Hér sjáið þið mynd af stórtamningarmanninum Garðari á henni Eldingu, sem Ragnar Logi á. Ekki seinna vænna að fara að temja hana þar sem hún verður víst 7.vetra í vor. Betra seint en aldrei er það ekki?Garðar er búinn að vera með 8 af hrossunum á Blönduós þessa viku, öll komin á járn og hann er farinn að ríða öllum (nema einu reyndar) út um hvippinn og hvappinn. Það er svo mikill munur að ríða út með einhverjum öðrum og geta elt á tamningarhrossunum. Þetta eina sem hann er ekki farinn að ríða á úti er hryssan mín undan Kalman, hún er svo leiðinleg í beisli að það er ekki hægt að tjónka neitt við hana. Svo er hún klárgengari en andskotinn og það er víst ekkert gaman að eiga við hana svona úti við. Þannig að henni er bara riðið í hringgerði og unnið með hana þar. Þetta kemur allt saman á endanum vonandi.
Ég er búin að vera með ónót í mér alla þessa viku.
Þá er ég ekki að meina einhverja pest, heldur líður mér eins og eitthvað sé að fara að koma fyrir. Eitthvað vesen. Garðar er líka búinn að vera svona, það er vonandi að þetta sé bara einhver fyrirtíðarspenna í okkur báðum ;o) Skrýtið þegar eitthvað leggst svona á mann og maður veit ekkert út af hverju. Kannski fer að bresta á fyrsta almennilega hríð vetrarins, ég veit ekki!
Jæja, Valgerður farin að góla á mig, læt þetta duga í bili...



Folinn sem Víðir er með heitir Glymur, það er þessi brúni á myndinni. Hann er gullfallegur......en hörmulega illa markaður eins og kannski sést á myndinni! Förum ekki nánar út í það, mjög viðkvæmt mál hjá Garðari. Þessi rauðblesótti á myndinni er svo Parkersonurinn minn hann Varmi, hann er á fjórða vetur. Dauðlangar til að taka hann inn núna, það er bara ekki pláss fyrir hann eins og er. Kannski ég geti tekið hann á hús ef eitthvað verður sent til tengdó í eilífðartamningu ;o) Varmi er undan minni gömlu og góðu Von, sem er búin að fylgja mér ansi lengi. Henni var ekki haldið í sumar og fylgir henni nú hennar síðasta afkvæmi sem var sem betur fer hryssa. Á því miður bara eina aðra hryssu undan henni og hún verður vonandi tamin núna :o) Læt að lokum fylgja með mynd af gömlu hetjunni, fjúff...ég fer að verða búin með myndakvótann fyrir allt þetta ár!