Við fórum í gær til höfuðborgarinnar til að láta taka nefkirtlana úr Kolbrúnu. Það tók ansi fljótt af, hún var kannski í korter inni hjá lækninum og svo var bara beðið eftir að hún vaknaði eftir aðgerðina. Hálfgerð færibandavinna fannst mér, hún var ekki fyrr vöknuð en það var byrjað að ýta okkur nær og nær útgönguleiðinni. Fengum ælubakka í hönd og svo vorum við kvödd með det samme. Ekki það að mér finnist sérstaklega gaman að hanga inni á svona stöðum, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera!
Við ákváðum að taka enga sénsa og vorum eina nótt fyrir sunnan, bæði þar sem við vildum ekki vera að flækjast með Kolbrúnu svona hálfslappa og líka af því að veðrið var svo andskoti leiðinlegt. Ekkert spennandi að vera fastur upp á heiði með tvö börn. Þannig að Fríða var svo elskuleg að redda okkur gistingu á vægu verði á Fjörukránni (eða hótelinu þar...ekki á barnum sjálfum!) -ekki slæmt skal ég segja ykkur. Alltaf gaman að gista á hóteli svona eins og eina nótt, það gerist nú ekki svo oft. Verst að við vorum orðin svo þreytt að við vorum sofnuð kl. 22:30 eða um það bil!
Svo var bara brunað af stað í morgun, með stoppi í Bónus í Borgarnesi, þurftum að vísu að hanga þar í klukkutíma þar sem búðin opnaði ekki fyrr en kl. 12:00. Við rúntuðum bara um bílasölurnar þangað til hún opnaði og skoðuðum alveg óheyrilega mikið magn af ryðguðum vögnum og vörubílum. Garðari fannst þeir alveg rosalega flottir og fínir, ég var ekki eins hrifin satt best að segja..
Annars er lítið að frétta, ég hafði það af að verða þrítug á sunnudaginn var, finn nú ekki mikinn mun á mér enn sem komið er. Fékk leiðindaveður í afmælisgjöf, ég er reyndar alvön því. Get talið þau á fingrum annarrar handar góðu afmælisveðrin sem ég hef fengið um ævina. 'Eg held svei mér þá að marsmánuður sé leiðinlegasti mánuður ársins!
Læt þetta duga, ætla að fara að gefa mannskapnum að borða og horfa á veðurspánna, það er víst önnur lægð á leiðinni í heimsókn...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Innilega innilega til hamingju með afmælið góða mín. Ekki hafði ég hugmynd um að það væri um þetta leiti sem þú yrðir svona öldruð:)
Tillitsamt af þér samt að bíða með partýið þar til ég verð komin heim (eða ég ákvað alla vega að lesa það út úr færslunni, veit ekki alveg hvernig en svona er ég nú klár;)
Afmælisknús frá Köben
Já til hamingju með afmælið, heljarinnar áfangi að vera komin á fertugsaldurinn og hálfnuð upp í sextugt :)
Til hamingju með 30 ára afmælið!
Kveðja frá Laugarbakka
Ása
Skrifa ummæli