað saman yfir hryssunum okkar. Nú eða fundið okkur eitthvað skemmtilegra að tala um