Eftir heilmikla lægð í folöldafæðingum rættist heldur betur úr því í dag og gær. Hvorki meira né minna en 7 folöld sem komu í þessari bunu. Hef ekki enn náð að skoða þau eða taka myndir af þeim, skelli mér í það eins fljótt og ég get og um leið og styttir upp hérna. Það er búið að rigna alveg svakalega mikið svona inn á milli í dag, sem er frábært því það var allt orðið hálf skrælnað hérna og úthagi ekkert farinn að taka við sér að ráði. Og hitinn sem betur fer á uppleið, hann var að verða ansi þreytandi þessi endalausi kuldi. Vænti þess að góður kippur komi í þetta núna og stóðhesturinn komist því í merarnar eftir næstu helgi.
Talandi um stóðhesta; klárinn sem við verðum með í sumar var byggingardæmdur í vikunni á Gaddstaðaflötum og fékk þennan líka fína dóm. 8,44 fyrir byggingu takk fyrir! Svo skemmir nú ekki liturinn, en hann er bleikskjóttur. Ég sé fram á erfitt næsta ár í folalda ásetningi ;o)
Þessi hestur heitir Mjölnir frá Héraðsdal og er undan Hilmi frá Sauðárkróki. Hann á að koma til okkar á mánudaginn, að sjálfsögðu læt ég Garðar prófa gripinn og sjá hvort hann er eitthvað meira en útlitið blessaður. Og ég verð á vísum stað-með myndavélina á lofti..
Ætla að segja þetta gott í bili, set engar myndir í þessari færslu þar sem ég býst við að hafa ríflegt magn af þeim í þeirri næstu. Vafalaust einhverjir sem eru jafn illa tengdir og ég sem blóta þessum endalausu myndum sem ég treð hér inn! Eða er ég orðin sú eina sem bý með ISDN+, sem átti að vera svo MIKLU BETRI en sú tenging sem ég hafði. Hef nú ekki fundið það nema á einn hátt; mun hærri símreikningi...
Eitt enn, þið eruð nú meiri dónarnir að minnast ekkert á breytt útlit síðunnar, kostaði blóð, svita og tár að breyta þessu (ok...smá ýkjur :)! Hnusssssss....!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Heyrðu ég er einmitt búin að vera á leiðinni að minnast á breytingarnar. Mjög flott en hvernig setur maður svona myndir í hausinn á síðunni. Mig langar að geta gert svoleiðis:)
Verður spennandi að fá að sjá myndir af þessum glæsigrip, dómurinn gerist alla vega ekki mikið betri og bara vonandi að restin sé í samræmi við það
Kveðja frá sólbrunna sveitalubbanum
ég hitti þig á msn og reyni að útskýra það fyrir þér ;)
Hæ hæ, hef einmitt verið að dást að útlitinu á síðunni sem og myndum af börnum og búpeningi. Við vorum að fá eitt folald í fyrradag líklega, sá það í gær, agalega fallegt að sjálfsögðu.
Bestu kveðjur í bæinn
Anna Magga
Skrifa ummæli