Já, það er búið að kveikja á hluta af jólaljósunum hér á bæ. Slönguserían á íbúðarhúsinu var endurnýjuð, það kom í ljós að hún hreinlega bara brotnaði í sundur þegar var farið að eiga við hana þannig að ekki þýddi annað en að setja bara nýja. Garðar fékk það hlutverk í þetta skiptið að príla upp í stigann, svo sem komin tími á að hann fái að finna hvað þetta er asskoti erfitt! Þetta gekk nú ekki áfallalaust fyrir sig, við vorum hálfnuð með að hengja á húsið þegar einn meterinn á slöngunni gaf upp öndina og við máttum byrja upp á nýtt eiginlega, rífa niður slönguna og skeyta saman. Mikið óskaplega eru þessi tengi leiðinleg, við eyðilögðum öruggulega þrjú tengi áður en okkur tókst að koma þessu saman, reyndar hangir hún bara saman á heppninni núna held ég- því við urðum að púsla saman hinu og þessu til að geta tengt þetta. Núna er þá bara hlaðan eftir, ég verð að fara að redda mér meiri slöngu, þar sem að allir 50 metrarnir mínir enduðu á íbúðarhúsinu c",)
Við fengum "skemmtilega" heimsókn á laugardagskvöldið; enginn annar en Herbert Guðmundsson var mættur til að reyna að selja okkur bækur. Og....já ég er engu skárri en mamma var í den, auðvitað gat ég ekki annað en keypt af kallinum, enda fengum við áritaðan disk frá honum með bestu lögunum hans í kaupbæti. Hvenær bækurnar verða lesnar veit ég ekki- Garðari leist meira að segja vel á þær og hann er nú ekki mikill bókamaður! Ég skal láta ykkur vita hvernig bækurnar eru þegar hann er búinn að renna í gegnum bindin þrjú...
Annars er ein mesta lesning þessa heimilis komin út; Hrútablaðið skilaði sér í vikunni og núna er mikið spáð og spekúlerað í hrútum. Annars er Garðar ósköp lítið spenntur fyrir sæðingunum núna, sér ekki fram á að það verði nokkur tími í svona dúllerí. Ætli það endi ekki með að það verða bara engir hrútar settir í þetta árið, það er hvort eð er enginn tími til að taka á móti lömbunum c",)
Okkur líst nú vel á Bergstaðahrútana, spennandi að fá þá inn á stöðina og vonandi eiga þeir eftir að koma vel út, alveg frábærir einstaklingar greinilega.
Ég er ekki ennþá búin með rollubókhaldið, ég bara nenni EKKI að vesenast í þessu þegar ég hef ekki algjöran frið. Kolbrún hamast á lyklaborðinu um leið og hún kemst í það, ýmislegt er búið að hverfa úr tölvunni hjá mér upp á síðkastið- guð má vita hvar það er niðurkomið. Svo sefur hún svo stutt á daginn að ég er rétt búin að brynna, hengja út á snúruna og taka úr uppþvottavélinni þegar hún er vöknuð aftur. Óþolandi stutt gleði semsagt.
Ég verð svo að fara að skella inn nýrri mynd af fjárhúsunum, fyrsti garði er að verða klár sem og fóðurgangurinn, allavega er komin mynd á þetta innanhúss. Bjössi greyið tók sér frí um helgina, hann var orðinn alveg útbrunninn karlgreyið. Enda er hann búinn að vinna frá morgni til kvölds síðan í byrjun nóvember.
Jæja, hætt þessu bulli í bili...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli