sunnudagur, maí 20, 2007

Númer 3

Ósköp eru þetta vesæl bloggskrif hjá mér, ekkert gerist nema að ný folöld komi í heiminn. Hálf skammarlegt að sitja við tölvuna og blogga einhverja bölvaða vitleysu þegar flestir aðrir sem við þekkjum eru á kafi í sauðburði þessa dagana! Já Hallfríður; ég skil alveg ósköp vel hvernig þér líður, við skulum bara vona og trúa að við getum tekið þetta með trompi þegar að því kemur og við fáum tækifæri til ;o)

En áfram með Glæstar Stórhóls-Vonir ;o) - hún Jörp mín frá Stórhóli kastaði í nótt. En að sjálfsögðu gat það ekki gengið snuðrulaust fyrir sig; hún Þota þurfti að taka upp á því að stela folaldinu! Bölvuð p..... er geld þetta árið og það var ekki að spyrja að því að hún ákvað að næla sér í eitt folald í sárabætur. Þota er þessi brúna á myndinni en það er þessi dökkjarpa sem á það. Folaldið saug og saug Þotu en auðvitað var sá dropi ansi þunnur.



Það var kominn óttalegur kengur í hestinn litla og ekki var það nú til að bæta útlit þess, þar sem það er bæði lítið og ósköp ljótt (þó svo að folöld séu nú alltaf ósköp sæt). Við náðum að taka Þotu frá folaldinu og það endaði með að við máttum taka hana inn því hún var jú kolvitlaus yfir því að missa folaldið sitt!



Nú, þeir sem kannast við hana Jörp frá Stórhóli, vita að hún er ekki beint lamb að leika sér við. Hún æðir áfram eins og hraðskreið lest og ekkert má verða á vegi hennar. Hún vildi folaldið en vildi það samt ekki, og ekki er hlaupið að því að halda henni á meðan folaldið sýgur. Þannig að hún var látin dúsa í allan dag með folaldið hjá sér í réttinni og sem betur fer fór þetta allt á hinn besta veg. Folaldið fékk loksins að sjúga hana og Jörp losnaði líka við hildarnar sem við vorum farin að vera áhyggjufull um að færu ekki af sjálfsdáðum. Guð hjálpi mér ef við hefðum þurft að fá dýralækni til að taka hildarnar úr henni!



Liturinn á folaldinu....hmmm...best að segja minnst um hann, Hallfríður rekur hann ofan í mig öfugan og því best að láta ykkur dæma litinn sjálf. Reyndar finnst mér persónulega folaldið vera bara brúnt en samt kannski dökkjarpt, sem verður svo kannski grátt ;o)



Ég sé ekki fram á það að geta gefið henni Vöku minni nýtt nafn eins og staðan er í dag. Hún er bara alls, alls ekki eins og hún á að vera. Ingunn er búin að skoða hana aftur og getur ekki bent á neitt sérstakt sem hrjáir hana, nema það að henni líður illa alls staðar. Sem er alls ekki gott svar. Við erum búin að vera með hana á sýklalyfjum, bólgueyðandi og verkjastillandi nærri því samfleytt síðan slysið gerðist en því miður þrífst hún ekki nógu vel. Við tókum upp á því í dag að gefa henni AB mjólk, en við erum búin að vera að gefa Krissa AB mjólk að ráði pabba og ákváðum að gefa henni bara líka fyrst við værum að þessu AB sulli. Hún getur allavega ekki orðið verri greyið, ég ætla nú ekki að gefa hana upp á bátinn strax. Það væri náttúrulega bara best að koma henni út á græn grös, en það er bara svo skelfilega kalt alla daga og hún hímir bara í kuldanum. Garðar hefur haft hana í smá hólfi á daginn til að leyfa henni að bíta, en eins og ég segi vantar að pota hitastiginu aðeins meira upp hérna...heyrirðu það Hallfríður!


Best að enda þetta á mynd af grislingunum þremur fyrir mömmu, þar sem ég veit að hún hefur afskaplega takmarkaðan áhuga á hrossum og einhverju þeim tengdu..












1 ummæli:

Hallfríður Ósk sagði...

sko ég er alveg að vinna í þessu en góða veðrið bara kemur alltaf aftur!!
Samþykki hvaða lit sem er undan þessari meri eða næstum því. Hvort sem það væri brúnt, jarpt eða grátt þannig að núna mátt þú bara ráða:)
En stend ennþá við það sem ég hef sagt um hitt, hef samt ennþá ekkert til að staðfesta það, þeir eiga svo lítið af bókum um íslenska hrossaliti hérna úti og ég finn ekkert á netinu, sama hvað ég leita.
En að lokum, leiðinlegt með hana Vöku þína, ótrúlega dapurlegt þegar ekki gengur eins og á að gera með þessi grey, er að upplifa það sjálf þessa dagana.
Svo að lokum, flott mynd af grislingunum
kv