þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Ég er svo aldeilis bit

Ég skildi ekkert í því í seinustu viku að Stöð 2 datt út hjá okkur. Það var alveg sama hvað ég fiktaði, aldrei kom helvítið inn aftur. Lét Garðar meira að segja hífa mig í fiskikari upp á strompinn til að reyna að laga það sem að væri. Hékk þar með lífið í lúkunum í um klukkutíma og fiktaði í öllu sem hægt var að fikta í -án árangurs. Búin að kreista og klípa allar loftnetssnúrur innanhúss í von um að finna einhverja bilun- án árangurs.

Fer svo í Víðigerði í gær og ákveð að spyrja þar hvort það sé í lagi með Stöð 2 þar. Þá kemur upp úr krafsinu að við erum að fá Digital Ísland á svæðið og það sé búið að aftengja gamla sendinn! Mamma eða hvað það nú heitir var víst um helgina að dreifa nýju lyklunum á svæðinu en auðvitað var ég ekki heima þennan eina dag sem þeir áttu að hafa komið hér við.
Brunaði því út á Laugarbakka í gær til að fá nýjan lykil og viti menn, ég sé aftur Stöð 2! Og núna er Sirkus og Skjár 1 kominn líka. Og ég sem er nýbúin að fá mér gervihnattadisk og græjur af því að við náðum ekki ma. Skjá einum! Ég verð að segja að mér finnst framkvæmdin á þessu alveg til skammar, það hefði nú alveg verið hægt að senda manni smá snepil um að það ætti að fara að breyta þessu hérna. Hefði sparað mér MIKINN tíma og ÓÞARFA fyrirhöfn.

Þannig að nú erum við líklega með um 130-140 stöðvar til að góna á, þetta er náttúrulega til að gera hvern mann vitlausan. Maður situr fyrir framan sjónvarpið með hrúgu af fjarstýringum og nær yfirleitt ekki að horfa á heilan þátt af neinu því maður er alltaf að gá hvað er á næstu stöð!
Það var nú ekki ætlunin að festast við sjónvarpið þó kindurnar væru farnar sko ;o) Enda reyni ég að stjórna notkuninni eftir fremsta megni, er ansi hörð á fjarstýringunum þessa dagana!
Kannski get ég farið að halda bíó kvöld fyrir sveitungana, boðið þeim í PBR partý meðal annars ;o) Það væri ráð....

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er nokkur möguleiki á að þetta digital dót náist niðri í Víðidal líka eða verður maður að koma til ykkar og glápa á sjónvarpið hér eftir? :)

Hallfríður Ósk sagði...

heyrðu ég vissi af þessu og ég bý í Danmörku:)
Vel og vandlega auglýst á rás2

og Sigríður, þetta þarf ekkert að nást í Víðidalnum, lifi alla vega þokkalegu lífi sjónvarpslaus hérna úti og hlýt að geta það í Víðidalstungunni líka...

Nafnlaus sagði...

Djöfulsins lygi í þér Hallfríður, þetta var ekkert auglýst! Ekki fara að skemma þetta fyrir mér!
Nei, ætli þetta sé ekki sama málið og fyrir Digitalið, núna er bara kominn annar sendir á sama staðinn, fyrst þið náðuð ekki seinast þá hefur það vafalaust ekkert breyst. Þori samt ekki að fullyrða um það...

Nafnlaus sagði...

Maríanna þú verður að athuga að af því að Hallfríður er ekki með neitt sjónvarp er hún að hlusta á útvarpið á netinu alla daga svo það er ekkert að marka þó hún hafi heyrt þetta!
Og það er eins gott að þið Garðar eruð búin að eignast 3 börn því þið hafið örugglega ekkert tíma til að standa í að búa svoleiðis til komin með allar þessar sjónvarpsstöðvar :)

Nafnlaus sagði...

Já, það er lán að við náðum að unga út þessum þremur áður en við fengum allar þessar stöðvar ;o)