Svo skelfilega langt síðan ég hef bloggað eitthvað, þannig að ég ákvað að skella inn nokkrum línum- þó svo að ég hafi í raun ekki frá neinu að segja.
Það er búið að rífa út allt heila klabbið í fjárhúsunum, bara eftir að taka garðana út úr nýju húsunum. Rífandi gangur í þessu semsagt ;o) Bjössi á Sporði er byrjaður að grafa út úr þeim, þar sem að stefnt er að því að setja allt á grindur og fínerí. Er það nú ekki skemmtilegra fyrst að þessi fjandi þurfti að koma upp hérna? Við getum eiginlega ekki hugsað okkur að hafa nýju kindurnar á taði, nú erum við orðin svo fanatísk og sjáum skrattann í hverju horni!
Talandi um nýjar kindur; það var viðtal í Ísland í dag í seinustu viku við bónda sem fékk nýtt fé síðastliðið haust. Mikið öfundaði ég hann! Ég er viss um að þegar að því kemur að við megum fá nýjar kindur, verð ég orðin svo upptjúnuð af æsingi og stressi að ég mun vafalaust falla í yfirlið þegar féð mun renna í hlað. Við erum farin að planleggja ferðir nú í haust til að skoða líflambafé...þó svo að við fáum ekki fé fyrr en haustið 2008! Um að gera að skoða það sem í boði er og rabba við bændurna, það skiptir nefnilega líka máli hvernig þeir eru. Ég vil ekkert vera að kaupa fé af einhverjum rembings körlum sem sjá ekkert nema naflann á sjálfum sér! Stefnan er sett á 400 lömb +hrúta á fyrsta árinu, vonandi sem mest hyrnt ;o) Það er þetta með handföngin sjáiði til...svo eru þessar hyrndu bara svo miklu fallegri á svipinn ;o)
Ég held að Ragnar Logi hafi fyrst í seinustu viku fattað fyrir alvöru að féð okkar væri farið. Hann fór í fjárhúsin með Garðari og sá bara ekki neitt í húsunum, hvorki kindur né milligerði eða annað! Nú er æsingurinn svo mikill í honum að þrífa, hann skefur timbrið og rífur nagla eins og vitlaus væri, svo við getum fengið kindur bara helst strax. Hann spurði mig hvort hann mætti velja sér 10 kindur þegar að því kæmi, ég sagði við hann að þá yrði hann nú heldur betur að vera duglegur og hjálpa MIKIÐ til. Þá heyrðist í honum: "Jæja, ég verð þá bara að láta tvær duga..."
Tamingar hafa gengið hægt undanfarið þar sem niðurrifsstarfsemin hefur verið í forgangi. Býst við að það verði haldið áfram í þeim í næstu viku, við erum komin með hringgerði sem ég ætla að reyna að dunda í með hrossin svona þegar veður leyfir fyrir Valgerði.
Fer suður á mánudagsmorguninn með Kolbrúnu, hún er að fara í langþráða skoðun til Háls-nef-og eyrnalæknis. Vonandi verða bara nefkirtlarnir teknir úr henni sem fyrst, þetta er alveg skelfilegt hvernig hún er alla daga. Endalaust kvef og hósti, sem endar iðulega með uppköstum og tilheyrandi.
Auglýsti eftir graðfola í hryssurnar í sumar, er búin að fá slatta af tilboðum. Folar af ýmsum stærðum, gerðum og gæðum...segi ekki meir um það. Er ekki búin að gera upp hug minn ennþá, læt það bíða aðeins lengur og sé til hvort eitthvað meira muni standa til boða. Auglýsti svona í fyrra líka og þá gat ég valið úr 12 folum minnir mig! Mig langar svolítið til að fá einhvern litahest, gaman að fá fjölbreytta liti en ekki bara alltaf brúnt og rautt ;o) Svo er það nú bara þannig að það selst frekar ef það er nógu anskoti fjölskrúðugt á litinn! Að vísu var ég með gráan í fyrra, vonandi fæ ég fallega gráa hryssu í vor, hef alltaf verið veik fyrir svona blágráum hrossum.
Jæja, þetta er nú bara orðinn heljarinnar pistill -um ekki neitt ;o) Læt þetta því gott heita í bili...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
samþykki nú seint að blogg um hesta, fé, fjárhús o.þ.h. sé um ekki neitt. Get einmitt ekki hugsað mér neitt skemmtilegra að lesa um hjá þér. Endilega meira af þessu:)
kv úr rigningunni
Heyrðu ég var að sjá mynd af manninum þínum í nýja Eiðfaxa, að grípa folald í réttunum, karlinn bara orðinn frægur :)
Haha...já hann er orðinn frægur karlinn ;)Ekki seinna vænna fyrir svona myndarmann ;o)
Svo var líka mynd af graddanum sem við vorum með seinasta sumar í þessu sama blaði -annar grái folinn sem Benni Líndal er með.
Skrifa ummæli