Það er best að byrja á að óska ykkur gleðilegs sumars og segja takk fyrir veturinn :o)
Sumarið byrjar reyndar ekkert sérstaklega vel hérna á bænum.
Á einhvern óskiljanlegan hátt hafði henni Vöku minni tekist að losa sig af básnum sínum í hesthúsinu, labba allan fóðurganginn (sem var reyndar lokaður með keðju), opna hurðina inn í hlöðu og komast þar inn. Þegar Janine fór að gefa í morgun þá stóð Vaka í heyinu inni í hlöðu og þegar hún sá stelpuna ákvað hún að skella sér inn á einn garðann í fjárhúsunum. Þar sem að búið er að moka út úr húsunum er ansi djúpt niður í krærnar og Garðar reyndi því að láta hana bakka allan garðann til baka. Honum tókst að láta hana bakka alveg að hurðinni á hlöðunni en þá vildi ekki betur til en að hún stökk yfir garðabandið og ofan í krónna. Og þar sem lánið leikur nú alltaf við mig og mín hross að þá tókst henni að lenda á heykvísl og stakkst hún í magann á henni! Enginn skilur hvernig í ósköpunum heykvíslin var komin ofan í krónna og hvað þá með kvíslina upp í loft?! Við höllumst helst að því að heykvíslin hafi staðið í hurðargættinni og dottið svona niður þegar hún hljóp inn á garðann.
Uppi varð fótur og fit og ég hringdi í dauðans ofboði í Ingunni dýralækni sem var mætt á mettíma. Og ótrúlegt en satt (miðað við mína heppni í það minnsta!), að þá var hægt að sauma saman gatið eftir kvíslina, en hún hefur samt líklega gert gat á annað lungað í sér þar sem hún andar ekki eðlilega. Þannig að nú er bara að bíða og sjá, við vitum svo sem ekkert hvernig þetta fer ennþá, en við erum í það minnsta nokkuð bjartsýn eins og er. Og ef hún tórir blessunin ætla ég að endurskíra hana; og ætli nafnið Ófeig verði ekki fyrir valinu, því ég er búin að missa 3 önnur hross undan Von (sem þessi er semsagt undan) og mér finnst það miklu meira en nóg.
Reyndar sagði ég við Garðar í fyrradag að ég ætlaði að endurskíra hana þar sem að nafnið Vaka passar bara alveg ómögulega við hana. Sé alltaf fyrir mér að það sé skeiðhross sem ber þetta nafn, Vaka/Ófeig mín er svo skelfilega klárgeng að hún ætlar alveg að drepa Garðar þegar hann fer á hana ;o) Hún hefur kannski frétt þetta og ákveðið að hjálpa mér í nafnavalinu, þar sem ég var alveg strand á því hvað hún ætti eiginlega að heita!
Annars er allt bærilegt í fréttum, það er allt búið að vera á rúi og stúi hérna innanhúss, en við vorum að breyta stofunni. Alltaf verið að brasa einhvern fjandann!
Gleymdi alveg að segja ykkur frá kálfinum hans Garðars; honum Krissa ;o)
Kristófer í Finnmörk hringdi í Garðar á föstudaginn langa og sagði honum að ef hann kæmi strax mætti hann eiga kálf sem að ein holdakýrin vildi ekki. Garðar tjúnaðist að sjálfsögðu alveg upp og brunaði upp eftir og náði í kálfinn. Það gekk hálf brösulega að koma mjólkinni í hann fyrst þar sem hann hafði lítið sem ekkert drukkið í 3 daga eftir að hann fæddist, en hann er allur að koma til núna. Og Garðar alveg hæstánægður með gripinn, sannfærður um að hann hafi bjargað geðheilsu hans þennan sauðburðinn...
Á morgun er stefnan sett á Hvammstanga til að byrja með, en hún Kristin Birna er að fermast á morgun. Svo verður vonandi brunað á Krókinn á eftir, þar sem við ætlum okkur að komast á Tekið til kostanna. Að vísu er veðurspáin ekki til að hrópa húrra fyrir, en vonandi er ekkert að marka hana í þetta skiptið ;o)
Set inn myndir af bágbornum búskapnum okkar og kannski af sýningunni þegar tími gefst til ;o)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
þið misstuð af alveg ægilega skemmtilegum skeifudegi hér sunnan heiða!
Skrifa ummæli