Ég hef ekki haft neinn tíma í að fara að skoða folöldin þar sem við erum að reyna að basla við að halda lífi í einu folaldi sem virðist alveg ómögulega geta fattað að fara á spena. Það er svo máttlaust og virðist ekki hafa neina krafta til að sjúga merina. Þannig að ég er að reyna að mjólka merina og blanda einhverju mjólkursulli saman handa því til að reyna að fá einhvern kraft í það. Er ekki ýkja bjartsýn á framhaldið satt best að segja...
En þar sem ég var búin að lofa að setja inn myndir af Mjölni er víst best að standa við það ;o)
Klárinn er virkilega fallegur og mjög prúður í umgengni, við settum hann bara beint í merar þegar hann kom, þar sem plássið í hesthúsinu er orðið af skornum skammti út af veika folaldinu. Enda engin ástæða til að láta þetta hanga inni að ástæðulausu. Folinn var líka guðslifandi feginn að komast út á lífið ;o)
Jæja, hef engan tíma í þetta, farin að hræra saman mjólk, eggjum og hunangi og kveð í bili..
5 ummæli:
Snyrtilegasti foli og flottur litur
Verður fróðlegt að sjá hvaða litir koma á folöldin næsta vor, svona fyrst að erfðavísindin virðast ekki fylgja sömu lögmálum á Stórhólnum og annars staðar:)
Hann er alla vega ekki hringeygður sem er ótvíræður kostur.
Gangi ykkur vel með folaldið
Hún kom hérna í heimsókn eigandi Alvars og hún sagði mér að það gæti alveg komið jarpt undan brúnu og brúnu ef það væri jarpt á bak við þau ;) Þau hefðu sjálf ma. fengið jarpt undan honum og það var brún meri sem kom með það. Þannig að við erum víst ekki þau einu sem getum beygt þetta blessaða lögmál eitthvað til ;)
Já, það gætu komið einhverjir skemmtilegir litir á næsta ári, reyndar er mér farið að kvíða því :þ
ok, þá hefur minnið væntanlega bara verið að svíkja mig og biðst afsökunar á því!!
Ég er enn ekki sannfærð um að hann Alvar sé í raun fæddur brúnn enda get ég verið pínulítið þrjósk ef mér finnst tilefni til... (kíkti líka inn á vísindavefinn og skilgreining á jörpum litaerfðum þar samræmist mínum upplýsingum)... annars væri nú ekkert leiðinlegt að hafa meri til að skella í stóðið til ykkar og vonast svo eftir svona fallegu og fallega litu eftir ár:)
Heyrðu þú gætir nú átt von á miklum glaðningi væntanlega ef þú kæmir nú með Skjónu þína undir hann. Ég ætla hins vegar ekkert að tjá mig um mögulegar litaútkomur þar sem þið systur eruð alltaf bara með snúð við mig og mína liti ;)
Skrifa ummæli